18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

1. mál, fjárlög 1938

*Ísleifur Högnason:

Herra forseti, góðir hlustendur! Því hefir verið lýst hér á Alþingi, hvernig hag sjávarútvegsins er nú komið, og þær áætlanir, sem útgerðarmenn hafa samið um væntanlega afkomu togara og mótorbáta árið 1938. gefa ekki glæsilegar vonir um framtíð þessa þýðingarmikla atvinnurekstrar.

Þessar áætlanir ber þó að taka með varfærni. Það má búast við. að framundan séu og það innan skamms, deilur um launakjör sjómanna, og er þá jafnan venja útgerðarmanna að uppmála ástandið enn skuggalegri litum en ástæður eru til. Til dæmis má geta þess, að árið 1935 nam kolaeyðsla hvers togara tæpum 56 þúsund krónum, en samkv. áætlun þeirri, sem nú liggur fyrir um kolaeyðslu hvers togara að meðaltali, er eyðslan áætluð ca. 1110000 krónur. Að vísu hafa kol hækkað nokkuð í verði, en þó ekki svo, að skeiki tæpum helmingi.

Þó að því skuli ekki neitað, að horfurnar um gróðamöguleika togaraútgerðarinnar á komandi ári séu ekki miklar eru viðhorf sjómanna til komandi árs miklu dapurlegri vegna aukinnar dýrtíðar; sem hlýtur að leiða til aukins skorts meðat sjómanna, ef þeir ekki ná verulegum kjarabótum frá því, sem nú er.

Ég ætla ekki að fara að rekja sögu sjávarútvegsins hér, en á það ætla ég þó að minnast, að allt fram til ársins 1930 hafa togaraeigendur rakað saman gróða, þótt undantekningar megi finna. Þessum gróða hafa þó togaraeigendurnir ekki varið sem skyldi til endurnýjunar skipastólnum. heldur notað gróðann til annars, aukinna lífsþæginda, húsa- og jarðakaupa, o. s. frv. Á þetta eflaust rót sína að rekja til þess, að flestir þessara togaraeigenda hafa mestan áhuga fyrir því að klippa arðmiðana af hlutabréfum sínum, menn sem á blómaskeiði útgerðarinnar hugsuðu einvörðungu um gróðann. en ekki um hina þjóðfélagslegu þýðingu útvegsins.

Um mótorbátaútveginn gegnir öðru máli. Eigendur bátanna vinna flestir sjálfir meira eða minna að útgerð sinni og láta sér miklu meira annt um framtið útvegsins, enda verður naumast um það deilt, að viðhald og endurnýjun mótorbátaflotans er mun betra en togaranna. Undanfarin tvö aflaleysisár á þorskveiðunum við Vestmannaeyjar og Faxaflóa hafa þó mjög þrengt að smáútvegsmönnum á þessum verstöðvum.

„Stóru þingflokkarnir þrír“ — en svo vilja þeir láta kalla sig, Sjálfstæðis,- Framsóknar- og Alþýðuflokkurinn — hafa allir tjáð þessum aðþrengdu atvinnuvegi hollustu sína. Strax í byrjun þessa þings birtist fyrsta viðreisnartillaga sjálfstæðimanna í frv. þeirra um vinnulöggjöf. Með frv. þessu var stefnt að því að takmarka verkfallsrétt verkalýðsins, og þó að ýmiskonar málskrúði um „jafnrétti“ og „frið“ væri ofið inn í greinargerð frv., var tilgangurinn auðsær: Aukið misrétti á kostnað verkafólks og sjómanna, bætt skilyrði atvinnurekenda til að lækka laun verkalýðsins á sjó og landi.

