16.02.1937
Efri deild: 2. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

Kosning fastanefnda

*Þorsteinn Briem:

Svo var að heyra á hv. formanni Framsóknarflokksins, að hann vildi ekki taka þessi tilmæli mín til greina að svo stöddu. Ég harma það, að hann er því ekki fylgjandi að taka tillit til óska minna nú þegar, en vil vænta þess, að hann við nánari athugun fallist á það. En jafnframt því verð ég að lýsa því yfir, að þau orð, sem hann lét falla um samband Bændafl. við aðra flokka, eru óréttmæt. Sjálfstfl. hefir ekki neitt samband við okkar flokk fremur en aðra flokka, nema það, sem kann að leiða af því, að báðir flokkarnir eru í stjórnarandstöðu. Við Bændaflokksmenn erum alveg sjálfstæður flokkur og munum ekki leita eftir samvinnu við einn flokk fremur en annan, frekar en það, sem málefni standa til í hvert sinn. Ég skal ekki tefja tímann með því að svara órökstuddum getsökum, og vænti þess að fá svör allra flokka um þetta mál.