13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

124. mál, alþýðutryggingar

*Jakob Möller:

Herra forseti! Raunar var tæplega ástæða til að mæta ósk minni nú um að fá orðið, því að sízt var um persónulega áreitni að ræða í síðustu tölu hv. flm. Þó vildi ég ræða nokkur atriði.

Fyrst var það, að þar sem ég hafði sagt frá því, að framkvæmdir sjúkrasamlagsins hér í Reykjavík í sambandi við langvarandi sjúkdóma hefðu verið ráðnar í samráði við tryggingarstofnun ríkisins og hæstv. atvmrh., og þar sem upplýst var, að um verulegt fjárhagsatriði var að ræða fyrir ríkissjóð, þá lá í augum uppi, að þetta hafði einnig orðið að vera í samráði við hæstv. fjmrh. Þess vegna er ég sannfærður um það, hvað sem hæstv. fjmrh. segir nú, að engin ákvörðun hefir verið tekin um þetta án vitundar hans og a. m. k. þegjandi samþykkis. Þetta er fyrirsláttur, þegar hann segist ekki una við framkvæmd tryggingarlaganna, nema ákvæðunum verði breytt í þá átt, sem hann kýs, og mundi aldrei til þess koma, að hann gerði alvöru úr. Hann gæti unað þessu alveg eins hér eftir og hingað til.

Hv. flm. sagði, að þess væri hvergi krafizt í tryggingarlögunum, að yfirstjórn þeirra stæði fyrir samningum við lækna og sjúkrahús og lyfjabúðir — samlögin yrðu að gera það sjálf. Hvað á slík yfirstjórn þá að gera? — verður manni að spyrja. Mér er líka hitt kunnugt, hvernig þetta hefir verið í framkvæmdinni, eins ég drap á í ræðu minni. Og í því, sem ég las upp, er það berum orðum fram tekið, að samlögin lúta öll yfirstjórn tryggingarstofnunarinnar. Og það er augljóst, að það, sem hér er deilt um, er einfalt reglugerðaratriði. Yfirstjórn tryggingarmálanna getur fengið sér slíka heimild með reglugerðarákvæði. Ég hefi ekki núgildandi reglugerð við hendina, en hitt veit ég, að yfirstjórn trygginganna hefir lagt svo fyrir, að sjúkrasamlag Reykjavíkur skuli senda sér alla reikninga til staðfestingar, og það var auðvitað talið sjálfsagt.

Okkur semur sjálfsagt ekki betur framvegis en hingað til um ákvæði 9. gr. frv. Ég er hissa, að hv. frsm. skuli ekki sjá, að læknisvottorð eiga aðeins að taka fram ástand mannsins. Og ég mótmæli öllum sérskilningi hans á þessum umdeildu atriðum.

Hæstv. forseti stendur upp. En nú var ég einmitt kominn að því, sem ég hafði helzt ástæðu til að ræða, þar sem hv. flm. talaði um málsfærslu mína fyrir hagsmunum læknanna, sem hann taldi af meiri eldmóði flutta heldur en ef ég talaði fyrir hagsmunum hátekjumanna í bænum. — Mér finnst afarvarhugavert að ganga svo frá lögunum, að um of sé gengið á hagsmuni lækna. Mér er kunnugt um, hve læknar héldu ákaflega fast á fjórðungsgjaldinu, og það svo, að tryggingarstofnunin varð að fara fram á það í samráði hv. frsm., Vilmund Jónsson landlækni sjálfan, að setja fjórðungsgjaldið. Hv. flm. sá sér þá ekki fært annað en að láta undan kröfunni. Á því má sjá, hversu varhugavert er að afnema það með lagaákvæði. (VJ: Hversu nauðsynlegt er að setja ákvæði gegn því í lögin). Þar að auki gilda samningar lækna við sjúkrasamlögin fyrst um sinn, eða allan fyrri helming næsta árs, býst ég við. En á meðan fellur á samlögin, að því er mér skilst, allur kostnaður af fjórðungsgjaldinu. Það er líka alveg stefnt í óvissu um það, hvort samningar geti tekizt. — Ég skal fúslega játa, að ég vildi miklu heldur eiga að semja við læknana um tilslökun á gjaldi samlaganna og er viss um, að það yrði stórum auðsóttara mál heldur en að fá þá til að falla frá fjórðungsgjaldinu. Því teldi ég það miklu heppilegra og almenningi væntanlega að meira gagni. því að þá yrði hægt að færa tryggingarnar á víðara svið og veita fé til fleiri þarfa en nú er gert. Það er líka best fyrir vinsældir samlaganna að veita sem mesta hjálp og ná sem víðast.

Mér er fullkomlega ljóst, að það gerir samninga við læknana erfiðari, ef mönnum fyrir ofan ákveðið hámark skattskyldra tekna er leyft og gert kleift að tryggja sig. En það styrkir eiginlega minn málstað. Ég álít það réttlátt og raunar sjálfsagt að leyfa þá tryggingu. Ef setja verður hámark, ætti að setja það miklu hærra en nú. Því að mér er kunnugt um það, að af þeim, sem eru fyrir ofan markið, er fjöldi manna engu betur stæður heldur en margir þeir, sem nú njóta sjúkrahjálpar. Það er ýmislegt, sem veldur því, að afkoman fer oft ekki eftir því, hvað menn hafa í skattskyldar tekjur. — Ég get nú látið undan endurtekinni ósk hæstv. forseta.