22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég ætla ekki að svara hæstv. atvmrh. neitt ýtarlega að þessu sinni, af því ég veit, að frv. verður tekið til sæmilegrar athugunar í n., en aðeins víkja að nokkrum atriðum.

Ég held, að áheyrendur hafi orðið varir við það, að það, sem á milli ber mín og hæstv. ráðh., og að nokkru leyti hv. síðasta ræðumanns, er pólitískur stefnumunur. Hann og hans flokkur vill eðlilega ríkisrekstur á verksmiðjunum, því það er þeirra höfuðtakmark, og í því tilfelli hefir Alþfl. orðið svo heppinn sumpart fyrir dugnað sinna manna og sumpart fyrir vandræði, er leitt hafa af kreppunni. að það hefir orðið ríkisrekstur á þessum verksmiðjum.

Það er rétt, að Magnús heitinn Kristjánsson var með því, að verksmiðjurnar mættu kaupa síld fyrir fast verð, þegar þurfti að fylla í eyður, sem komu milli þess, að síld byðist til vinnslu. Og ég býst við, að Framsfl. gæti gengið inn á það, að sú gamla regla héldist, að kaupa mætti þannig við föstu verði allt að 15% af þeirri síld. er verksmiðjurnar tækju til vinnslu. Allt sem er fram yfir það, er ákveðin stefna, sem við framsóknarmenn munum ekki sætta okkur við. Alveg á sama hátt og það er skoðanamunur milli mín og hæstv. ráðh. um þetta atriði, um allan reksturinn, um það, hvort þetta eigi að vera á ábyrgð einstaklinga eða ríkisins, þá er smávægilegur skoðunarmunur viðvíkjandi stjórn síldarverksmiðjanna, en þar vísa ég aftur til þess, sem frv. gerir ráð fyrir, að þingið útnefni menn í stjórnina, og eins og nú hagar til á þinginu, þá yrðu það menn úr 3 aðalþingflokkunum, sem hefðu þar fulltrúa. Aftur á móti eru það leifar af þessu gamla ástandi, sem kom óvart, og hæstv. ráðh. minntist á í ræðu sinni, þegar hann vill, að ríkisstj. hafi hönd í bagga með. Það á að reyna að fjarlægja ríkisstj. frá áhrifum og ábyrgð, eins og skýrt er tekið fram í ákvæðinu um fjármálin, með því að reyna að láta þetta fyrirtæki vera á ábyrgð framleiðenda, en að því sé aðeins lánað af ríkinu. Þá er horfið hið upprunalega ástand, þegar ríkisstj. átti að vera einskonar hemill. Nú getur það orðið með ýmsu móti, og ef síldarverksmiðjurnar eru reknar sem áhættufyrirtæki, eins og ég tel, að verið hafi undanfarin ár, þá er , það mesta ólán fyrir hvaða ríkisstj. sem vera skal að grípa þarna inn í, því að þá verður henni oft kennt um ýmislegt, sem ekki er hægt að kenna henni um, eins og t. d. fiskileysi, og er hæstv. ráðh. sjáifsagt vel kunnugt um það af reynslunni. Ef þingið hallast að því að láta verksmiðjurnar vera sem mest á ábyrgð framleiðenda, þá er rétt, að ríkisstj. blandi sér sem minnst og helzt ekkert inn í þetta, nema að því leyti sem fjmrh. gerir það til þess að tryggja, að hið raunverulega veð ríkisins ekki skerðist; og eins er hitt, að móttaka síldar til vinnslu fer alveg eftir þessu. Ef þingið gengur að ríkisrekstri á þessu og „spekulation“, þá á að fella frv. Þá ætti helzt að hafa þetta allt á ábyrgð ríkisins, „spekulationina“ sem mesta, láta hæstv. atvmrh. útnefna stjórnina og helzt að koma því þannig fyrir, að hann gæti daglega fengið í gegnum útvarpið fréttir um það, sem gerist hjá hinum ýmsu síldarverksmiðjum. Í rauninni mátti næstum skilja það á ræðu hæstv. ráðh., að hann langaði til þess að hafa þennan blæ á því. Nú er þessu engan veginn breytt af hálfu okkar flm., hvorki af vantrausti né heldur af trausti á núv. hæstv. stj., því að eins og allir vita, er ekki hægt að miða svona mál við það. Þó að við álítum þetta ágæta stj., þá getur þessi stj. farið á morgun og vond stj. komið í staðinn, og þess vegna sjáum við ekki neina ástæðu til þess að binda svo merkilegt mál við ráðh., sem nú eru í stj.

