23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Garðar Þorsteinsson:

Ég vil benda hv. 6. þm. Reykv. á, að þessi l. ganga ekki í gildi fyrr en 1. júní 1938, og er því ekkert því til fyrirstöðu, að ýmsar verstöðvar kæmu sér saman um það fyrir þann tíma að stofna með sér félög. Í hans till. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er þó þeim bátaábyrgðarfélögum, sem starfandi eru þegar lög þessi öðlast gildi, að halda þeim umdæmistakmörkum, sem þau nú hafa, ef þau óska þess.“ Gætu því þau félög, sem stofnuð eru fyrir 1. júní, fengið rétt til að ákveða sín takmörk sjálf. Kemur þá að því, sem ég sagði, að þær stöðvar, sem verr eru staddar, verða að bera áhættuna sjálfar áfram. Hv. þm. virðist hafa gleymt, að aðalefni þessara laga er það, að dreifa áhættunni sem mest, en auðvitað eru stór félög þess betur umkomin að taka á sig þau skakkaföll, sem þar koma fyrir, en félög sem aðeins ná til einnar verstöðvar. Í stórum félögum mundi ekki koma til þess, sem fyrir kom þegar leita varð til hv. Alþ. til að endurreisa bátaflotann í Ólafsfirði vegna einnar óveðursnætur.

Það er ekki eingöngu vegna Ólafsfjarðar, að ég er á móti þessari brtt., en löggjafanum er skylt að taka tillit til þeirra, sem þar búa, ekki síður en annarsstaðar, og hafa þessa séraðstöðu. Það verður að sjá fyrir þeim annmarka á lagasmíðinni, sem gerir þeim ómögulegt að tryggja sína báta, og það verður ekki gert nema með því að fella till. þá, sem hv. þm. Ak. og hv. (3. þm. Reykv. bera fram.