16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

65. mál, héraðsskólar

*Sigurður Einarsson:

Hv. 2. þm. N.-M. þreytist ekki á því að hafa í frammi lítinn vinarhug til þessa máls. Það kemur hið sama fram hjá honum í dag eins og í gær. Og hann hefir ekki fremur nú í dag heldur en í gær fært fram nein afgerandi rök fyrir þeirri hlutdrægni, sem hann telur rétt að hafa í frammi með því að taka Varmahlíð sem skólasetur á svo áberandi hátt fram yfir staðinn Reykhóla í Reykhólasveit sem væntanlegt héraðsskólasetur.

Í sambandi við eignarhald á staðnum (Reykhólum) vil ég minna á það, að ég flutti í fyrra till. á Alþ. um, að ríkið tryggði sér kaup á þessum stað. Ég held, að ég megi fullyrða, að hv. 2. þm. N.-M. hafi verið einn í flokki þeirra manna, sem þá lögðu sig í framkróka til þess að koma þeirri till. fyrir kattarnef, og var þá vitað, að þá var hægt að fá þessa jörð keypta e. t. v. með betri kjörum en nokkru sinni verður síðar. En þar með vil ég ekki segja, að hennar sé ekki kostur með mjög sæmilegum kjörum ennþá.

Það bæði hryggir mig og kemur mér á óvart, að framsóknarmenn skuli ganga fram fyrir skjöldu til þess að reyna að kveða niður í fæðingunni þá möguleika og þær vonir, sem menn á þessu svæði kynnu að hafa um það að geta komið upp sínum eigin skóla og menningarsetri hjá sér.