15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Þorsteinn Briem:

Ég ætla nú ekki með mínu máli að fara að stofna til þess, að fundir þyrftu að lengjast mikið. En ég vildi aðeins, út frá því, sem ég tók fram við 2. umr., óska eftir meiri skýringum viðvíkjandi þeim atriðum, sem ég benti á sérstaklega. Ég gerði í upphafi þeirrar umr. fyrirspurn til hæstv. ráðh., og þykist ég ekki hafa fengið þau svör, sem ég óskaði eftir.

Ég hefi bent á það, að vinnufólkshald og allur annar kostnaður hefði mjög aukizt frá þeim tíma, er stj. tók þessa stöð leigunámi. Sýndi ég fram á það með tölum og dæmum frá reikningum, sem ég hafði þá við hendina, að þetta nam allmikilli fjárhæð frá hverjum bónda. Ég gerði þá fyrirspurn, hverju þetta sætti. En ég hefi ekki fengið nein gildandi svör. Það verður að teljast eðlilegt, að þm. óski eftir að fá svar við því, hverju það sæti, að kostnaðurinn þarf — í stað þess að lækka um 4/5 eyris, eins og lofað hafði verið — að vaxa um allt að 21/2 eyri á lítra suma mánuðina frá því, sem áður var, og mjólkin þar af leiðandi að lækka verulega í nettóverði, miðað við 1. fl. mjólk að fitu og hreinlæti. Um þetta óskaði ég að fá skýringu við 2. umr. málsins, og þar sem ég hefi ekki fengið hana, þá óska ég enn eftir henni nú.

Ég benti líka á það við 2. umr., að bændur hér á sölusvæðinu hefðu mjög kvartað yfir því, að fitumælingarnar hefðu verið í ólagi, eftir að stöðin var tekin leigunámi, og nefndi ég einnig til þess dæmi, sem ég gat sannað með þar til heyrandi vottorðum og nótum frá mjólkurstöðinni. Kom þar í ljós, að þó að mjólkureigandinn stæði yfir á meðan mælingin færi fram, samkv. sinni eigin kröfu, og þá kæmi út fitumagnið 3,8%, þá stæðu aðeins 3% á nótunni þegar hún kæmi. Og önnur slík dæmi eru mjög algeng og hafa gefið tilefni til mikilla umkvartana af hálfu bændanna. Finnst mér þetta fyllilega svo athyglisvert, að ástæða sé til þess að gera fyrirspurn, hverju slíkt sæti.

Þá hafa og komið fram kvartanir bænda á þessu sama sölusvæði yfir því, að gerlarannsókn mjólkurinnar væri mjög ábótavant að því leyti, að bæði morgun og kvöldmjólkinni væri steypt saman, og úr þessari samsteypu væri svo mjólkin tekin í prufuglösin. Það er kunnara en á það þurfi að minnast, að slíkt gerir engin húsfreyja, sem vill koma í veg fyrir súr í mjólk sinni. Og þegar glösin eru látin standa í nokkurn tíma með slíkri samsteypumjólk, þá þykir ekki vera að marka þá prófun, sem á henni er gerð. Bændur hafa kvartað yfir því, að slík rannsókn sýni ekki þann sama gerlagróður, sem átti að rannsaka, þ. e., sem er í mjólkinni, þegar hún kemur til stöðvarinnar.

Ég hefi og bent á þá óánægju meðal framleiðendanna, sem m. a. kemur fram í yfirlýsingu síðasta fundar Búnaðarfélags Kjalarnesþings, að kostnaður sé óþarflega aukinn við stöðina, og vildi ég ennþá spyrja, hverju slíkt sætti.

Ég hefi ekki að svo komnu ástæðu til þess að fara út í fleiri atriði málsins, sem rædd voru við 2. umr., en ég vildi aðeins óska eftir að fá svör við þessum atriðum.