20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

124. mál, alþýðutryggingar

Páll Zóphóníasson:

Mér finnst, að þessir hv. þm. hafi misskilið það, sem ég sagði. Ég var ekki að tala um, að þeir hefðu unnið illa, en þeir voru að tala um, að framan af þingi hefði ekkert verið gert og ekkert verið að gera. Í því sambandi vil ég benda á, að þessir hv. þm. höfðu sjálfir svo mikið að gera og unnu svo vel eins og hv. 6. landsk. og aðrir, að þeir komu því ekki við að gera meira. Þess vegna var það svo t. d. með frumvarp til laga um breyt. á jarðræktarlögunum, að það tók allan fyrri part þingtímans fyrir flm. þess, þá hv. þm. V: Sk. og hv. þm. Snæf., að koma því inn í þingið. Þeir höfðu svona mikið að gera. Svona gætum við talið upp heilan hóp af málum, ekki af því, að þessir menn hafi unnið svo illa, heldur af því, að þeir höfðu svo mikið að gera. Þess vegna er ástæðulaust fyrir þá að segja, að framan af þingi hafi ekkert verið gert. Þeir hafa þar sjálfir borið vitni, því að þeir gátu ekki komið málum sínum inn í þingið á þeim tíma, sem þingsköp ætlast til.