21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

124. mál, alþýðutryggingar

*Jónas Jónsson:

Hv. þm. Hafnf. hefir nú, eins og eðlilegt er, séð nokkra nauðsyn til þess að reyna að leiða rök að því, að það væri leyfilegt að læknar þeir, sem hlut eiga að máli, gætu hlunnfarið landið og sjúklingana eins og ég hefi lýst. Það þarf hvorki hans játningu eða annara í þessu efni. Það er vitað eftir opinherum skýrslum, hvaða laun þeir hafa beint í sambandi við tryggingarnar, og það er ennfremur vitað, hvað þeir fá í aukaþóknun, og svo hafa þessir góðu herrar sumir 10–12 þús. kr. í viðbót, og sumir meira, og það er það, sem ég miða við. Hv. þm. er sjálfsagt ekki ókunnugt um, að sumir hafa meira. Ég vil ekki nefna þær upphæðir. Hv. þm. vill reyna að verja, að það sé eitthvert réttlæti í þessu, að það sé svo mikil vinna, sem þessir menn leggja á sig, og þeir hafi svo mikla tiltrú, að hann vildi leyfa sér að halda því fram, að það væri rangt hjá mér, þó að ég segði, eins og hann veit, að hann hefði 30000 kr. í tekjur í Hafnarfirði. Ég sé ekki, að það sé fjandskapur við læknastéttina; það er aðeins að lesa tölur í landshagsskýrslunum. Hvort hann telur þetta fram eða ekki, það er hann um, en hann veit sjálfur, hvernig þetta er hjá honum, og hann veit þá líka, hvernig það er hjá öðrum.

Nú ætla ég að segja það við hv. þm., að það er svo langt frá því, ef hann heldur, að hann hafi haft meiri áhrif á heilbrigðismál hér á landi að því leyti, er kemur til opinberra ráðstafana, heldur en ég. Ég get sagt hv. þm. ástæðuna fyrir því, hvað það dróst lengi að koma upp landsspitala. Hún var sú, að læknastéttin hér í Reykjavík beitti sér ekki fyrir því, þó að þar væru margir ágætir menn; þeir kærðu sig ekki um að fá spítala með föstum læknum. Þeir vildu hafa það eins og í Landakotsspítalanum, en þeir vildu ekki hafa þessa stofnun eins og landsspítalann. Þeir virtu meira sinn eigin þrönga hag en svo, að þeir vildu, að sett yrði upp nauðsynleg kennslustofnun fyrir læknanema. Eins og hv. þm. Hafnf. veit, voru það ekki læknarnir, sem beittu sér fyrir þessu, heldur var það fyrst og fremst kvenfólkið. Ég vil leyfa mér að biðja hv. þm. um að lita í þingtíðindin frá 1923, til þess að sjá, hvernig þessu máli leið þá. Hann getur séð, hvernig á stóð, þegar komin var fram áætlun um 3 millj. kr. og búið var að stinga málinu undir stól af fólki, sem stóð nær honum en mér, og hvernig málinu var þá komið á lífvænlegan grundvöll. Ég vil segja hv. þm. Hafnf. það, að hann á eftir að gera þýðingarmeira átak á sviði heilbrigðismála þessa lands heldur en þessi erkifjandi læknastéttarinnar, sem hann hyggur mig vera. Ég hygg, að ég hafi haft meiri áhrif á heilbrigðismál landsins en hann er nokkurn tíma líklegur til að hafa, eftir því sem mér lízt á hann. Hinsvegar dettur mér ekki í hug að búast við því, að ég muni nokkurn tíma ná honum í því að hafa 30 þús. kr. í tekjur frá fátækum verkamönnum í Hafnarfirði. Mig hefir aldrei langað til þess.

Svo að ég víki aftur að hlutfallinu á milli andans manna, eins og Sigurðar Nordals, og þessara nafnlausu lækna, þá geta þeir verið góðir handverksmenn eins og ágætir menn niður á eyri, sem vinna meira en ég og hv. þm. Hafnf. og leggja meira á sig og verða að þola kulda og hættur meira en við, en þó að þeir séu góðir menn, þá hafa þeir ekki aðstöðu til þess að marki sérstök spor, og þess vegna segi ég, að læknar, sem ganga að sinu handverki og aldrei kemur nein ný hugsun fram hjá frekar en hjá eyrarvinnumanninum, séu blátt áfram handverksmenn.

Þessi hv. þm. hefir kannske einhvern tíma heyrt um tvo menn, sem lásu heimspeki. Og þegar þeir brutu heilann um rit snillinganna, fannst þeim þessir sterku andar fara í sig. Samlandar þeirra sögðu, að það hefði þurft að lemja þá öðruhverju, til þess að þeir héldu viti og kæmust að raun um, að þeir væru ekki ofurmenni. — Kannske getur þessi hv. þm. skilið það með hliðsjón af sjálfum sér, að með því að lemja þá var hægt að láta þá halda því viti, sem þeim var gefið.

Hv. þm. veit það sjálfur, að hann er enginn brautryðjandi í læknisfræði. Hann er alveg tilvalið dæmi um þessa hversdagslegu lækna, sem stundað hafa lækningar eins og hverja aðra iðn, en maður finnur ekkert, sem nokkurn tíma hafi legið eftir þá til framtíðarheilla. Það er rétt, að hann er sjálfsagt eljusamur maður við sitt handverk. En það er ákaflega gott fyrir þennan mann að athuga, hvar hann stendur og að það er ástæðulaust, að hann og hans líkar hafi 30 þús. kr. á ári, meðan t. d. Sigurður Nordal hefir ekki nema brot af þeirri upphæð. Þegar rætt var um dálitla launauppbót handa þessum vísindamanni, svo að við misstum hann ekki úr landinu, hefði íhaldið fellt það, ef ekki hefði tekizt að slysa tvo þm. út úr íhaldsflokknum. Þau Ingibjörg H. Bjarnason og Ágúst Flygenring höfðu þá ein þann stórhug að koma yfir til okkar hinna. Það er okkur að þakka, að þessi frægasti maður íslenzkra vísinda er hjá okkur, — af því að við sáum ekki eftir einum 2 þús. kr. með dýrtíðaruppbót til þess að halda honum hér.

Ég er þakklátur hv. þm. Hafnf. fyrir það, að hann gaf mér tilefni til að benda á þessi vansmíði á lögunum, til að sýna, hvað þetta er, sem hv. þm. heimtar í nafni frelsisins að fá að njóta áfram ásamt stétt sinni, — til að vekja á því athygli hvers vegna við getum ekki borgað honum 30 þús. kr. á ári fremur en manninum, sem vinnur við uppskipun, hérna á hafnarbakkanum. Hann ætti að láta sannfærast af staðreyndunum og beiskri reynslu, og ef hann og stétt hans lætur sér ekki segjast, verður að tala til þeirra gegnum skattalögin.