18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

1. mál, fjárlög 1938

*Finnur Jónsson:

Mér heyrðist á síðasta ræðumanni, að hann hefði mikla löngun til þess að frelsa hæstv. fjmrh. úr þeim vonda félagsskap, sem hann væri í við okkur jafnaðarmenn. Ef þetta skyldi einhverntíma takast fyrir þessum hv. þm., að véla hæstv. fjmrh. yfir í félagsskap sjálfstæðismanna, þá vildi ég óska þess gagnvart þessum unga, efnilega og. sjálfsagt tiltölulega óspillta fjmrh., að hann ekki tæki upp það ljóta orðbragð, sem formaður Sjálfstfl. temur sér, því ég feldi það mjög illa farið gagnvart virðingu þessarar stofnunar, ef allir leiðandi menn flokkanna gerðu sig seka í jafnstrákslegu og raunar svívirðilegu orðbragði og hv. form. Sjálfstfl. lætur sér sæma oft og tíðum. Hv. þm. sannaði það með fúkyrðaþvælu sinni, að hann hefði engin rök fyrir sig að bera í því máli, sem ég hefi reifað hér áður, síldarverksmiðjumálinu, og í þeim tilraunum, sem hann er nú að gera til þess að lögbjóða það og koma því fram gegnum bankavaldið, að sjómenn og útgerðarmenn verði sviptir miklu af andvirði bræðslusíldarinnar á ári hverju.

Ég hefi sýnt fram á, að bræðslusíldarverðið 1937 var ákveðið eftir sömu reglum og bræðslusíldarverðið 1936, en árið 1936 var Kveldúlfur síldarseljandi, en 1937 var hann kaupandi, og þá kvartar Ólafur Thors yfir of háu verði.

Í gegnum allan þann fúkyrðapistil, sem hv. þm. flutti yfir mér, kom fram máttlaus reiði yfir því, að hafa ekki getað haldið síldarverðinu niðri. Rökum mínum svaraði hann með órökstuddum ásökunum um gegndarlaust sukk í stjórn síldarverksmiðjanna. Sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í það, enda er enginn tími til þess. Ég legg það óhræddur undir dóm þeirra sjómanna og útgerðarmanna, sem skipt hafa við síldarverksmiðjur ríkisins síðustu tvö ár, hvort þessar ásakanir hv. þm. G.-K. eru á nokkrum rökum byggðar. Ég fyrir mitt leyti kvíði ekki þeim dómi, hvorki fyrir mína hönd eða meðstjórnenda minna.

Ég verð að segja það, að það er ólíkt betri útkoma bjá síldarverksmiðjum ríkisins heldur en hjá þeim verksmiðjum, sem Kveldúlfur hefir með höndum. Hv. þm. G.-K. gat þess, að Kveldúlfur hefði getað selt lýsi fyrir £19 í sumar. Hvers vegna gerði hann það ekki? Verðið hefir haldið áfram að falla og er nú milli £ 15–16. Kveldúlfur mun nú eiga um 4000 tonn af lýsi óselt. Hann vildi ekki selja á meðan það stóð í £19, og nú hefir það fallið þannig, að ef sala ætti að fara fram í dag, mundi tapið, sem Landsbankinn yrði fyrir, nema milli 300–400 þús. kr. Það er óþarfi að spyrja hv. þm. hver eigi að borga þau pund. Vitanlega er það þjóðin, sem verður að borga þau, eins og önnur þau pund, sem Kveldúlfur hefir illa ávaxtað undir stjórn Ólafs Thors.

Ég hefi engan tíma til þess að svara þeim átölum, sem hv. þm. bar fram í garð síldarútvegsnefndar. Hv. þm. var að tala um allskonar brögð og mútur í sambandi við síldarsöluna. Ég skora á hann að kæra þá menn, sem hafa gert sig seka í slíku; ella ef hann ekki gerir það, verða þessi ummæli hans skoðuð sem ummæli manns, sem er frávita af reiði og veit ekki, að hann er á alþingi og á að svara til saka fyrir þau orð, sem hann þar segir.

Ég vil segja það, að okkar síldarsala hefir farið þannig tvö síðustu árin, að við höfum grætt á henni, þótt aðrir, sem hafa selt síld, og það frekar vel, t. d. Norðmenn, hafi stórtapað. Okkur hefir tekizt, í gegnum þá skipulagningu, sem við höfum á síldarsölunni, að halda síldarverðinu það uppi, að við höfum fengið gott framleiðsluverð fyrir okkar síld, en Norðmenn hafa tapað. Nú selja þeir sína matjessíld fyrir 18–20 kr., þegar við seljum fyrir 30–32 kr. fob.

Eftir opinberum skýrslum að dæma, sem ég hefi frá Noregi, er tapið á hverri síldartunnu um 6 kr. hjá þeim, og ekki nóg með það, heldur hafa þeir orðið að setja 40 þús. tunnur í bræðslu, sem þeir söltuðu hér í sumar. Ef síldarútvegsnefnd heldur uppi 10 kr. hærra verði á matjessíld heldur en Norðmenn og á að hafa stórfé upp úr þeim viðskiptum, þá verð ég að segja, að hv. þm. G.-K. gerir enn meira úr viðskiptahæfileikum síldarútvegsnefndar en ég vil gera, þótt ég sé viss um, að hún hafi staðið vel í sinni stöðu.

Í þeirri skýrslu, sem ég hefi með höndum, sem er frá trúnaðarmanni síldarútvegsnefndar í Noregi, segir svo, að allir þeir síldarútgerðarmenn, sem hann hafi átt tal við um tapið á síldinni, telji, að ástæðan fyrir því sé það skipulagsleysi, sem á þessum málum er í Noregi.

Ég hefi leyft mér að stinga við þessar umr. á Kveldúlfskýlinu. Og það hefir sýnt sig, að sá fúkyrðaforði, sem hv. þm. G.-K. ræður yfir, muni aldrei þrjóta. Ég er ánægður meðan sá hv. þm. telur mig svo hættulegan andstæðing, að hann hellir yfir mig skálum reiði sinnar, svo að hann verður sér til athlægis hér á Alþingi. Ég mun standa móti því, meðan kraftar endast, að skuldasúpu Kveldúlfs verði velt yfir á sjómenn og útgerðarmenn gegnum starfrækslu síldarverksmiðja ríkisins.