12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Ísleifur Högnason:

Ég er því samþykkur, að 2. gr. frv. þurfi breytinga við, en ég er engan veginn samþykkur brtt. hv. þm. G. K., sem vill, að völdin séu í höndum bankanna, eins og nú er. Það er að öllu leyti lýðræðissinnaðra, að völdin séu hjá ráðh., því að hann ber ábyrgð gagnvart Alþingi, en það gera bankastjórar ekki, og auk þess á almenningur betra með að fella dóm sinn á gerðir hans.

Mér er kunnugt um, að mikil óánægja ríkir út af ástandinu í gjaldeyrismálunum. Eg get nefnt það sem dæmi um þetta ástand, að verzlunarfyrirtæki það, sem ég stend fyrir, á nú á skipaafgreiðslu vörur fyrir 3–400 þús. kr., sem ekki fæst gjaldeyrir fyrir, og eru vörurnar búnar að liggja þarna í hálfan mánuð. En aftur er þarna í Vestmannaeyjum verið að reisa hús fyrir 250 þús. kr. Þetta er samkomuhús og alóþarft, því að þarna er nóg af samkomuhúsum til að fullnægja þörfinni, sem fyrir er. Hefir mikill lúxus verið fluttur inn í hús þetta, og virðist engin fyrirstaða hafa verið gegn þessu. En þó að flytja þurfi menn af landi burt til lækninga, fæst það oft og tíðum ekki.

Hv. frsm. gat um atriði, sem gæfi ríkisstj. 40 þús. kr. tekjur, sem sé 2 0/00 innflutningsgjaldið. Þetta virðist mjög sakleysislegt, en er það ekki, þegar litið er á það, að hér er gefið fordæmi um nýja tolla á allar vörur, án tillits til þess, hvort þær eru þarfar eða óþarfar. Ef ríkissjóður þarf tekjur, á ekki að taka þær á svona dulbúinn hátt, heldur verður slíkt að koma fram á fjárl. í mynd nýrra tekjustofna. Ég tel þetta hættulegt fordæmi. Hugsum okkur, að þetta gjald væri tifaldað. Þá væri kominn 400 þús. kr. tollur, sem lagður væri á án tillits til þess, hvort um væri að ræða þarfar vörur eða óþarfar.