22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hvaða skoðanir, sem menn annars hafa á því hvernig tekizt hafi stjórn síldarverksmiðja ríkisins, þá hygg ég, að ekki muni vera skiptar skoðanir um það, að ríkisverksmiðjurnar hafi gert ómetanlegt gagn síðan þær voru settar á stofn, bæði að því leyti, að þær hafa tryggt atvinnuskilyrði landsmanna og með því að tryggja betur verðlagið á síldinni en ella hefði orðið. Ég óttast, að ef þetta frv. yrði að l. eitthvað svipað því, sem það nú er, þá verði miklu spillt af þeirri aðstöðu, sem verksmiðjurnar hafa nú til að rækja þetta hlutverk sitt. Hv. 1. flm. drap á nauðsyn þess að breyta til um skipun stjórnar verksmiðjanna. Hann gat þess réttilega, að þann tíma, sem verksmiðjurnar hafi starfað, hafi þessu verið breytt. Ég ætla, að ég muni það rétt, að einmitt þau árin, sem kyrrast hafi verið um verksmiðjurnar, þá hafi stjórnarmennirnir verði 3 og allir skipaðir af ráðh. Ég hygg einnig, að þetta muni vera heppilegasta fyrirkomulagið, vegna þess að ráðh., sem hefir yfirstjórn þessara mála, hlýtur ef hann hefir nokkra ábyrgðartilfinningu, að hafa það sjónarmið að velja sem hæfasta menn til þessa starfs. Hitt veit maður, að þegar í slík störf er kosið af Alþ. eftir flokkum, þá verða flokkssjónarmiðin þar fyrst fyrir. Hv. 1. flm. faldi það mikið til bóta, að í frv. væri gert ráð fyrir, að stjórnarmennirnir væru á verksmiðjustaðnum yfir veiðitímann. Ég veit ekki betur en þetta hafi nú verið þannig a. m. k. síðustu árin. Þá taldi flm. það einnig til bóta, að framkvæmdarstjóranum væri eftir frv. gefið meira vald en hann hefir haft, sérstaklega hvað viðvikur sölu afurðanna. En nú sýnist mér, að þessi valdaauki f'ramkvæmdarstjórans sé meira í orði en á borði, því að það segir að vísu, að hann annist sölu afurðanna, en þó í samráði við stjórn síldarverksmiðjanna. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel, að það hafi sýnt sig, að það sé ekki heppilegt, að það sé einn maður, sem annist söluna, heldur sé það stjórn verksmiðjanna, sem um söluna fjallar. Hv. flm. gat þess, að eflaust mundu koma fram brtt. við frv. og að sjálfsagt væri að taka þær til greina. Mér þykir vænt um að heyra þetta, en ég vona, að eins og við erum sammála um þetta, þá getum við einnig orðið sammála um þær breyt., sem ég tel nauðsynlegt að gera á þessu frv., ef það á að verða að l. (JJ: Það er nú ekki þar með sagt).

Þá eru þau ákvæði, sem hv. 1. flm. lagði mikla áherzlu á, að stj. væri ekki heimilt að gera endurbætur, sem kostuðu meira en 75 þús. kr., án samþykkis Alþ. Ég hygg, að það væri glapræði að setja slíkt í l. Jafnstórt fyrirtæki og ríkisverksmiðjurnar þurfa árlega að gera breytingar fyrir a. m. k. hærri upphæð en 75 þús. kr., og eigi að bíða með að ákveða þær breyt. þangað til þingið hefir gefið sitt samþykki til þess, þá er það víst, að það mundi gera reksturinn að verulegu leyti örðugri. Ég vil ekki þar með segja, að ekki geti verið ástæða til að setja ákvæði um, að verksmiðjustj. geti ekki ráðist í stórvægilegar nýjar framkvæmdir, — en þetta nær ekki nokkurri átt.

