27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (1900)

48. mál, raftækjasala rafmagnsveitu Reykjavíkur

*Flm. (Pétur Halldórsson):

Herra forseti! Hæstv. fjmrh. sagði það sem aðalröksemd móti frv., að núv. verðlag á tækjunum gæfi ekki ástæðu til umkvartana. Ég held, að það sé rétt, að þessi rafmagnstæki séu ekki seld, eftir að verðlækkun varð á þeim í sumar, við mjög háu verði. Ég bar það heldur ekki á raftækjaeinkasöluna í minni ræðu. En það er ekki fullnægjandi mótbára gegn þessari heimild, sem hér er farið fram á. Ég er sannfærður um, að sú aðferð, sem hér er stungið upp á til þess að auka sölutækjanna, er mjög mikilsverð og gagnleg, jafnvel þó lítið væri hægt að lækka verð á tækjunum frá því, sem nú er. Í sambandi við þetta hlyti að verða sett upp sérstök stofnun til þess að leggja kapp á að hvetja bæjarbúa til að eignast þessi tæki. Rafmagnsveita Reykjavíkur mun leggja kapp á að auka söluna, ekki aðeins með því að lækka nokkuð verð tækjanna, heldur líka að auka um leið skilning manna á því að nota þessi tæki og örva menn til þess að taka þau sem fyrst í notkun. Ég er viss um, að þetta tækist miklu betur, ef útsala tækjanna væri í höndum rafmagnsveitu Rvíkur. Það er stórt atriði, að rafmagnsveitan hafi þetta með höndum fyrst um sinn, og menn viti, að þangað sé að leita eftir beztum kjörum og þar sé hægt að kaupa tækin við beztu verði, um leið og menn fá upplýsingar um notkun þeirra. En ég er líka viss um, að það má lækka nokkuð verðið á tækjunum frá því, sem nú er.

Hæstv. ráðh. sagði, að hér væri lægra verð heldur en í Noregi, og mundi það stafa af því, að hér væri einkasala á þessari vöru, og vildi lýsa því sem sinni skoðun, að það væri að þakka muninum á frjálsri verzlun og einkasölu, og einkasölufyrirkomulagið væri því sýnilega heppilegra en hin frjálsa verzlun. Þetta sagði hann aðeins til þess að nota þetta sem tilraun til að verja sína afstöðu í málinu, en það getur varla verið meining hans almennt, að þessu sé svo farið. Hann hefir sennilega gleymt að taka tillit til þess, að ef raftækjaeinkasalan selur ódýrara heldur en í Noregi, þá er það áreiðanlega vegna þess, að hún hefir viðskipti sín þar, sem samkeppnin kemur til greina og hefir áhrif á verðlagið.

Ekki vildi hæstv. ráðh. fallast á það, sem ég benti á, að þó að rafmagnsveita Rvíkur hefði þessa heimild um eins árs skeið, þá kynni að mega vænta þess, að ekki yrði veruleg rýrnun á tekjum ríkissjóðs af innflutningi á þessum tækjum, þó fellt væri niður um þetta tímabil innflutningsgjald af þessum tækjum. Ég verð að halda því fram, að því örar sem tekst að kenna mönnum að nota rafmagn til suðu, því meiri tekjuvon er fyrir ríkissjóðinn í framtíðinni af innflutningsgjöldunum. Það er ekki hægt að reikna með því, að það takist að selja öllum heimilum í Rvík tæki á því eina ári, sem samkv. frv. á að fella gjöldin til ríkissjóðs niður. Ég mundi kjósa, að það væri hægt, en það er alveg vonlaust, að því verði komið til leiðar.

Hv. l. landsk., sem jafnframt er kollega minn, var svo mildur, að hann sagðist ekki vilja fjandskapast við málið við 1. umr. Ég hélt, að hann myndi taka öðruvísi í þetta mál, ef hann vill hafa hagsmuni bæjarmanna í Hafnarfirði fyrir augum, því strax á næsta ári mun Hafnarfjörður nota rafmagn frá Soginu. Hann mótmælti því ekki, að þessi aðferð til þess að auka söluna á rafmagni til gagns fyrir virkjunina og almenning í landinu væri líkleg til þess að gefa þann árangur, sem vænzt er, enda sagði hv. þm., að það væri gott eitt að segja um höfuðtilgang þessa frv. Ég hélt, að kollega minn myndi halda áfram í sama tón og mæla með frv., en ég varð fyrir miklum vonbrigðum, þegar hann sneri við blaðinu í ræðu sinni og fór að draga kjark úr hv. þdm. með að gefa frv. fylgi sitt. Ég get ekki neitað því, að í þessu sambandi datt mér í hug, að það er ekki heppilegt að vera bundinn af öðru heldur en því, sem er til almenningsheilla, hér í þingsölunum. Ég vil þó ekki segja, að hv. þm. hafi vísvitandi annan tilgang en þann, að gera hið bezta í þessu sambandi. En þar sem hann sagði, að það væri gott eitt að segja um höfuðtilgang frv., þá vil ég, að hann taki afleiðingunum af því og fylgi frv.

Hv. þm. sagði, að hið lága verðiag á þeim tækjum, sem raftækjaeinkasalan selur, komi af því, að hún kaupi í einu lagi og vegna þess, hvað hún kaupi mikið. Hann hélt, að ef rafmagnsveita Reykjavíkur fengi að flytja inn nokkurn hluta af þessum tækjum, þá myndi hverfa ástæðan til hins lága verðs. Ég óttast það ekkert, því ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að hún fái tækin frá sama firma og einkasalan skiptir við. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að það væri samvinna við raftækjaeinkasöluna um þetta, ekki sizt ef það kæmi í ljós, að báðir aðiljar hefðu hagnað af því.

Svo kom hv. þm. að því, að hér væri komin á fót verksmiðja, sem framleiddi nokkuð af þessum tækjum, en það er verksmiðjan í Hafnarfirði. Það er rétt, en hún má ekki verða til þess, að öll rafmagnstæki, sem notuð eru í landinu, verði dýrari. Hún verður að vera samkeppnisfær, og mér skilst líka, að hún sé það. Ég treysti þess vegna því, að það verði ekki til verulegra vandræða fyrir hana, þó þetta frv. nái fram að ganga. Það mætti jafnvel hugsa sér, að við hana yrði samið, ef hún gæti boðið þau kjör og varan væri samkeppnisfær.

Ég vona, að þrátt fyrir þær mótbárur, sem hér hafa komið fram, þá fallist hv. þm. á að veita þessa heimild, sem hér er farið fram á, því það er augljóst, án verulegrar rannsóknar á þessu máli, að ef þessi heimild nær tilgangi sínum, þá verður hún öllum aðiljum til gagns. Hún verður til gagns fyrir Sogsvirkjunina, alla viðskiptamenn hennar og væntanlega fyrir ríkissjóðinn líka, því að því kemur, að þessi heimild fellur niður.