20.04.1937
Sameinað þing: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2498)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég vil taka undir það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að þetta mundi að sjálfsögðu ekki vera formleg fyrirskipun til tryggingarstj., þar sem henni væri sagt í ályktunarformi frá Alþingi að brjóta í bága við lög, sem gilda um slysatryggingar. Í annan stað vil ég benda á það, að iðgjöld atvinnurekenda vegna slysabóta eru ákveðin með hliðsjón af núv. bótaákvæðum, og þar sem til þess er ætlazt eftir þessari ályktun, að þessar greiðslur nái ár aftur fyrir sig, þá býst ég við, að það þyrfti ef til vill að hækka iðgjöldin dálítið, og það er ekki hægt að láta iðgjöldin lenda á þeim mönnum, sem hingað til hafa greitt til slysatryggingasjóðs, vegna þess að sumir þeirra eru ef til vill hættir atvinnurekstri, en á þeim tíma höfðu komið til útborgunar dánarbætur eftir eldri reglum. Fyrir þessar sakir held ég, að þessi till. verði dálítið örðug í framkvæmdinni, en hinsvegar kemur hér fram vilji Alþingis til að gera breyt. á reglunum um dánarbætur; en ég veit ekki, hvort heppilegt er, að það komi fram á þann hátt, sem gert er ráð fyrir með þessari þáltill. Ég held, að það séu mjög mikil tormerki á því, að þetta verði framkvæmt eftir þessari ályktun.