Þá er ennfremur lagt til, að ábyrgð ríkissjóðs fyrir skuldbindingum verksmiðjanna sé niður felld. Þetta er atriði, sem ég tel þess vert, að því sé gaumur gefinn, ekki aðeins í sambandi við ríkisverksmiðjurnar, heldur ríkisfyrirtæki yfirleitt. Ég skal geta þess, að ég teldi heppilegt, að sett yrði heildarlöggjöf um skuldbindingar ríkissjóðs vegna opinberra fyrirtækja, þar sem sú ábyrgð yrði takmörkuð, eða jafnvel afnumin, ef það þætti fært. Hinsvegar sé ég enga ástæðu til að taka síldarverksmiðjurnar út úr og fara að gera þetta með þær án þess að ráðstafanir séu gerðar til þess, að ríkisverksmiðjurnar hafi jafngóða aðstöðu eftir á til öflunar rekstrarfjár. En mér vitanlega hefir ekki verið rætt um þetta við bankana, sem hafa séð verksmiðjunum fyrir rekstrarfé, en vitanlega er sjálfsagt að heyra, hvað þeir segja, áður en farið er að breyta til um þetta. Ég gæti hugsað mér, að erfiðara mundi ganga um öflun fjár til rekstrarins, ef þetta yrði samþ., þó að það sé hinsvegar sennilegt, að það mundi fást.

Þá er loks ákvæði um það, að verksmiðjurnar skuli ekki borga út við móttöku yfir víst hámark, eða í mesta lagi 85%. Ég hygg, að það megi telja víst, að ef þetta ákvæði væri samþ., þá væri þar með byggt fyrir, að verksmiðjurnar. kæmu að sama gagni eftirleiðis sem hingað til. Á fyrstu starfsárum verksmiðjanna var allt öðru máli að gegna um þetta, því að þá voru síldarverksmiðjurnar svo fáar hér á landi, að menn höfðu ekki í annað hús að venda, ef nokkur síldveiði var, heldur en til ríkisverksmiðjanna. Nú hinsvegar, ef ríkisverksmiðjurnar ættu að borga 15% lægra verð fyrir síldina heldur en verksmiðjurnar í kringum þær, þá mundi það alls ekki vera tryggt, að þær gætu fengið svo mikla síld til vinnslu, að það yfirleitt borgaði sig að reka þær. Ef þessi breyt. yrði gerð, yrði það án efa til þess að lækka verðlagið á síldinni og spilla afkomumöguleikum sjómanna og útgerðarmanna yfirleitt.

Út af niðurlagi 11. gr., sem ég gekk út frá áðan, að bæri að skilja aðeins á einn veg, þannig, að eftirstöðvarnar fram yfir þau 85%, sem fyrirfram verða greidd, verði allar útborgaðar til síldarseljanda að loknu „uppgjöri“, er mér spurn, á hvern hátt á að jafna þann halla, sem verða kann, þó ekki séu útborgað nema 85% af áætlunarverði, því sá aflabrestur gæti vitanlega komið eða verðfall á síldarafurðum, eða hvorutveggja, að halli verði á rekstrinum með 85% útborgun, þó enginn misreikningur væri í áætluninni þegar hún var gerð. Slíkt tap varð á rekstrinum árið 1935 vegna veiðibrests. En með því að borga að fullu raunverulegt verð næsta ár á eftir, eins og frv. gerir ráð fyrir, væri ekkert fé til að jafna hallann. Verksmiðjurnar eiga þannig að bera hallann, ef áætlun bregzt meir en um 15%, en þau árin, sem reksfrarafgangur verður umfram áætlun, á hann allur að ganga til sjómannanna. Hinsvegar hefir það verið svo með fasta verðinu, að árin hafa verið látin bæta hvert annað upp; 1935 varð um 113 þús. kr. halli á verksmiðjunum, en árið 1936 mun rekstrarafgangur aftur hafa verið eitthvað yfir 200 þús. kr., sem fyrst og fremst gekk til að jafna hallann frá árinn áður, en slíkt getur ekki orðið eftir frv. Loks er gengið út frá því í frv., að verksmiðjurnar, sem áður hafa verið undanþegnar tekju- og eignaskatti og útsvarsskyldu, greiði 1% af brúttóandvirði seldra vara ár hvert til bæjareða sveitarsjóðs. Eftir því sem ætla má, að framleiðslumagnið á þessu ári seljist, hafði þetta útsvar verksmiðjanna orðið yfir 80 þús. kr. að þessu sinni. Nú er það að vísu svo, að verksmiðjur, sem eru einkafyrirtæki, t. d. á Hjalteyri, Djúpavík, Dagverðareyri og Krossanesi, eiga að greiða útsvör eins og þau gerast í þeim hreppum, þar sem verksmiðjurnar eru, en það eru litlar líkur til, að þau útsvör verði nokkuð í samræmi við þennan skatt ríkisverksmiðjanna, sem mér skilst, að nemi 15 aurum á mál, eftir málafjölda á síðastl. sumri. Auk þess er það vitað, að aðalverksmiðjur ríkisins á Siglufirði greiða marga tugi þús. kr. í hafnargjöld, sem raunverulega eru greidd til bæjarins. Ég þori ekki að fullyrða, hve miklu þan nema, en það væri hægt að upplýsa við 2. umr.

