15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Pétur Magnússon:

Þetta mál var svo þrautrætt við 2. umr., að ég sé ekki ástæðu til þess að fara að teygja úr umr. um það nú.

Það var eitt atriði í ræðu ráðh. síðast, sem ég vildi leiðrétta. Hann sagði, að það hefði verið samið við stöðina um 5 aura hreinsunar- og flöskugjald fyrir árið 1935, samkv. upplýsingum, sem forstjórinn hafði gefið um kostnaðinn við að gerilsneyða mjólkina, en þær upplýsingar hefðu verið rangar, og að því er mér skildist, vísvitandi rangar. Þetta er röng skýrsla hjá hæstv. ráðh. Árni Eylands og einhver annar gerði áætlun um það, hver kostnaðurinn mundi verða, og sú áætlun var lögð til grundvallar, þegar samið var fyrir árið 1935. Það er því ekki rétt hjá hæstv ráðh., að hér hafi verið um villandi skýrslu frá forstjóra mjólkurfél. að ræða. En sannleikurinn var sá, að það vissi enginn fyrirfram, hver kostnaðurinn mundi verða.

Í öðru lagi vil ég rifja það upp, að hæstv. ráðh. hefir verið að yfirgefa hvert vígið eftir annað. Fyrsta vígið var það, að almenningsþörf hafi krafizt þessa. Hann hefir einnig yfirgefið það vígi, þar sem hann hugðist að sanna, að samningar hafi legið fyrir um að gerilsneyða mjólkina fyrir það verð, sem hann ákvað,og hann hefir gefizt upp við að sanna, að það verð hafi verið sanngjarnt. — Hann hefir einnig yfirgefið 3. vígið, um það, að stöðin hafi verið í því ástandi, að ekki hafi verið við unandi, og sömuleiðis hefir hann yfirgefið 4. vígið, um það, að flokkunin hafi verið svo léleg, að það hafi verið nægileg ástæða til þess að taka stöðina eignaranámi. Hann hefir orðið að játa, að áhöld, sem vantaði, komu ekki fyrr, þó að stöðin hafi verið tekin eignarnámi, heldur en þó að hún hefði verið áfram í vörzlum þeirra, sem hana áttu. — Þá er einungis eitt vígið eftir; og þaðan verst hæstv. ráðh. eins og ljón. Það er maðkaða skyrið og mygluðu ostarnir. Hana notar skyrsekkina eins og varnarvígi og myglaða ostinn eins og handsprengjur, sem hann kastar á andstæðingana í þessu máli. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem áður hefir komið fram, að hve miklu leyti staðhæfingar hans eru á rökum reistar eða ekki. Eins og málið liggur fyrir, er ekki gott að færa fram fullkomnar sannanir í því efni; þar verður að standa staðhæfing á móti staðhæfingu. En það er aðeins eitt atriði, sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðh. um: Hvernig gat hann notað þetta sem ástæðu fyrir bráðabirgðalögunum, þegar þess er gætt, að það má heita upplýst í málinu, að ráðh. hafði enga hugmynd um þetta fyrr en eftir að stöðin var tekin af Mjólkursamlagi Kjalarnesþings? Það hefir komið fram í ræðum sjálfs ráðh., að þetta hafi hann ekki vitað fyrr en eftir að skoðun heilbrigðisfulltrúa og héraðslæknis fór fram, en það var eftir að Mjólkursamlag Kjalarnesþings var búið að láta stöðina af hendi. Það liggja órækar sannanir fyrir því, að hæstv. ráðh. gat ekki byggt bráðabirgðalögin á þessum óþrifnaði. Og þar sem sýnt hefir verið fram á með óyggjandi rökum, sem hæstv. ráðh. hefir sumpart orðið að játa og sumpart orðið að víkja sér undan að svara, að aðrar réttmætar ástæður gátu ekki legið til grundvallar fyrir eignarnámslögunum, þá get ég ekki betur séð en að öllum megi ljóst vera, að ráðh. hefir algerlega brostið heimild til þessara ráðstafana sinna.