22.02.1937
Neðri deild: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Ég skal ekki auka á e. t. v. erfitt sálarástand hv. 1. þm. Rang. út af þessu máli, þangað til við fáum aftur tækifæri til þess að tala um það hér í hv. d., þ. e. a. s. ef það fer til 2. umr., og lofa honum að búa að því, hvað hann hefir rétt hlut sinn gagnvart mér í þessari umr.

Hv. þm. vildi vefengja það, sem ég sagði, að kolinn væri á öðrum svæðum heldur en innan landhelginnar þann tíma, sem hann vill banna dragnótaveiðar, og sagðist hann byggja það á sínum lesningum, nefnilega að hrygningartíminn sé um þetta leyti. Það getur verið, að við höfum báðir lesið um þetta, en í þeirri lesningu, sem ég hefi fyrir mér um þetta eftir Árna Friðriksson fiskifræðing er því haldið fram að kolinn hrygni á 50 metra dýpi. En ég ætla, að þá sé fengin nokkurnveginn vissa fyrir því, að það sé rétt, sem ég hefi haldið fram, að kolinn sé ekki á þessum tíma inni á víkum og vogum, þar sem menn munu aðallega vera með dragnætur. Ef því hv. 1. þm. Rang. ætlar að finna sínum orðum stað gegnum sínar lesningar, þá held ég, að hann ætti að fara heim og lesa betur, því að ég býst við, að hann myndi þá komast að sömu niðurstöðu og ég og sjá, að hann fer nú villur vegar, að því er þetta atriði snertir.

Hv. þm. var ákaflega drjúgur yfir því, að ég hefði alltaf tapað í okkar viðskiptum út af þessu dragnótamáli. Það er rétt, að ég hefi stundum borið lægra hlut. En við, sem höfum staðið á móti, höfum líka getað unnið allmikið á, því að í stað þess að opna landhelgina upp á gátt, eins og alltaf hefir verið vilji hv. 1. þm. Rang. og þeirra, sem standa með honum í þessu máli, þá höfum við þó getað haldið aftur af þessari fjarstæðu. Það, sem m. a. hefir unnizt fyrir okkar baráttu, er, að dragnótaveiðar í landhelgi eru ekki leyfðar fyrr en eftir lok ágústmánaðar. Það útilokar gersamlega að heita má, að Danir og Færeyingar geti komið við neinum slíkum veiðiaðferðum í landhelgi. Með því móti hefir vitanlega mikið áunnizt, því að eins og hv. þm. var að tala um, eru ekki nema fáir bátar, sem hafa talið sér fært að leita hingað innan þeirra þröngu takmarkana, sem nú gilda um dragnótaveiðar.

En með þeirri opnun landhelginnar, sem hv. þm. hefir verið að berjast fyrir og nú gerir till. um, mundi hafa verið öll sumurin fullt af Dönum og Færeyingum. Nei, — við, sem höfum staðið á móti þessu, höfum ekki tapað gersamlega, heldur höfum við bjargað dýrmætum hlut fyrir okkur Íslendinga, að Danir skuli ekki hafa átt þess kost að nota ákvæði sambandslaganna, að því er þetta atriði snertir. Það er mikilsvert fyrir okkur þar sem í hlut á þjóð, sem er 30 sinnum fólksfleiri heldur en við og í stóru hlutfalli ríkari. Okkar barátta hefir sannarlega ekki verið unnin fyrir gýg, að bjarga því eina ákvæði í sambandslögunum, sem gat verið hættulegt fyrir okkur Íslendinga. Það er því ástæðulaust fyrir hv. þm., að vera með sigurbros á vörum út af því, að við höfum farið halloka í þessu máli. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að öðru leyti heldur en því, að mér fannst koma fram leiðinleg hugsun, sem ég þekki ekki áður hjá hv. 1. þm. Rang., að það mundi ekki verða til hagsbóta fyrir okkur að fá Faxaflóa friðaðan; þetta stingur svo mjög í stúf við skilning hv. þm. á okkar þjóðarhagsmunum á ýmsum öðrum sviðum. Ég vona, að þetta sé því fremur mismæli hjá honum heldur en að hann meini þetta. Hann er nefnilega allt of gamall maður og með allt of mikla reynslu að baki fyrir því, hve mikil gullkista Faxaflói er, til þess að geta haldið slíku fram. Hér við Faxaflóa býr um ? allrar þjóðarinnar, og það er ekki einasta, að Faxaflói sé viðurkennd gullkista að því leyti, hvað mikil mergð er þar af nytjafiski, heldur líka fyrir hvað mikil uppeldisstöð fyrir ungviði fiskjarins Faxaflói er, þar sem hann liggur á næstu grösum við höfuðklakstöðvarnar, sem er Selvogsbankinn og grunnin utan við Faxaflóa, sem ekki einasta miðlar auði til afnota fyrir þá, sem stunda fiskveiðar kringum Ísland, heldur elur líka upp fisk, sem elur aldur sinn við aðrar heimsálfur, sem sé við strendur Grænlands.

