19.03.1937
Efri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

72. mál, leyfi til loftferða o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta mál hefir verið undirbúið af fulltrúum flokkanna, þannig að ég held, að allir dm. kannist við frv. og efni þess. Á síðastl. sumri kom landkönnuður dr. Vilhjálmur Stefánsson hingað til landsins sem umboðsmaður Pan American Airways Company. Samdist þá með honum og ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing frv. um að framlengja leyfi P. A. A. Co. með nokkuð frekari skilyrðum en áður voru sett.

Nú vill svo til, að fyrir liggur mjög ýtarleg grg. um þetta mál frá Vilhjálmi Stefánssyni, sem samgmn. nú hefir til athugunar.

Til viðbótar skal ég geta þess, að rætt hefir verið við Vilhj. Stef. um þátttöku þessa flugfélags í byrjunarflugi hér innanlands. Síðan hann kom vestur hefi ég fengið nokkur bréf, og skeytaskipti hafa farið fram milli ráðuneytisins og hans um þetta mál.

Þar sem endanleg niðurstaða er ekki fengin, lítur stj. svo á, þar sem félagið telur sig ekki hafa fengið fulla reynslu fyrir flugskilyrðum á norðurleiðinni, að það hljóti að vera nauðsynlegt að fá þá reynslu, sem því er samfara að hafa innanlandsflug í 2 ár. Töldum við ráðlegast að sameina það tvennt, að félagið aflaði sér reynslu, og við leggjum til okkar skerf til rannsóknanna með sérstöku fjárframlagi, sem við getum ekki komizt hjá hvenær sem innanlandsflug byrjar hér á landi. Ég hefi von um, að af þessum samningaumleitunum geti orðið sæmileg niðurstaða. En að svo vöxnu máli er ekki hægt að fullyrða, hvort málinu verði komið á verulegan rekspöl fyrr en sést, hvort frv. gengur greiðlega gegnum þingið. — Ég vildi mælast til við hæstv. forseta, að hann láti það ganga greiðlega, með tilliti til annara mála og þingskapa.

Um breytinguna, sem gerð er á lögunum, er nægilegt að vitna í grg. Ég vil aðeins benda á, að leyfistíminn er styttur úr 75 árum í 50 ár. Einkarétturinn var bundinn við, að ekki megi veita sérleyfið öðru félagi, sem er í Bandaríkjunum. En nú er leyfishafa heimilt að framselja rétt sinn samkv. leyfinu félögum, sem stofnsett eru skv. lögum einhvers af fylkjunum í Bandaríkjunum eða Canada, og leyfishafi sé meðeigandi eða hluttakandi í því félagi. Ég geri ráð fyrir, að framkvæmdir hefjist á næsta sumri, nema því aðeins, að undanþága verði veitt, og fastar flugferðir til Evrópu ættu því að geta hafizt ekki seinna en árið 1938. Ég álít okkur mikinn feng að tryggja okkur, að þessar samgöngur hefjist, og ég hefi mikla ástæðu til að ætla, að það muni sýna sig ekki síðar en á næsta sumri, hvort það verður.

Stj. hefir kynnt sér, hvort önnur félög væru líkleg til að hefja flugferðir hingað til lands. Er henni ekki kunnugt um nein félög, sem líkur eru til, að séu tilbúin að hefja fastar flugferðir á næstu árum, og telur ekkert benda til þess, að það leyfi, sem ameríska félaginu er gefið, verði til að hindra, að slík starfsemi verði hafin, því að það mun útilokað, að nokkur félög í Bandaríkjunum geti hugsað um þessar ferðir önnur en þetta félag.