06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2442)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og getið er í grg. þessarar þáltill., er hún flutt f. h. Framsfl. af okkur hv. 2. þm. Skagf. Í þáltill. er stungið upp á því að kjósa 5 manna mþn. með hlutfallskosningu í sameinuðu þingi, sem hefði tvennskonar verkefni. Í fyrsta lagi það, að endurskoða alla núgildandi bankalöggjöf landsins og gera till. um breyt. á henni, eftir því sem henni þykir við eiga. Í öðru lagi að rannsaka og reyna að finna einhverja frambúðarlausn á gengismálinu eða skráningu íslenzkrar krónu.

Eins og öllum er kunnugt, voru landsbankalögin frá 1928 undirbúin rækilega af mþn., sem til þess var sett. Þegar það mál var í undirbúningi, stöð svo á, eins og kunnugt er, að Landsbankinn var þá eini ríkisbankinn hér á landi. Síðan þetta skeði, hafa ýmsir atburðir orðið í bankamálum þjóðarinnar, sem gera aðstöðuna að ýmsu leyti gerbreytta frá því, sem hún var. Ég vil í því sambandi minna á Íslandsbankahrunið 1930, sem leiddi til stofnunar Útvegsbanka Íslands, sem hefir miklu meira ríkisrekstrarsnið heldur en Íslandsbanki áður hafði. Og auk þess nefni ég stofnun Búnaðarbankans, sem einnig hefir orðið til síðar, og er hann, eins og allir vita, rekinn af ríkinu. Ástandið er því þannig í bankamálum landsins, að það starfa hér 3 bankar, og má heita svo, að þeir séu allir reknir af ríkinu, 2 alveg og sá 3. að miklu leyti. Jafnframt er þess að geta, að þó að landsbankalögin væru rækilega undirbúin af mþn., eins og ég sagði, þá hafa bankamálin sem heild aldrei verið tekin til rækilegrar athugunar og aldrei heldur afgr. í heild sinni þannig, að gætt væri samræmis um hinar einstöku ráðstafanir. — (Forseti: Það er mikill kliður í salnum. Ég vil biðja hv. þm. að gefa gott hljóð?. Framsfl. lítur því svo á, að nú sé einmitt kominn tími til að taka öll þessi mál til athugunar og semja löggjöf um bankamálin, þar sem samræmis sé gætt í hinum einstöku atriðum, ekki einasta vegna þeirra breyt., sem hafa orðið á bankamálum hér á landi, heldur einnig vegna þeirra stórfelldu breyt. á öllu viðskiptalífi þjóðarinnar, sem orðið hafa.

Það, sem Framsfl. telur, að mest þörf sé á að athuga í þessu sambandi, er tekið fram í grg. till., og ég sé ekki ástæðu til að fara að hafa það upp hér. En út af því vil ég aðeins drepa á það, að í upphafi, þegar landsbankalöggjöfin var sett, var allmikill ágreiningur um það, hvernig seðlaútgáfunni skyldi fyrir komið. Margir litu svo á, að rétt væri að hafa sérstakan seðlabanka, sem hefði aðalforystu í peningamálum landsins, eins og þjóðbankar yfirleitt gera, en að sá banki hefði ekki bein viðskipti við einstaklinga. Þetta varð þó ekki ofan á þá, heldur var Landsbankanum falin seðlaútgáfan ásamt annari bankastarfsemi. En að þessi ágreiningur er þó ekki úr sögunni, sest m. a. á því, að frv. hefir komið fram hér á Alþ. einmitt um þetta efni. Framsfl. lítur því svo á, að það beri að taka til alveg sérstakrar athugunar, hvernig seðlaútgáfu verði bezt fyrir komið, og í sambandi við það, hvernig starfskiptingu bankanna skuli haga og skiptingu starfsfjárins á milli atvinnuveganna. Það er ákaflega líklegt, án þess ég sé þó hér að slá nokkru föstu um það, að það muni reynast svo, að höfuðgreinar atvinnuveganna í landinu þurfi hver að hafa sinn sérstaka banka. Með þessu á ég þó ekki við hvern einasta atvinnuveg, heldur höfuðgreinarnar.