Eins og hv. 9. landsk. tók fram, er 6. gr. frv. um takmörkun á sjálfsákvörðunarrétti verksmiðjustj., og það er eðlilegt át frá því, sem ég hefi áður sagt, að landið má á engan hátt reka þetta sem áhættufyrirtæki, og það er geysilega ógætilegt, ef með þessar milljónir, sem landið leggur í fyrirtækið og erfitt er fyrir landsmenn að átta sig á, hvernig með er farið, er leyft að fara eins og hingað til, og verksmiðjustjórn og framkvæmdarstjóri fara með þessa hluti eins og þeim sýnist, og ég veit, að við nánari athugun sér hæstv. ráðh., að þetta getur ekki þannig gengið. En hitt er komið undir mati þingsins, hvort sú upphæð, sem hér um ræðir, verður lítið hærri eða lægri. Það mætti m. a. finna hana á meðan þing stendur, og fá nákvæmlega út frá reikningum verksmiðjanna, hve miklu er eytt í endurbætur, til þess að styðjast víð það, en ég býst við, að það sé rétt að skjóta því til hæstv. stj., að ein af ástæðunum til þess, að ég býst við, að það verði ákaflega erfitt að fá núv. Alþingi til þess að hafa þetta eins og verið hefir, er sú, að verksmiðjustjórinn, sem hefir verið undanfarið, hefir verið mjög stórvirkur í breytingum, og þessar breytingar munu vera í mesta máta umdeildar, en ég mun ekki fara út í það við þessa umr., en ég get vel hugsað mér, að ef alltaf hefði verið sami verksmiðjustjóri og upphaflega, Ottesen, hefði þessi hlið málsins ekki verið eins ljós og nú. Út af því, sem hv. 9. landsk. sagði um 2. gr., forkaupsréttinn, vil ég taka það fram, að þetta er ákvæði, sem hefir verið í lögum áður, og ég verð að játa, að ég álít orka tvímælis um það, hvort það hefir mikið gildi nú. Ég hygg, að ríkið megi frekar óttast, að á næstu árum fái það of mikið á sínar hendur af verksmiðjum, sem ekki bera sig, og lenda á landinu, af því að það hefir gengið í ábyrgð fyrir þær, heldur en að það þurfi að kaupa fleiri. Hæstv. ráðh. áleit það mjög háskalegt, að gert er ráð fyrir því, að verksmiðjurnar taki síldina aðallega til vinnslu fyrir reikning framleiðenda. Þetta er tekið fram nokkuð ákveðið í 9. gr. frv. og er flutt af okkur flm. til þess að þetta verði tekið til meðferðar. Við erum ekki svo sannfærðir um, að ekki sé hægt, eins og talað er um í stofnfrv., að kaupa eitthvað, en við viljum, að þingið finni, hve mikið er hér í húfi, og þykist ég vita, að við því verði séð. Hæstv. ráðh. hefir nú fengið svar frá Sjálfstfl., sem ég get tekið undir, viðvíkjandi því, hvernig yrði farið með tap hjá verksmiðjunum, ef þær væru ekki „spekulations“ fyrirtæki, og það leiðir af sjálfu sér og öllu eðli málsins, að það tap, sem kynni að verða á vinnslunni eitthvert ár — en verksmiðjurnar hafa varasjóði — eða að síldin seldist ekki nema 80% af því, sem áætlað hafði verið, yrði auðvitað að taka á næsta ári alveg eins og óhjákvæmilegan slitkostnað við verksmiðju, svo að þetta geta menn spurt um í gamni, en ekki í alvöru. Ég vil í þessu sambandi visa hæstv. ráðh. á reynslu hans ágætu frænda, kaupfélagsmannanna, sem áttu svo mikinn þátt í uppbyggingu samvinnufélaganna. Þar hefir þetta fyrirkomulag verið framkvæmt skilyrðislaust um langan tíma á þann hátt, sem við bentum á, hv. 9. landsk. og ég, að það tap, sem verður hjá fyrirtæki, sem selur vörur með ákveðnu verði. er unnið upp aftur á þann sama hátt, af því að það eru yfirleitt sömu mennirnir og sama stéttin, sem hefir þá fengið of mikið. Til þess að gefa hæstv. ráðh. tækifæri til að koma með