15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi ekki getað sannfærzt af orðum hæstv. frsm. Hann leggur mikla áherzlu á, að ekki sé hægt að neita um þetta nú, þegar svo mikil vandræði steðja að sjávarútveginum. En leiðin til þess að bæta úr vandræðum hans er ekki sú, að taka ráðin af þeim héruðum, sem vilja láta banna sér og öðrum að veiða á þessum stöðum. Það er ómögulegt að líta svo á, að þessir menn, sem það vilja, telji það bjargráð fyrir sig að fá landhelgina opnaða, ekki aðeins fyrir sjálfa sig, heldur fyrir alla. Það þýðir ekkert að ætla sér að segja þeim sjómönnum, sem þykjast hafa reynslu fyrir sér í því, að þetta veiðarfæri spilli smáfiskveiðum, að þetta sé gert af umhyggju fyrir þeim. Þeir trúa því ekki. Reynslan hefir sagt þeim annað. Ef á að reyna að bjarga þeim, sem í vandræðum eru, þá ætti einmitt að fara að eins og nú hefir verið gert, að heimila einstökum héruðum að ráða því sjálf, hvort veiðin er leyfð eða ekki. Hitt nær engri átt, að ætla sér að bjarga þeim héruðum, sem eru á móti þessari veiðiaðferð, með því að fyrirskipa, að það skuli vera opin hjá þeim þau svæði, sem þeir vilja hafa lokuð.

Því er haldið mjög fram, að það geri ekkert til fyrir fiskveiðarnar, þótt þessi veiði sé leyfð. Ég vil vitna til þess, sem ég sagði áðan um það, en ég vil bæta því við, að ég get ósköp vel skilið, að þar sem er grunnt vatn, sandbotn og töluverð fiskmergð, þar geri þetta veiðarfæri mikinn usla. Og því þá ekki að leyfa þeim, sem þannig eru settir, að setja hjá sér héraðabönn. En n. vill taka réttinn af sjómönnunum á þessum stöðum, þar sem svona stendur á. En fyrir vestan er, eins og hv. frsm. tók fram, djúpt út frá landinu, og þar er því vont að nota þetta veiðarfæri. Ef til till er það af því, að ómögulegt er að nota þetta veiðarfæri þar, að þeir vilja láta leyfa að nota það. Ég skil vel, að það spilli ekki þar, sem ekki er hægt að nota það. En mér finnst, að ég geti ákaflega vel skilið, að þar, sem grunnt vatn er, sléttur sandbotn og töluverð fiskmergð, þar geti slíkt veiðarfæri gert stórkostlegan usla.