15.02.1937
Sameinað þing: 1. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minning látinna manna

Aldursforseti (SigfJ):

Ég vil byrja á því að bjóða alla hv. þm. velkomna til starfs á þessu nýsetta Alþingi.

Áður en Alþingi tekur til starfa vil ég með nokkrum orðum minnast þriggja manna, sem látizt hafa frá því er síðasta þingi sleit og átt hafa sæti á Alþingi.

Er þá fyrst að minnast Eggerts hreppstjóra Benediktssonar í Laugardælum, sem andaðist að heimili sínu 22. júlí síðastl. Hann fæddist að Breiðabólsstað á Skógarströnd 29. ágúst 1861 og var sonur séra Benedikts Eggertssonar, síðast prests í Vatnsfirði, og konu hans, Agnesar Þorsteinsdóttur bónda í Núpakoti undir Eyjafjöllum Magnússonar. Eggert fór í latínuskólann í Reykjavík, en hætti námi eftir þrjú ár og lagði stund á verzlunarstörf, var í verzlunarskóla í Kaupmannahöfn 1884–1885, bókari við verzlun á Papósi næstu þrjú ár, 1885–1888, og síðan verzlunarstjóri ár 1888–1897. Þá fluttist hann að Laugardælum í Árnessýslu og bjó þar rausnarbúi yfir 30 ár, en dvaldist síðustu árin hjá syni sínum, sem tekinn var við búinu.

Eggert Benediktsson var hinn mesti athafnamaður og einn meðal fremstu forvígismanna í flestum framfaramálum Sunnlendinga um langt skeið. Má meðal þeirra nefna verzlunarmálin, sem hann lét mjög til sín taka. Áður en kaupfélög risu upp eystra, stýrði hann um skeið pöntunarfélagi á Stokkseyri. Hann var einn meðal forgöngumanna að stofnun Sláturfélags Suðurlands og endurskoðandi reikninga félagsins frá upphafi til dauðadags. Hann átti og mikinn hlut að undirbúningi Flóaáveitunnar, stofnun Mjólkurbús Flóamanna og ýmsum öðrum málum, er til framfara horfðu fyrir héraðið. Hyggindi hans og lipurð, samfara fjöri og áhuga, þóttu jafnan koma í góðar þarfir í mörgum vandamálum sýslunga hans og stéttarbræðra. Á Alþingi átti hann þó ekki sæti nema á einu þingi, 1902, var þá 2. þingmaður Árnesinga.

Þá andaðist 12. september síðastliðinn Björn R. Stefánsson, fyrrum þingmaður Sunnmýlinga. Hann er fæddur á Desjarmýri í Borgarfirði eystra 21. maí 1880, sonur séra Stefáns Péturssonar, síðast prests á Hjaltastað, og konu hans Ragnhildar Bjargar Metúsalemsdóttur hins sterka í Möðrudal Jónssonar. Björn útskrifaðist úr Möðruvallaskóla 1899 og stundaði kennslu- og verzlunarstörf á næstu árum. Á árunum 1903-1913 var hann kaupfélagsstjóri og síðan verzlunarstjóri á Breiðdalsvík, en stofnaði þá verzlun á Reyðarfirði og rak hana um 6 ára skeið, til 1919. Þá fluttist hann til Reykjavíkur og hafði upp frá því á hendi skrifstofustörf hér í bænum.

Meðan Björn var eystra átti hann um hríð mikinn þátt í opinberum málum og hafði á hendi ýms trúnaðarstörf í sveitarþarfir og sýslu, átti m. a. alllengi sæti í hreppsnefnd Breiðdalshrepps og var oddviti hennar um skein. Hann var fasteignamatsmaður í Suður-Múlasýslu 1916–1919 og þingmaður kjördæmisins (2. þm.) sama tímabil. Hann þótti vera greindarmaður, áhugasamur um landsmál og drengur góður.

Björn Stefánsson varð bráðkvaddur á ferð í Skíðaskálanum í Hveradölum.

Loks er hér manns að minnast, sem átt hefir um langt skeið samstarf hér á þingi með mörgum þeirra manna, sem enn eru hér að starfi. Það er bænda- og héraðshöfðinginn Guðmundur Ólafsson í Ási í Vatnsdal. Hann andaðist að heimili sínu 10. desember síðastliðinn.

Guðmundur Ólafsson fæddist að Guðrúnarstöðum í Vatnsdal 13. október 1867, sonur Ólafs Ólafssonar bónda þar og konu hans Guðrúnar Guðmundsdóttur bónda og alþingismanns á Guðlaugsstöðum í Blöndudal Arnljótssonar. Hann útskrifaðist úr Flensborgarskóla 1889, reisti bú að Ási í Vatnsdal og bjó þar til dauðadags myndar- og rausnarbúi. Sveitungar hans báru snemma traust til mannsins og fólu honum margar trúnaðarstöður. Í hreppsnefnd og sýslunefnd átti hann sæti um langt skeið og í yfirskattanefnd sýslu sinnar. Hann var og í síðustu yfirmatsnefnd fasteigna landsins, og önnur störf hafði hann á hendi í almenningsþarfir. En lengst mun þó minnzt verða starfa hans hér á þingi. Hann var þingmaður Húnvetninga óslitið frá 1914 til 1933, fyrst 2. þingmaður Húnvetninga 1914–1919, 1. þingmaður þeirra 1920–1923 og þingmaður Austur-Húnvetninga frá því er kjördæminu var skipt, 1924–1933. Átti hann því sæti á 22 þingum samfellt. Forseti efri deildar var hann á síðustu 7 þingunum, 1928–1933.

Á þingi voru aðaláhugamál hans, auk ýmsra framfaramála héraðsins, landbúnaðar- og samvinnumál, og hann hafði gott lag á að koma þeim málum fram, sem hann beittist fyrir, því að samfara skapfestu og einbeittni var honum samgróin sú ljúfmennska og háttprýði, að svo mátti heita, að öllum samþingismönnum hans þætti vænt um hann. Hann leitaði lítt á aðra menn að fyrra bragði, en ef hann lenti í orðasennu, gat hann orðið meinyrtur, enda var fyndni hans og orðheppni viðbrugðið. Forsetastörf og fundarstjórn fóru honum vel og réttlátlega úr hendi. Ég hygg það sízt ofmælt, þótt sagt sé, að ekki hafi aðrir menn verið vinsælli á Alþingi en Guðmundur Ólafsson, og Húnvetningar og bændastétt landsins yfirleitt hafa með honum misst einn sinna beztu manna.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að votta minningu þessara látnu manna virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Allir þingmenn risu úr sætum.]