nýja skýringu á þessu máli viðvíkjandi því, hvort það eigi að kaupa síldina eða taka hana með áætluðu verði, þá ætla ég að seg,ja honum, að eftir því, sem ég veit bezt, hefir hans eigið kjördæmi og sá hluti þingsins, sem treysti honum og Seyðfirðingum í sínum atvinnurekstri, og raunar við allir, en enginn frekar en hæstv. ráðh., haft ástæðu til að óska að tillögur Þorsteins M. Jónssonar um síldarmálin hefðu verið í heiðri hafðar í fyrra, en ekki tillögur flokksmanna hæstv. ráðh., og skal ég skýra það. Við vitum það öll, að Seyðfirðingum var fyrir ötula framgöngu þm. kjördæmisins, hæstv. atvmrh., hjálpað til þess að koma upp atvinnufyrirtæki, sem að nokkru leyti var síldarbræðslustöð og að nokkru leyti íshús, og það var öllum fyrirfram ljóst, að þetta var miklum erfiðleikum bundið, vegna þess að það var ekki mikil síld fyrir austan, en samt var lagt út í þetta. 1ú kemur það í ljós í sumar, að þetta fyrirtæki, sem hefir allgóðar vélar og fekk mikla síld í sumar, á við sérstaka örðugleika að stríða út af því, hvað síldarverðið var hátt ákveðið af síldarbræðslustjórninni. Ef ákveðið hefði verið t. d. verðið 6.50 kr. — ég nefni aðeins þá tölu í þessu hugsaða dæmi —, þá er það engan veginn útilokað, að þeir, sem lögðu síld upp á Siglufirði, fengju 8 kr., því það vitum við ekki fyrr en reikningarnir koma. En vegna þess að Siglufjörður, sem hafði bezta aðstöðuna, lá bezt fyrir síldinni og hafði mest síldarmagn, ákvað 8 kr. verð, þá urðu verksmiðjurnar á Seyðisfirði og Norðfirði, með hina veiku aðstöðu, að kaupa síldina með sama verði. Það, sem þessar verksmiðjur og aðrir, sem lakast eru settir í þessu efni, eiga við að stríða, er það, að skipaeigendur vilja síður koma til þeirra, og helzt ekki nema fyrir hærra verð, og þegar komið er með vöruna þangað austur frá Norðurlandi, er síldin ef til vill ekki alltaf jafngóð eins og ef farið væri styttra með hana. Niðurstaðan er sú, að báðar þessar verksmiðjur eru sem stendur algerlega fjárhagslega eyðilagðar, og höfuðástæðan er „spekulations“-verðið á Siglufirði, — hvorki meira né minna. Í mínu kjördæmi er búið að byggja litla síldarverksmiðju, á Húsavík, sem gerð er af góðum hug og í von bæði íbúa Húsavíkur og bænda upp um allt hérað og einnig fólks hér í bæ, sem ættað er úr Þingeyjarsýslu. Þegar þessi verksmiðja var tilbúin í haust, en hún var ekki tilbúin fyrr en eftir síldartímann, þá kom frétt um það, hvernig viðskipti síldarverksmiðjanna á Austurlandi höfðu verið við hina voldugu síldarbræðslustjórn á Siglufirði, og þá var oddvitinn á Húsavík, sem er mjög duglegur maður, einn af þeim, sem beittu sér fyrir því að spyrja þm. kjördæmisins og aðra hv. þm. að því, hvort þeir væru með því, að ríkið keypti síldarbræðslustöðina á Húsavík strax. Hann sagði, að þeir vildu heldur selja föðurlandinu verksmiðjuna strax en að lenda í sömu erfiðleikunum og þeir fyrir austan og selja svo. Það sem ég vildi skjóta til hæstv. stj., er það, að ég get ekki annað séð en að þjóðbankinn fyrst og fremst sé skyldugur til að taka þetta „problem“ upp. Ef hann leggur fé í lán til rekstrar síldarverksmiðjanna á Húsavík, Seyðisfirði, Norðfirði og dálítið í rekstur verksmiðjunnar á Hesteyri og öðrum útkjálkum, þá er bankinn skyldugur til þess að sjá um, að með því að hjálpa ríkisverksmiðjunum á Siglufirði sé ekki verið að eyðileggja. Eg ætla ekki að fara dult með það, að mér dettur ekki annað í hug, sem