Annað aðalbjargráð mun eiga að felast í frv. um síldarbræðslur ríkisins, sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn lögðu fram í Ed. –Frv. þetta mun eiga að afgreiða sem lög frá þessu þingi. Enda þótt því sé ekki lýst í greinargerð frv., hver tilgangur þess sé, er það auðsætt, að með lögum á að lækka verð bræðslusíldar til hlutamanna og útvegsmanna, annara en þeirra, sem eru svo lánsamir að eiga sjálfir síldarbræðslur, en það eru Kveldúlfur og Alliance. Þessi tilgangur kom skýrt í ljós í ræðu hv. þm. Barð. er hann varði frv. við 1. umr. í Nd. Hann sagði, að síðastl. sumar hefði hans flokkur ekki viljað ákveða hærra verð en sjö krónur fyrir síldarmálið, en það var átta krónur. Ennfremur sagði hann, að ef frv. yrði að lögum og stjórn síldarverksmiðjanna ákvæði lægra verð en efni stæðu til, myndi það ekki koma til með að verða síldarbræðslum ríkisins hættulegt í samkeppni við aðrar bræðslur, því að þær mundu fara að dæmi ríkisbræðslanna og ákveða sama verð. Það er auðskilið mál, að á þennan hátt eru skapaðir miklir gróðamöguleikar eigi aðeins fyrir síldarbræðslur ríkisins, heldur og fyrir síldarbræðslur Kveldúlfs og Alliance, og skilur maður þá jafnframt áhuga landsbankastjórnarinnar fyrir því að lækka síldarverðið, því að það mundi þýða lækkun á skuldasúpu Kveldúlfs við bankann. Það er eftirtektarvert, að engir sjálfstæðismenn í Nd. hafa lýst skoðun sinni á þessu máli. Þetta er þó ef til vill ofmælt, því að í útvarpsræðu sinni sagði formaður Sjálfstfl., hv. þm. G.-K., að það væri vel gert, ef þingið samþykkti og afgreiddi frv. þetta, og svipti þar með Finn Jónsson yfirráðum í síldarbræðsluverksmiðjunni. Um málið sjálft talaði hann ekki orð, en lét sér nægja að lýsa yfir ánægju sinni vegna þess að hann gat fengið tækifæri til þess að losna við persónulegan andstæðing sinn úr verksmiðjustjórninni. Til þessarar athugasemdar um eitt umþráttaðasta frv. þingsins varði hv. þm. G.-K. fráleitt meiru en ½ mínútu af ræðutíma sínum. Að mínum dómi eiga sjómenn og útgerðarmenn skilyrðislaust heimtingu á því, að Sjálfstfl. skýri afstöðu sína til þessa máls.

Þess má geta, að inn í frv. þetta er skeytt ákvæði um skyldu verksmiðjanna til að selja bændum fóðurmjöl við kostnaðarverði, og öðru um skattskyldu verksmiðjanna til bæjarins á Siglufirði. Tilgangurinn með þessum innskotum er auðsær. Þau eiga að afsaka afstöðu Framsfl. til frv. En það mega þeir framsóknarmenn vita, að sú afsökun er ekki haldbær, þar eð vitanlegt er, að lagaákvæðum sem þessum er mjög auðvelt að koma í gegnum þingið, óháðum því ránsákvæði, sem meginefni frv. stefnir að, sem er að lækka síldarverðið til allra sjómanna og útvegsmanna á landinu til gróða fyrir Kveldúlf og Alliance.

Hæstv. forsrh. vil ég benda á það, að það væri bjarnargreiði við útgerðina að koma á hlutaskiptum á togurum, ef dæma má eftir því, sem reynslan hefir sýnt um hlut skipstjóra. Premía af afla til skipstjóra veldur því, að skipstjóri hugsar um það eitt að fiska sem mest og verður ósýnna um tilkostnað en annars. Þessi aths. hæstv. forsrh. ber vitni um vanþekkingu á sjávarútvegsmálum, og annað ekki.

Ein aðaltillagan, sem við kommúnistar flytjum hér á Alþ. til viðreisnar sjávarútveginum, felst í brtt. þeirri við fjárlögin, sem útbýtt var í dag. Í tillögu þessari er farið fram á, að Alþ. veiti ríkisstj. heimild til þess að ábyrgjast lán til útgerðarfélaga og bæjarfélaga, 700000 krónur til kaupa á 75–150 smálesta mótorskipum, er séu útbúin til allra algengustu fiskveiðaaðferða. Má ábyrgðin vera fyrir allt að 2/3 hlutum kostnaðarverðs gegn 1. veðrétti í skipunum.

