30.10.1937
Efri deild: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

Þingvíti

Páll Zóphóníasson:

Mér hefir verið sagt það, að hæstv. forseti Sþ. hafi sett mig ásamt ýmsum fleiri í þingvíti í gærdag. Mér kom þetta dálítið spanskt fyrir, þar sem ég hafði farið sem form. landbn. hér ásamt 6 öðrum á fund í Fornahvammi, til þess að ræða um það, hvernig koma mætti í veg fyrir, að bændur flosnuðu upp vegna fjárpestarinnar. Ég fór með leyfi forseta deildarinnar, og þar sem hæstv. forseti Sþ. lét þess síðast getið, er ég var þar á fundi, að næsti fundur yrði boðaður með dagskrá, taldi ég mér óhætt að fara, þar sem engin dagskrá var komin um kvöldið. Ég vil nota tilefnið til að óska þess, að dagskrám Sþ. verði ekki framvegis útbýtt á 11. stundu, eins og nú var gert og áður hefir tíðkazt. Ég kveinka mér ekkert við því að borga þingsekt, en ég kann því illa, að farið sé svona aftan að manni.