Þá er hér tekið upp ákvæði úr eldri l. um hámarksverð á þeim vörum, sem verksmiðjurnar selja bæjar- og sveitarfélögum, búnaðarfélögum og samvinnufélögum bænda. Ég tel rétt að breyta ákvæðum gildandi l. í þessu efni, þar sem þau hafa reynzt nær óframkvæmanleg; ég vil því taka til athugunar þessar till.

Þá kom hv. 1. flm. inn á það, að þessi atvinnuvegur væri farinn að grípa inn í sjálfstæðismál þjóðarinnar, og var að heyra, að honum þætti það illa farið. Ég held, að telja megi þetta gleðiefni. það segir sig sjálft, þegar síldveiðin er orðin þetta stór þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar, að útflutningur síldarafurða er nær 25 en 20 millj. kr. á ári, að þetta er orðið mikið sjálfstæðismál fyrir þjóðina. Hv. flm. fannst þetta ískyggilegt, ef svo á sama ári skyldi bregðast bæði þorsk- og síldveiði, sagði hann, hvernig á þá að fara að? Ég get ekki svarað þeirri spurningu, og henni er ekki heldur svarað í frv. Hvenær síldin veiðist eða bregzt og hvenær þorskurinn veiðist, hvort þau veiðast sitt árið hvort eða bregðazt bæði samtímis, það getur enginn ráðið við, það fer eftir þeim lögum, sem við getum ekki breytt. Það eina, sem í okkar valdi stendur, er að treysta atvinnuveginn sem bezt, en ég tel, að það sé síður en svo gert í því frv., sem hér liggur fyrir, og ég held, að þetta frv. stefni alveg í öfuga átt frá því, sem nú er.

Þá vitnar hv. þm. mjög í Magnús heitinn Kristjánsson og taldi það fullvíst, að Magnús Kristjánsson mundi aldrei hafa beitt sér fyrir stofnun ríkisverksmiðjanna, et hann hefði fyrirfram vitað, að sá háttur yrði upp tekinn, að þjóðnýta þær eins og nú væri gert. Ég verð að efast um, að þetta sé rétt hjá hv. þm. Ég man ekki betur en að heimildarákvæðið um fast verð á síldinni sé frá því þingi, sem fyrst setti l. um síldarverksmiðjur ríkisins, flutt af Magnúsi Kristjánssyni. Ég ætla, að hv. þm. geti flett upp í þingtíðindunum frá þeim tíma til að sannfærast um, að þetta er rétt. Auk þess er það vitað, að Magnús Kristjánsson var ekki andvígur ríkisrekstri; hann talaði t. d. rækilega fyrir því, að ríkið hefði smjörlíkisiðnaðinn á hendi, svo ég held. að það sé ástæðulaust af hv. þm. að fullyrða það, að Magnús Kristjánsson hafi verið andvígur þjóðnýtingu síldarverksmiðjanna. Ég læt svo þetta nægja að sinni; ég set mig ekki móti því, að frv. fari til n., en ég vil vona, að þingið hendi ekki sú slysni að samþ. það eins og það liggur fyrir.