13.12.1937
Efri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Ég heyrði, að hv. frsm. sagði, að hann hefði átt tal við formann gjaldeyrisn. um gjaldeyri til útgerðarmanna, og hefði hann talið víst, að útgerðarmenn mundu fá leyfi og nauðsynlegan gjaldeyri fyrir útgerðarvörum. Ég efa það ekki, að formaður gjaldeyrisn. hafi sagt þetta, né heldur hans góða vilja til þess að verða við réttmætum óskum útgerðarmanna um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, ekki sízt fyrir það, að núverandi formaður gjaldeyrisn. hefir mikla þekkingu á því, hvaða vörur eru útgerðarmönnum nauðsynlegastar. En ég sannaði það við 2. umr. þessa máls, að þrátt fyrir vilja gjaldeyrisn. er það svo, að útgerðarmenn fá ekki nærri því þann gjaldeyri, sem þeir nauðsynlega þurfa, og sizt nógu snemma. Ég þarf ekki að endurtaka þau dæmi, sem ég las upp. Þau eru deginum ljósari um það, hve miklum óþægindum það veldur útgerðarmönnum, að hafa ekki umráð yfir neinum hluta gjaldeyrisins. Ég sannaði og við 2. umr., að í þessu efni á sér stað mikið misrétti á milli þegnanna, þar sem t. d. S. Í. S. er annarsvegar með meginið af sinum gjaldeyri frjálst, en útgerðarmenn algerlega í viðjum bankanna.

Það má geta þess, að síðan þessar umr. fóru fram hafa útgerðarmenn komið til ríkisstj. með sín vandamál og sett fram kröfur, sem ganga lengra en hér í frv. Mér þykir fyrir því, að þau sönnunargögn, sem lögð voru fyrir hæstv. fjmrh. um hag útgerðarmanna, skuli ekki hafa mildað hans strangleik í þeirra garð. Ég geri ráð fyrir, að það tjái ekki á þessum vettfangi að færa fleiri rök fyrir þessu máli, hvorki fyrir því ranglæti, sem haft er í frammi, né fyrir nauðsyninni, sem knýr útgerðarmenn til að setja fram kröfur sínar. Það er bara að berja höfðinu við steininn. Og ég býst við eftir framkomu hv. fjhn., að hún sé ákveðin í því að vera ranglætisins megin í þessu máli.

Við, sem höfum bent á rétta leið í þessu efni, berum ekki ábyrgð á því, þótt þannig sé vegið enn á ný í hinn sama knérunn í mismun á útgerðarmönnum; það bera þeir, sem fyrir því standa. Benda mætti einnig á, og það ætti hæstv. fjmrh. að athuga, að svo mikið mál er þetta fyrir útgerðarmenn, að búast má við, að þeim verði að lokum nóg boðið.

Brtt. hv. 1.. þm. Eyf. um gjaldeyrisverzlun, ég á við þá, sem er á þskj. 336, er mjög viðurkenningarverð. Hún er tilraun til málamiðlunar og gengur mjög í þá átt að taka sárasta broddinn af því ákvæði frv. að hindra frjálsa menn í ferðalögum sínum. Ég tel, að hv. 1. þm. Eyf. hafi farizt vel í þessu máli, þar sem hann hefir litið á þau rök, sem fram komu við 2. umr. gegn þessu ákvæði, en hinsvegar tel ég réttara, eins og hv. 1. þm. Reykv. líka hefir tekið fram, að ákvæðið væri alls ekki í frv., en brtt. hv. 1. þm. Eyf. er þó stórum til bóta.