10.04.1937
Neðri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Sjútvn. hefir athugað þetta frv. og lagt til, að það verði samþ. með þeirri breyt., sem segir á þskj. 247. Tveir nm., hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm., hafa nokkra sérstöðu í þessu máli og gerðu ráð fyrir að flytja e. t. v. brtt. við þessa eða 3. umr.

Frv. þetta miðar að því, eins og hv. þm. er kunnugt, að setja sektarákvæði inn í l. um fiskimálanefnd o. fl., sem í ógáti höfðu fallið niður við meðferð málsins á síðasta þingi. Ennfremur hefir komið í ljós, að setja þarf refsingu við því, að fluttur sé fiskur til Þýzkalands umfram þau leyfi, sem fiskimálanefnd úthlutar. Það er mjög takmarkað, sem senda má til Þýzkalands hvern mánuð af fiski til sölu, og er því reynt að skipta þeim útflutningi á milli togaranna. Þetta þykir með arðsamari sölum, og því nauðsynlegt, að skipting hennar komi réttlátlega niður. En ef sumum togurum líðst það bótalaust að fara með miklu meiri fisk heldur en þeim er leyft, getur það orðið til þess, að aðrir togarar, sem fengið hafa söluleyfi, geti ekki notið þeirra. Sjútvn. þótti rétt, að það kæmi skýrt fram í l., að eina refsingin, sem hægt væri að leggja við slíkum útflutningi umfram leyfi, væri sú, að andvirði þess fiskjar, sem umfram er, renni til fiskimálasjóðs til ráðstöfunar í bili, og að það megi nota það til að bæta upp þeim togurum, sem verða kunna fyrir skaða vegna þessarar misnotkunar á söluleyfunum. N. leggur því til, að frv. fái afgreiðslu með þeirri breyt., sem farið er fram á á þskj. 217.