09.04.1937
Neðri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Thor Thors:

Ég ber hér fram brtt. á þskj. 275 þess efnis, að á Breiðafirði og Faxaflóa skuli dragnótaveiðar aðeins heimilaðar skipum, sem skrásett eru innan þeirra lögsagnarumdæma, sem að þessum flóum liggja. Þetta ákvæði er í núgildandi lögum, og verður að teljast nauðsynlegt, að það haldist í gildi áfram, því að annars má búast við svo miklum ágangi í landhelginni, sérstaklega í grennd við Ólafsvík, að það yrði mjög til skemmda fyrir alla aðilja. Ennfremur verður að telja nauðsynlegt, að þetta ákvæði haldist, til þess að fyrir það sé girt, að sambandsþjóð okkar geti komið með stóran flota til að láta greipar sópa um landhelgina á þessum slóðum. Þar sem hér er um ákvæði að ræða, sem áður hefir náð samþykki Alþingis og hefir sýnt sig að vera mjög nauðsynlegt, leyfi ég mér að vænta þess, að hv. þd. taki þessari brtt. vel.