Hugmyndin um, að 75–150 smálesta mótorskip muni bezt henta íslenzkum staðháttum, og miklu betur en þau veiðiskip, sem nú eru fyrir hendi, en það eru togarar og minni mótorbátar, er komin frá sjómönnum, sem við höfum rætt þessi mál við, og byggist á athugunum þessara manna fremur en reynslu. Síldveiðarnar í sumar sýndu þó mjög áþreifanlega yfirburði mótorbáta, og þá sérstaklega hinna stærstu, umfram togarana, sem að meðaltali höfðu eigi í rekstrarhagnað nema röskar 8000 krónur með 15–16000 mála veiði, þar sem mótorbátar með miklu minni afla og hærri kaupgreiðslu til sjómanna skiluðu margfalt hærri rekstrarhagnaði.

Norskir útvegsmenn hafa sett fram heila hagfræðilega kenningu í heilræði, sem hljóðar svo: ,.Ef þú átt óvin, þá gefðu honum gamalt járnskip“. Sé kenning þessi rétt, sem mér er nær að ætla, má með sanni segja, að togaraflotinn íslenzki. eins og hann er nú, sé orðinn nokkurskonar hefndargjöf á íslenzkum þjóðarbúskap. vegna stöðugs rekstrarhalla undanfarin sex ár, eftir því sem útvegsmenn herma, hafa útsvör af þessum langstærsta atvinnuvegi þjóðarinnar að kalla má lækkað niður í ekki neitt. Sama máli gegnir um beina skatta í ríkissjóð. Í útvarpsræðu sinni í gærkvöld talaði formaður Sjálfstfl. um hörð átök, sem stæðu fyrir dyrum, og get ég mér þess til, að hann hafi átt við deilurnar um launakjör hásetanna. Hann telur, að mikill rekstrarhalli muni verða á útgerðinni á næsta ári, en vitanlega er það meining hans að nota þær áætlanir, er útgerðarmenn hafa þar um gert, sem yfirvarp til árása á launakjör sjómanna. Ég viðurkenni það, að togaraútgerð er tæpast orðinn mikill gróðavegur, en ein af orsökum ófarnaðar togaraútgerðarinnar eru einmitt gömlu járnskipin, sem nota kol til orkugjafa.

Það kann að vera eitt hið veigamesta atriði fyrir allan þjóðarhag okkar að losna sem allra fyrst við innflutning kola sem hita- og orkugjafa, en um það er ég sannfærður, að fyrir veiðiskip okkar er það tilveruskilyrði. Í samkeppninni við aðrar fiskveiðiþjóðir, sem þegar eru farnar að nota og nota æ meir nýtízku diesel-mótora í skip sín, hljótum við fyrr eða síðar að bíða lægra hlut, ef ekki er breytt um til batnaðar. Það er ekki nóg með það, að kolin taka upp óhæfilega mikið af burðarmagni skipanna, borið saman við olíu, heldur þarf miklu fleiri menn við að þjóna gufuvél en mótor.

Ef gerður væri samanburður á hagkvæmni kola og olíu sem orkugjafa véla, og tekið tillit til hnattstöðu landsins, er ég viss um, að enginn léti sér detta í hug að nota framar kol sem orkugjafa. Á það bendir sú eina reynsla, sem við höfum í þessu efni, en það er rekstur Ægis, sem er helmingi ódýrari en rekstur gufuskips.

Þá ætla ég með nokkrum orðum að lýsa mótorskipum þeim, sem við ætlumst til, að eigi að leysa togarana og mótorbátana af hólmi.

