06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég verð að mótmæla þeim skilningi á frv., að það halli mest á Rvík og sé þannig „útbúið“, að hún geti engan stuðning af því fengið. Ég geri ráð fyrir að Rvík geti haft eins mikið gagn af því tiltölulega og hvert annað bæjar- eða sveitarfélag á landinu. Það er áreiðanlegt, að Rvík er það bæjarfélag, sem á hægast með að hagnýta sér I. kafla frv., ef að lögum verður, og hafa miklar vissar tekjur samkv. honum — Í öðru lagi er Rvík ekki ætluð nein sérstaða í frv. að því er snertir jöfnunarsjóð. Ef henni ber framlag úr sjóðnum samkv. hinum almennu reglum, þá fær hún það. Að vísu skapa vísitölur framfærslulaganna Reykjavík nokkra sérstöðu. En hv. 1. þm. Reykv. hefir ekki getað sýnt, að þær væru ranglátar. Og þær ástæður munu hafa legið bak við þau ákvæði, að Rvík standi þeim mun betur að vígi en önnur sveitar- eða bæjarfélög, að óverjandi væri að reikna ekki með því. Ég man ekki til, að ágreiningur yrði um þetta þegar framfærslulögin voru sett. Þá var þetta játað af þingmönnum Reykjavíkur.

Fé jöfnunarsjóðs á líka að ganga til þess að jafna kostnað bæjar- og sveitarfélaga af elli- og örorkutryggingum og kennaralaunum. Ég hefi ekki skýrslur um þennan kostnað á hverjum stað, en ég hygg mjög miklar líkur fyrir því, að Rvík muni njóta ríflegs hluta af uppbótunum samkv. þeim lið. (MJ: Já, ef hún bara fengi það).

Þá vil ég benda á 2. lið 12. gr. frv., þar sem svo er ákveðið, að því af tekjum sjóðsins, sem ekki fer til jöfnunar samkv. áðurgreindum liðum, skuli skipt jafnt milli bæjar- og sveitarfélaga í réttu hlutfalli við samanlagðan árlegan kostnað þeirra af fátækraframfærslu og elli- og örorkutryggingum og kennaralaunum. Ekki er þetta ákvæði óhagstætt Rvík. Náttúrlega er ekki hægt að fullyrða fyrirfram, hve miklum hluta af tekjum sjóðsins verður varið samkv. þessari málsgr. En líkur eru til að um 400 þús. kr. nægi til jöfnunar, svo að 3000 þús. kr. verði þannig skipt, og koma þá sennilega ein 100 þús. í hlut Rvíkur samkv. þessum lið einum. Það er því mesta fjarstæða, sem hv. 1. þm. Reykv. segir, að Rvík sé ætlað einskis að njóta af þessu frv.