11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla aðeins að ræða þá hlið málsins, er snertir úthlutun vegafjárins, sem fæst með benzínskattinum samkv. frv. Þetta frv. er að því leyti ólíkt tekjuöflunarfrv., sem hér hefir verið borið fram, að það er tekið fram í sjálfu frv., til hvers skuli varið tekjunum — benzínskattinum. Og það er gert til þess að tryggja það, að skatturinn verði ekki notaður til annars en lagningar á vegum.

Mér finnst nú í raun og veru, að mátt hefði hafa þetta svo, að sundurliðun hefði ekki verið í þessum lögum sjálfum, heldur í fjárlfrv. En þessi regla hefir nú verið upp tekin, og heyri ég, að margir eru á móti því, að frá henni verði horfið. Nú bið ég menn að taka vel eftir því, að fjvn. hefir í samráði við mig lagt mjög mikla vinnu í að reyna að samræma óskir manna um framlagið til vegaframkvæmda og annara framkvæmda í fjárlögum. Og innan n. hefir verið allra bezta samvinna með öllum stjórnmálaflokkum. Nú hlýtur það að vera þannig, að skipting á benzínvegafénu færi nokkuð eftir fjárveitingu til vega almennt. Og ég fyrir mitt leyti hefi þá skoðun, að það sé langsamlega eðlilegast að breyta ákvæði þessa frv. á sínum tíma eftir því sem réttlátast þykir við afgreiðslu fjárlaganna. Því í sambandi við það, fæst bezt yfirlit yfir þessi máli Og nefndin vill eindregið framhald góðrar samvinnu á milli flokkanna um fjárveitingu til hvers einasta héraðs. Ég óska, að þeir, sem hafa flutt till. um breyt. á ákvæðum í frv., um niðurröðun benzínskattsins, fallist á að taka þær till. til baka, og mái allt verði tekið upp í sambandi við afgreiðslu fjárl. við 3. umr. Ég held, að allir hljóti að sjá, þegar svona gífurleg vinna er lögð í að samræma þessar kröfur, þá sé ákaflega erfitt að fara í deildum þingsins að slíta úr samhengi einstakar fjárveitingar. Ég fyrir mitt leyti hefði persónulega vel getað fallizt á að taka alveg ákvæðin um niðurskiptingu benzínskattsins út úr frv. En af þeirri ástæðu, að ýmsir eru því mótfallnir, mun ég ekki gera þetta að neinu kappsmáli, en vænti á móti, að sá skilningur eigi sér stað, og menn fallist á og taki þessu máli vel og verði samhentir við niðurröðunina í sambandi við fjárlögin. Það mun ekki vera nema einn maður úr stjórnarandstöðu, sem hér á sæti og líka á sæti í fjvn., og hann getur borið vitni um, hvort það er ekki rétt, að reynt hafi verið í n. og í samráði við mig að gera alt, sem hægt var til að samræma óskir manna að þessu leyti. Og ég efast ekki um, að hann er mér sammála um, hversu það yrði örðugt, ef hver einasti þm. í d. flytti brtt. við benzínskattinn, að ég segi ekki handahóf, en hætt við, að það, sem gert er hér, ræki sig á þá tilraun, sem við erum að gera í fjvn. (JBald: Hún er ekki alvitur). Ég veit, að hún er ekki alvitur, en það veit hv. 9. landsk., að í sambandi við störf fjvn. fæst bezt yfirlit yfir þessi mál. Og það vitum við, að fjvn. leggur sig í líma með viðtali við flesta þingmenn. En það er aldrei hægt að gera menn ánægða, því að allir fá minni fjárveitingu í sitt hérað en þeir hafa óskað. Með skírskotun til þess, sem ég hefi hér að framan sagt um það samkomulag, sem verið hefir og ég vona, að verði, um frágang á einstökum till. í fjvn., þá vona ég, að menn fallist á þessar röksemdir og taki tili. til baka.