04.03.1937
Efri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

12. mál, skipsstjóraréttindi til handa Pétri Sigurðssyni

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla ekki að fara út í langar umr. um þetta mál. En ég á erfitt með að trúa því, að það hafi verið bráðnauðsynlegt að ráða þennan mann rétt fyrir áramótin, eða 1½ mánuði áður en þingið átti að koma saman.

Ég sé það, að í fjárlfrv. stj. er ætlað til sjómælinga á árinu 1938 20 þús. kr., þar af í laun Friðriks Ólafssonar 10 þús. kr., og ef svo á að taka þar af laun til Péturs Sigurðssonar, þá verður ekki mikið eftir til sjómælinganna. Mér sýnist því, að ekki hefði verið nauðsynlegt að ráða manninn fyrirfram til þess að vinna fyrir þessum 5–6 þús. kr., sem að mestu leyti færu í skipsleigu, því þessar sjómælingar eru dýrar. Ég hefði haldið, að það hefði mátt komast af með, að Friðrik Ólafsson hefði á hendi þessar sjómælingar, að svo miklu leyti sem við getum efnahagsins vegna látið framkvæma þær, því að jafnvel þótt svo færi, að hann innan skamms yrði skólastjóri við stýrimannaskólann, þá ætti hann að geta unnið þetta starf á sumrin, og þá gegn minni borgun heldur en maður, sem verður að hafa sitt lífsuppeldi af því eingöngu. Mæling og hleðslumerkjaákvörðun skipa er lítið starf, og ég man ekki betur en að Páll Halldórsson skólastjóri hafi haft 500 kr. á ári fyrir að framkvæma þessi verk. (Atvmrh: Þetta hefir aukizt með l. frá í fyrra). Ég held, að borgunin hafi ekki verið aukin neitt. Þessar mælingar kunna tiltölulega fáir, en hinsvegar nauðsynlegt, að til séu menn, sem kunni þær. Ég er þó sannfærður um, að hægt er að fá ýmsa hæfa menn til að læra þetta, því að þeir fá allgóða borgun fyrir það, sem þeir vinna í þágu skipanna, að því er mæling og hleðslumerkjaákvörðun snertir.