12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

116. mál, jarðræktarlög

Páll Zóphóníasson:

Ég þarf ekki að segja mikið við hv. 2. þm. Reykv., sem sýnilega hefir ekki einu sinni lesið nál. eða grg. um málið á þskj. 116. Það þýðir ekki að ræða við þá menn, sem ekkert hafa um málið lesið, hvað þá sett sig meir inn í það. Þessu til sönnunar má benda á, að hv. þm. sagði, að það væri sett inn í l. Búnaðarfél., að einfaldur meiri hl. gæti hringlað með þau eins og hann vildi. Þetta er ekkert nema vitleysa.

Á bls. 3 sér hv. þm., að í stað þess, að áður gátu 9 fulltrúar af 14 samþ. brtt., þó þarf nú 2/3 hluta fulltrúa. Svona mikið hefir hann sett sig inn í málið, að þetta telur hann einfaldan meiri hluta. Hann hefir ekki einu sinni lesið nál., sem fyrir liggur, því síður kynnt sér málið að öðru leyti. Og svo talar hann um málið og þykist tala með þekkingu og viti!

Hv. 9. landsk. er orðinn svo vanur að lesa upp það, sem aðrir semja og skrifa, að mér þykir ekkert undarlegt, að hann þurfi að gera það líka í þessari d. Það er ekkert merkilegt, þó hann skilji ekki afstöðu mína í þessu máli; hún var og er sérstök.

Þeim verkefnum, sem Búnaðarfél. Ísl. hefir með höndum, má aðallega skipta í tvennt. Það, sem heyrir beint undir ríkisvaldið, og það, sem heyrir beint undir Búnaðarfél. sjálft. Ég hefi talið, að bezt væri að skilja þetta alveg að, en enn hafa fáir þann skilning, en hann kemur síðar. Það þýðir ekkert að tala um það, sem ekki er hægt að fá samþ. Og þegar maður fær ekki það bezta, verður maður að taka það næstbezta.

Annars vil ég unna hv. þm. þess, ef hann hefir ánægju af að lesa það, sem aðrir semja, sér til skemmtunar, — öðrum skemmtir hann ekki með því, þó efnið sé gott; það gerir meðferðin á því.