bankaráðsmanni í Landsbankanum, en að taka þetta til yfirvegunar í vetur frá bankans og landsins sjónarmiði. Ég kem þar ekki fram sem framsóknarmaður, heldur sem Íslendingur, og ég get sagt hæstv. ráðh. það, að ég ætla ekki að greiða atkv. um það, að þetta glæfraspil haldi áfram, hvorki á Siglufirði né annarsstaðar, og ég ætla ekki að spyrja hæstv. ráðh. um það. Til þess að gera hæstv. ráðh. ekki allt of hræddan við það, að það þurfi að vera slíkur hálfkæringur við það bundinn að vinna úr vörunni á ábyrgð framleiðenda, þá ætla ég að nefna tvö dæmi, annað, sem öllum er kunnugt um, að nálega öll kjötframleiðsla sveitabænda fer í gegnum samvinnufélögin og er seld á þann hátt, að kaupmannastéttin, að svo miklu leyti sem hún kaupir kjöt, kaupir það undantekningarlaust með því að borga það eins og samvinnufélögin. Komi þróttmikil síldarbræðslustjórn, sem á að koma og kemur, hvenær sem það verður, og gætileg stjórn á síldarverksmiðjunum, þá á að laka vöruna aðallega til vinnslu fyrir framleiðendur, og þeir fá svo það fyrir vöruna, sem hún selst fyrir á hverju ári. Við, sem stöndum að einhverju leyti að kaupfélögunum og höfum séð þessa venju myndast þar og höfum séð kaupfélögin vaxa upp sem styrka stofnun og friðsamlegt fyrirtæki án byltinga eða stór„spekulations“, við höfum „móralska“ skyldu til þess í viðbót við það, að við höfum byggt upp þetta fyrirtæki, að láta okkar reynslu ekki fara forgörðum. Það hefir verið traðkað á rétti Siglfirðinga fyrir þroskaleysi fárra manna, sem skipt hafa við þá, bæði sjómanna, leiðtoga þeirra og ýmissa útvegsmanna, og það er langt frá því, að hæstv. ráðh. geti búizt við því, hvernig sem fer með þetta frv., að þetta mál sé útkljáð, vegna þess að það, sem hér kemur til greina, er það, að menn verða að fara að hugsa um, hver á að síðustu að borga. Hæstv. ráðh. veit, að síldarverksmiðjurnar hafa safnað skuldum undanfarin ár. (Atvmrh.: Ég held að hv. þm. viti ekki, hvað hann er að fara með). Ég vil biðja hæstv. ráðh. um að líta ofan í Landsbanka og vita. hvernig reikningarnir standa. Ég er bankaráðsmaður og veit, hvernig þetta er. (Atvmrh.: Og ég er síldarmálaráðh.). Ég get upplýst hvernig reikningarnir standa, ef ekki á að skoða það sem leyndarmál.

Ég vildi óska, að síldarverksmiðjurnar væru skuldlausar við Landsbankann, en ég er hræddur, um að hæstv. síldarmálaráðh. verði fyrir vonbrigðum í því efni. Ég hefi sýnt fram á, að það væri ákaflega undarlegt af samvinnuflokki á Alþinginu, sem hefir sögulega afstöðu til verksmiðjumálsins og hefi reynslu í því, hvernig á að reka slík fyrirtæki, ef hann léti nokkurt tækifæri ónotað til þess að koma verksmiðjunum á þennan grundvöll. Ég segi ekki þar með, að það megi ekki, eins og Magnús Kristjánsson hélt fram, kaupa dálítið af síldinni til þess að fylla í eyður. því til sönnunar, að það eigi að koma sjávarútveginum inn á hliðstæða braut í þessu efni, vil ég benda hæstv. ráðh. á það, að í Vestmannaeyjum er allt lýsi, sem þar er framleitt af sjómönnum og útvegsmönnum, unnið í einni félagsstofnun, sem rekin er eins og ég álít, að eigi að reka síldarverksmiðjurnar, á ábyrgð framleiðenda, og það hefir reynzt þannig, að engum í Vestmannaeyjum dettur í hug að selja sína lifur annarsstaðar. Þarna er því fengin reynsla um sjávarframleiðslu í sjávarþorpi um það, að þessi stefna, sem þetta frv. er byggt á, hefir fengið stuðning hjá þeim, sem framleiða sjávarútvegsvörur.