Faxaflói er því í tvennum skilningi gullkista bæði sem klakstöð og svo sem sá staður, sem einna mest mergð nytjafiska elur aldur sinn árið um kring. Þess vegna er ekki hægt fyrir okkur að reikna með tölum, til hve mikilla hagsbóta, ekki einasta fyrir þennan ? hluta þjóðarinnar, sem býr við Faxaflóa, heldur líka fyrir alla þá, sem stunda fiskveiðar við strendur Íslands, það er, að þessi höfuðklakstöð fiskjarins hefir verið friðuð fyrir botnvörpuveiðum. Það er út frá þessari nauðsyn, sem barátta okkar er hafin fyrir því að færa út landhelgina. Það er sorglegt, að hv. 1. þm. Rang. skuli hafa yfirsézt svo mjög sem raun ber vitni um þessa höfuðnauðsyn. Hann festir hugann eingöngu við þá stundarhagsmuni, sem af því geta orðið að opna landhelgina. Það er þetta, sem hefir borið á milli hér á hv. Alþingi, og ég skal viðurkenna, að það er sorglegt, að þeir, sem barizt hafa fyrir þessari nauðsyn, skuli ekki hafa haldið velli, en þess er að vænta, að í því efni verði menn sterkari á svellinu hér eftir en hingað til. En það leiðir aftur á móti af sér, hverjum tökum á að taka slíkum till. um opnun landhelginnar sem felast í þessu frv.

Hv. 6. landsk. var 2. flm. að frv. sama efnis í fyrra, sem féll þá, og þykist því eiga um sárt að binda út af því. Hann var að tala um, að saltfisksalan væri að hverfa. Þetta er rétt, en við þurfum að taka upp nýjar aðferðir um verkun á þeim fiski. Þær framfarir, sem hafa orðið í þessu efni, byggjast ekki síður — og þó frekar á því, að hagnýta þá tegund nytjafiskjar með því að frysta fiskinn, í stað þess að selja hann í söltuðu ástandi, og þannig að mæta því breytta viðhorfi á sviði viðskiptanna, sem orðið hefir.

Hv. þm. komst þó ekki hjá því að viðurkenna, að það mætti þó ekki ganga lengra en góðu hófi gegndi til þess að ganga ekki of nærri ungviðinu. Það kemur berlega í ljós hjá hv. þm., þó að hann reyni að halda aftur af þeirri sannfæringu sinni, að hann telur, að af þessari veiðiaðferð geti stafað mikil hætta fyrir ungviðið. Þó að hér sé verið að tala um 20 mm. mismun á stærð botnvörpu- og dragnótamöskva, þá hefir það ekkert að segja í þessu tilfelli. Það sýnir reynslan, að hvor veiðiaðferðin sem notuð er, dregst ungviðið upp með nytjafiskunum og deyr á þilfari báta og skipa. Það þarf vitanlega ekki orðum að því að eyða, að það ungviði, sem þannig deyr, verður ekki neinum til nytja, sem nytjafiskur síðar meir. Það er þessi hætta, sem botnvörpu- og dragnótaveiðar hafa í för með sér. Og það hefir orðið til þess að vekja upp sterka öldu fyrir því, að friða meira fyrir þessum veiðiaðferðum heldur en gert hefir verið. Reynslan er farin að sýna, að þessar veiðiaðferðir eru svo stórvirkar, að það er farið að sjá stórlega á fiskstofninum á fiskimiðunum hér í Norðurálfu, og þó lengra væri leitað. Fyrst kom þetta vitanlega í ljós á þeim fiskitegundum, sem nær eingöngu á unga aldri og þegar þær eru fullvaxnar halda sér við botninn. Þessar fisktegundir eru skarkoli, lúða og ýsa. Það er einnig að verða augljóst mál, að þetta er líka að hafa meira og minna sömu afleiðingar gagnvart þeim fisktegundum, sem halda sig minna við botninn.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum um þetta. Það eru fáir menn til þess að greiða atkv. um þetta í hv. d., og ef menn vildu taka þessu máli eins og vera ber, þá væri náttúrlega æskilegast að geta gert út um það strax, auk þess sem frá sjónarmiði vinnusparnaðarins væri það líka stórum heppilegra, að það gæti fengið strax þá afgreiðslu, sem það vitanlega fær.