30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (1761)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Eins og ég tók fram áðan, sé ég ekki ástæðu til að lengja umr. fram úr þessu, en vil þó gera nokkrar aths. við ræðu hv. frsm. meiri hl. sjútv. Það er ekki rétt haft eftir mér, að þetta mál sé ekki nægilega rætt hér í hv. d. Ég sagði, að það hefði ekki fengizt rætt í sjútvn., og það er rétt. Það kenndi hjá honum nokkurs misskilnings út af S. Í. F. Hann sagði, að ágreiningurinn væri um það, hvort veita ætti S. Í. F. fastákveðinn styrk eða ekki. En þetta er ekki rétt. Samkv. okkar frv. á að veita styrk til þess að reisa niðursuðuverksmiðjur án tillits til þess, hvort S. Í. F. eða einhverjir aðrir reisa þær. S. Í. F. mundi aldrei verða annað en einn þeirra aðilja, sem sækti um slíkan styrk. Deilan er því alls ekki um það, hvort úthluta skuli S.Í.F. slíkum styrk, heldur um hitt, og það verður hv. frsm. meiri hl. að skilja hvort ákveða skuli með lögum tiltekinn styrk til þeirra, er reisa vilja niðursuðuverksmiðjur fyrir fiskafurðir, eða hvort fiskimálan. verði fengið í hendur mikið fé, sem hún hefir vald til að fara með eins og henni gott þykir. Á þessu tvennu er reginmunur, og ég ætla, að aðrir hv. þdm. skilji þetta, að það er sitt hvað að veita styrk til ákveðinna hluta eða að fá einhverri n. fé í hendur, sem hún getur farið með eftir sínu höfði.

Hv. þm. sagði, að samkv. l. S. Í. F. hefði það félag ekki með annað að gera en saltfisksverzlun. Þetta er ekki rétt, og stafar þessi fullyrðing hv. þm. líklega bæði af misskilningi og ókunnugleika. Í fyrsta lagi er það hvergi bannað í l. S. Í. F., að félagið hafi á hendi sölu á hvaða vörum sem vera skal. Í öðru lagi var það samþ. á síðasta aðalfundi S. Í. F., að félagið skyldi annast sölu á hvaða vörum, sem meðlimir þess óskuðu að selja. Í þriðja lagi get ég upplýst það, að félagið hefir þegar ákveðið að byggja niðursuðuverksmiðju, og það verður ekki hindrað á annan hátt en þann, ef stj. gripi í taumana, eins og stundum hefir komið fyrir, og bannaði félaginu að flytja út þessar afurðir.

Ég vænti, að enginn hv. þdm. hafi skilið orð mín svo, að mér þætti of miklu fé varið til sjávarútvegsins, eins og frsm. meiri hl. vildi túlka mín ummæli. Ég sagði aðeins, að engin trygging væri fyrir því, að það fé, sem sjávarútveginum væri ætlað á pappírnum, kæmi honum að gagni, þar sem það er fengið í hendur n., sem getur varið því eftir sínum geðþótta, og hingað til hefir sú n. ekki starfað þannig, að mikils megi af henni vænta.

Það er mjög gott að heyra, að þessi n. hefir nú svarað erindi sjútvn., þó að það svar kæmi ekki fyrr en eftir hálfan mánuð, og ekki fyrr en búið er að afgr. málið í sjútvn., og enn betra er að heyra. að n. skuli mæla með því, að þessi starfsemi verði styrkt. Mér skildist á frsm. meiri hl., að n. legði til, að þessi styrkur færi til sjávarútvegsins; annars væri svar n. út í hött og ekki samboðið slíkri nefnd.

Ég veit ekki, hvort hv. frsm. meiri hl. hefir skilið það, um hvað ágreiningurinn snýst í þessu máli, en ég veit, að aðrir hv. þdm. skilja það, að minni hl. vill láta veita beinan styrk til niðursuðuverksmiðju, en meiri hl. sjútvn. vill það ekki, heldur hitt, að fiskimálan. fái mikið fé til umráða, sem hún síðan fer með eftir sínu höfði. Þessi n. á að ákveða um það, hvort féð fari til þessarar starfsemi eða í eitthvað annað, sem ég hefi bent á, að n. mundi vera hugstæðara en þetta niðursuðumál.