21.12.1937
Neðri deild: 58. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ólafur Thors:

Ég hefi leitt þetta mál nokkuð hjá mér víð 2. umr. og sé ekki heldur ástæðu til að fjölyrða um það nú, að undanteknum örfáum atriðum. Út af hinum mikla fyrirlestri hv. 5. þm. Reykv., þar sem hann las upp nokkrar mjög rökfastar og ánægjulegar greinar frá 1936 eftir mig í sambandi við síldarverðið, vil ég segja hv. þm., að það, sem ég þar skrifaði, er ég reiðubúinn að leyfa honum, ásamt þeim rökum, sem þar koma fram, að leggja til grundvallar mínum afskiptum af síldarverði næsta síldveiðitímabils, bæði hjá ríkisverksmiðjunum og öðrum. Þetta liggur allt mjög ljóst fyrir. Hv. þm. Ísaf., sem þá var form. verksmiðjustj., vildi, að síldarverðið yrði kr. 5,30, þótt olíuverðið væri £17–10–0 og hans skýri útreikningur var byggður á því, að mjölverðið væri £8 til 10. Dæmið liggur ljóst fyrir; það er aðeins að reikna, hvað yrði útborgað og hvað það lækkar eða hækkar eftir verðlagsbreytingum á mjöli og olíu. Í greinum sínum hefir hv. þm. Ísaf. haldið því fram, að reikna mætti með 20 smálestum af mjöli og olíu úr hverjum þúsund málum af síld, og það þýðir, að verksmiðjunni yrði gert að hækka útborgun um sem svarar 40 aurum fyrir hvert pund sterling. Ég hélt því fram, að verksmiðjurnar gætu greitt 6 kr. Ég rökstuddi það með því, að það mætti ekki vera ófrávíkjanleg regla, að ríkissjóður. sem ber ábyrgð á rekstrinum, heimti alltaf meira af sjómönnum og útgerðarmönnum en þeim er gert með l. að greiða í sjóði verksmiðjanna. Það hefir sýnt sig, að árið 1936 var hægt að borga sex krónur á mál, og standa samt í skilum með allar tilskildar greiðslur.

Ég kem þá að hv. 5. þm. Reykv. Hann spurði, hvað hefði þá átt að borga í vor, og reyndi að snúa út úr orðum mínum. Ég sagði, að samkv. því, sem nú væri komið á daginn, hefði átt að borga 7.50 kr. til 8.00 kr. málið í vor. (EOI: Morgunblaðið sagði 8,50 kr.) Heldur hv. þm., að allir sjálfstæðismenn þurfi að skrifa undir hvert orð, sem stendur í Morgunblaðinu? Er Þjóðviljinn svo skrifaður af hv. þm., að allir flokksmenn hans verði að fara eftir því, sem þar stendur? Ég ber virðingu fyrir þeim góðu flokksbræðrum mínum, sem annast ritstjórn Morgunblaðsins, en ég læt þá ekki segja mér fyrir verkum um öll mál. Þessir reikningar eru svo einfaldir, að hver maður, sem kann litlu töfluna, getur leyst úr þeim hjálparlaust. Annars skal ég segja hv. 5. þm. Reykv., að það er of snemmt fyrir hann að fara á atkvæðaveiðar út af þessu máli; ég mun byggja mínar tillögur í framtíðinni á mínum fyrri skrifum um þessi mál. En ég er fylgjandi þeim breytingum, sem hér á að gera, ekki sízt vegna þess að ég tel málunum betur borgið, ef þessar stofnanir eru teknar úr höndum hv. þm. Ísaf., sem mest völd hefir haft í þeim undanfarið. Og sízt situr það á hv. 5. þm. Reykv. að tala um sinnaskipti í þessu máli; ég veit ekki betur en að hann sé nú skriðinn upp í flatsængina hjá hv. þm. Ísaf., sama manninum, sem réð því að sjómenn fengu ekki nema 5.30 kr. fyrir síldina, þegar ég og hv. 5. þm. Reykv. töldum, að hægt væri að borga sex kr.

Annars eru það undarleg rök, að vegna þess að einhverjir menn úr Sjálfstfl. hafi meiri ítök, meiri hagsmuna að gæta í síldarbræðslunum, þá gleymi flokkurinn þeim þúsundum sjómanna, sem hann hafa stutt, og fórni hagsmunum þeirra vegna örfárra atvinnurekenda.

Ég fer ekki út í það að ræða mína eigin mannkosti hér á þessum vettvangi, en ég er ekki sá rati, að láta mig henda það að renna frá allri minni fortíð af því að Kveldúlfur hefir nú eignast tvær síldarverksmiðjur, í stað einnar áður. Nei, það er of snemmt fyrir hv. þm. að fagna sigri, ég skal gera honum örðugar kjósendaveiðarnar. Hann vill hafa mig út í það, að, hugsa eingöngu um gróðann af síldarbræðslum Kveldúlfs, og ætlar svo að ná þeim mönnum á sitt band, sem undanfarin ár hafa í stöðugt vaxandi mæli fylkt sér um Sjálfstfl. Þess vegna leggur hv. þm. nú hina mestu áherzlu á að svo, að ég hafi kyngt fyrri fullyrðingum mínum og skrifum um þessi mál, og beiti nú mínu pólitíska áhrifavaldi til þess að vernda hagsmuni þeirra félaga, sem en hefi gróðu af. Ef ég léti stjórnast af slíkum eiginhagsmunum einvörðungu, þá ætti ég ekkert sæti á hv. A1þ. En hvað sem innræti mínu líður, þá vona ég, að hv. þm. ætli mig ekki svo heimskan, að ég fari að gera annað eins og þetta. Hinsvegar vona ég, að hv. 5. þm. Reykv. læri af þeim góðu og vei skrifuðu greinum, sem hann las upp eftir mig, bæði um rökfærslu og réttan málflutning.

Ég hefi fulla ástæðu til að hrekja eitthvað af verstu firrunum, sem hér hafa verið á borð bornar, en mun þó ekki gera það, þar sem ekki er líklegt, að ræðuhöld hafi nein áhrif á úrslit málsins úr því sem komið er.