Á 75 smálesta mótorskipi mætti stunda allar algengustu veiðiaðferðir, sem nú tíðkast: Línuog netaveiði, dragnótaveiði, veiði í léttar botnvörpur, herpinóta- og reknetaveiði. Vegna þess, hve mótorbátarnir ukkar eru litlir, eru þeir um of staðbundnir við ákveðnar verstöðvar, og flestir ekki í notkun nema nokkurn hluta ársins. 75 smálesta skip mætti nota til ýmissa veiðiaðferða Mestallan hluta ársins. Mótorskipið gæti flutt ísfisk til erlendra, markaðshafna á líkum tíma og togarar, — er þá auðvitað gengið út frá, að skipið hafi hæfilega sterkan mótor. Mótorskipin gætu flutt álíka fiskmagn og togarar. Mismunurinn er sá, að kostnaður við för hvers togara er allt að því þrefalt dýrari en við för mótorskipsins.

Ég mun ekki fara nánar inn á að lýsa kostum mótorskipanna, en læt mér nægja að vísa til greinar um þetta efni, sem kom í Þjóðviljanum í dag.

Eins og nú er högum háttað, er óhjákvæmilegt að halda áfram togaraútgerðinni að meira eða minna leyti, en um það munu flestir sammála, að á útgerðarháttunum verður að verða gagnger breyting, ef atvinnuvegur þessi á ekki að fara í kalda kol. Og ég álít, að til þess að bjarga sjávarútveginum úr öngþveitinu sé leið sú, er við höfum bent á, hin eina rétta.

Þá vil ég minnast nokkuð á landhelgisgæzluna. Ég hefi hér fyrir framan mig skýrslu, sem ég fékk hjá bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum, um sektir og andvirði afla og veiðarfæra vegna landhelgisbrota í embættislið bæjarfógetans, eða frá árinu 1924 til 1936. Skýrsla þessi sýning að á fyrri sex árunum voru dæmdir 100 togarar, en á hinum síðari aðeins 17. Á fyrri sex árunum nema tekjur landhelgissjóðs 1314166 kr., en síðari sex árin aðeins 235510 kr. Þessi skýrsla sýnir, að annaðhvort eru landhelgisbrotin að minnka, eða hitt, að landhelgisvarzlan hefir verið vanrækt.

Því miður mun það síðara vera það sanna í þessu efni. Snemma á þessu þingi spurði ég hæstv. atvmrh. um það, hverju það sætti, að tekjur ríkissjóðs af sektarfé landhelgisbrota færu minnkandi ár frá ári, og hvort það væri að kenna ákvæðum þýzku viðskiptasamningsins, sem felur í sér það ákvæði, að ríkisstj. gefur skipstjórum varðskipanna fyrirmæli um að aðvara, en taka ekki þýzka togara, sem eru í landhelgi með ólöglegan umbúnað veiðarfæra. Þessari fyrirspurn svaraði ráðh. út í hött, eða á þann hátt, að sömu lög gengju yfir þýzka og brezka togara, sem fyndust í landhelgi.

Morgunblaðið, blað Sjálfstæðismanna og „höfuðmálsvara útvegsins“, sem þeir ómaklega kalla sig. var mjög hreykið af þessu svari hæstv. ráðh. og hældi honum fyrir, sem væri það hjartfólginn skoðanabróðir.

Þýzku viðskiptasamningunum er haldið leyndum, en bæði þjóð og þing á kröfu til þess, að samningar þessir verði opinberlega birtir. Kemur þá til álita, hvort það sé nauðsynlegt að selja þýzku fasistastjórninni landhelgisréttindi vor fyrir ísfisksmarkað togaranna, og ennfremur það, hvort sú ½ millj., sem á fjárlögum er ætluð til landhelgisgæzlu, er annað en óþarfa eyðsla, sem aðeins er goldin til að dylja það, hve hörmulega er komið þessu þýðingarmikla sjálfstæðismáli okkar, verndun íslenzkra fiskimiða og íslenzkrar landhelgi.

Þessi mál, sem ég hefi hér drepið á, endurnýjun veiðiskipaflotans í hagkvæmara form og verndun landhelginnar, eru vafalaust undirstöðuatriði þess, að sjávarútvegurinn geti dafnað hér á landi.

Það veltur mjög á skilningi hv. Alþ. á þessum málum, hvort giftusamlega tekst um lausn þeirra.