Það hefir, eins og allir vita, margt og mikið verið rætt og ritað um gengismálið nú um alllangt skeið. Og fyrir hv. Nd. liggur frv. um gengisskráningu. Samkv. þessu frv. á, eftir því sem þar segir, að skrá gengið með tilliti til þess, að höfuðatvinnuvegirnir fái greitt tilkostnaðarverð fyrir útflutningsvörur sínar. Ég býst nú við, að tilgangurinn, eins og hann er settur fram í því frv., láti vel í eyrum framleiðenda. Og í fljótu bragði sýnist þetta vera ofur einfalt. En ég vil þó efast um, að margir hafi gert sér fyllilega ljósa grein þess, hvernig þetta megi tryggja með gengisbreyt. einni saman. Og frv. sjálft gefur enga skýringu á því. þeirri n., sem þar er gert ráð fyrir, er ætlað að ráða fram úr því, sem er höfuðatriði þessa máls. En vegna þess að það kemur svo fjöldamargt til greina, þegar finna á frambúðarlausn þessa máls, þá vill Framsfl. láta taka málið til nákvæmrar rannsóknar með framtíðarlausn þess fyrir augum. Og það, sem fyrir flokknum vakir, er það, að reynt verði að finna leiðir til þess, að gengi krónunnar verði eins og hægt er miðað við verð á framleiðsluvörum landsmanna og þar með þarfir atvinnuveganna, í staðinn fyrir að það hefir jafnan fylgt útlendri mynt. Það hafa komið fram stórmerkar till. um þetta efni, sem ekki hafa verið ýkjamikið ræddar meðal þjóðarinnar. Þetta allt er hið mesta rannsóknarefni, og ég hygg, að málinu sé bezt borgið að sinni með því, að n. hæfra manna taki það allt til rannsóknar og athugunar. Einmitt af þessum ástæðum leggur Framsfl. til, að milliþn. um bankamál verði einnig falin rannsókn gengismálsins, og þá að sjálfsögðu einnig gera till. um lausn þess.

Það hefði nú að sjálfsögðu getað komið til mála, ekki sízt fyrir Framsfl., sem er stjórnarfl., að fela ríkisstj. allan undirbúning þessara mála, sem ég hefi nú minnzt á. En flokkurinn lítur svo á, að hér sé um svo mikilsvert alþjóðarmál að ræða, að það þarfnist alhliða athugunar, og þess vegna sé nauðsynlegt, að öll höfuðsjónarmið, sem til eru meðal þjóðarinnar í þessum efnum, komi fram við þá athugun. Því telur hann heppilegra, að rannsóknin fari fram í mþn., sem kosin sé hlutfallskosningu í Sþ. og þannig skipuð fulltrúum allra flokka, þeirra sem á annað borð hafa það þingfylgi, að þeir fái menn kosna í 5 manna nefnd.

Hér er komin fram brtt. á þskj. 220, frá hv. þm. A.-Húnv. Ég ætla ekki að ræða um hana fyrr en hv. þm. hefir gert grein fyrir henni, en vil aðeins skjóta því fram nú þegar, að þar sem ákveðnar eru 2 umr. um þetta mál og það fer sjálfsagt til n. milli umr., þá væri heppilegra, að atkvgr. um brtt. færi fram við seinni umr., ekki sízt þar sem till. er ekki útbýtt fyrr en á þeim fundi, þegar fyrri umr. fer fram.

Vænti ég, að hv. flm. brtt. geti fallizt á þá tilhögun. — Ég sé ekki ástæðu til að mælast til, að umr. sé frestað til þess að vísa málinu til n., heldur legg ég til, að því verði vísað til hv. fjvn.umr. lokinni.