13.11.1937
Efri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (2163)

86. mál, aðstoðarprestar í Reykjavík

*Flm. (Magnús Jónsson):

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hafa legið fyrir undanförnum þingum frv., sem gengið hafa út á það að leysa það vandamál, sem orðið er hér í Rvík með kirkju og presta. Eins og nú standa sakir, þá er dómkirkjusöfnuðurinn hér orðinn full 30 þús. manns; það ræður því af líkum, að 2 prestar geta ekki nálægt því annað öllum þeim störfum, sem þjónusta jafnfjölmenns safnaðar útheimtir. Það er því öldungis vist, að svo framarlega, sem prestarnir vilja standa í nánu sambandi við sóknarbörn sín, þá eru slík störf 2 mönnum algerlega ofviða.

Það, sem helzt hefir verið rætt sem endanleg lausn á þessu máli, er það, að skipta söfnuðinum í sundur í fleiri söfnuði og reisa svo kirkjur fyrir hvern söfnuð. Um þetta hafa legið ýtarleg frv. fyrir síðustu þingum, en ekki náð fram að ganga, sem m. a. kann að stafa af því, að ekkert hefir legið fyrir um það, með hvaða kjörum kirkjan yrði afhent af ríkinu í hendur safnaðarins.

Þá hefi ég og flutt áður frv. um að gera dálítið hverfi í útjaðri borgarinnar að sérstöku prestakalli, en það náði ekki fram að ganga.

En nú hefi ég farið nýja leið, sem sé þá, að bæta 2 prestum við, svo söfnuðurinn hafi 4 þjónandi presta, enda þótt sýnilegt sé, að 4 prestar komist ekki af með 1 kirkju til þess að leysa störf sín af hendi í, þar sem það hefir t. d. oft komið fyrir, að prestur, sem hefir verið að spyrja börn, hefir orðið að flýja úr kirkjunni fyrir líkfylgd o. s. frv.

Reynsla sú, sem fengin er í Laugarneshverfinu, hefir sýnt það ótvírætt, að bezta lausnin á þessu máli er sú, sem bent hefir verið á á undanförnum þingum, að skipta Reykjavíkurbæ í fleiri prestaköll. Þar hefir fólk sótt vel guðsþjónustur. Að sjálfsögðu þarf ekki að taka það fram, að allar þessar till. eru byggðar á því, að menn séu almennt á þeirri skoðun, að halda beri uppi guðsþjónustum og yfir höfuð að tala kristilegum siðum.

Eins og ég þegar hefi tekið fram, þá er ekki hægt að búast við því, að 4 prestar komist af með eina kirkju, og því hefi ég sett það ákvæði í 1. gr. frv., að hinum nýju aðstoðarprestum skuli gefin erindisbréf, þar sem starfssvið þeirra sé ákveðið.

Ég geri ráð fyrir, að ef til vili kunni einhverjir að hnjóta um það ákvæði frv., að þar er svo ætlazt til, að safnaðarmenn kalli þessa presta í samráði við kirkjustjórnina, og finnist, að eðlilegra væri, að þessir prestar væru eins og aðrir prestar kosnir með almennum kosningum. En ég bygg, að flestir sjái, að hér stendur sérstaklega á. Eins og ég gat um, þá mundi þessum aðstoðarprestum verða ætlað að starfa a. m. k. að mestu leyti á sérstökum stöðum í bænum, og er því engin ástæða til að láta þann geysilega fjölmenna dómkirkjusöfnuð kjósa um það, hvaða prestar eigi að annast prestsstörfin í Laugarnesi, Grímsstaðaholti og Skerjafirði. Er því eðlilegast, að á meðan ekki er búið að afmarka sóknir og prestaköll, þá sé þetta í höndum safnaðarstjórnarinnar, og það er með það fyrir augum, að þessir prestar eru kallaðir aðstoðarprestar, og það er regla. að aðstoðarprestar eru ekki kosnir, heldur ráðnir af presti og biskupi í sameiningu. Munurinn er aðeins sá, að venjulega eru aðstoðarprestar launaðir af viðkomandi sóknarpresti, en hér er ekki um það að ræða, heldur eiga þessir prestar að fá laun úr prestlaunasjóði, og þá er ekki annar aðili eðlilegri en sóknarnefnd. Ef svo að því kæmi, sem ég vil engu spá um, hvernig verður, að Reykjavíkurprestakalli verði skipt upp, þá er eðlilegt, að prestarnir verði kosnir, og býst ég við, að ráða megi þessa aðstoðarpresta þannig, að þeir séu lausir í stöðunum. en standi svipað að vigi við kosningar í þeim nýju prestaköllum. Í ráðningarbréfi þeirra mætti setja varnagla um það, að þeir hefðu enga lífstíðarveitingu, ef til kæmi, að sérstök prestaköll yrðu stofnuð.

Ég verð svo aðeins að minnast á kostnaðaratriðið í þessu sambandi. Í dómkirkjusöfnuðinum í Reykjavík munu nú vera um 30 þús. meðlimir, og mun láta nærri í venjulegum prestaköllum, að prestsgjöld séu um það bil 1 kr. fyrir hvern safnaðarmeðlim, en nálægt 1/3 mun vera fyrir innan gjaldskyldualdur og gjaldið því kr. 1,50 á mann, eða um 30 þús. kr., og þá er ekki nema sanngjarnt, að sá söfnuður, sem er svona fjölmennur og greiðir svona mikinn hluta af prestsgjöldunum, hafi 4 presta.

Ég vil geta þess, sem sýnir, hvað litil aukaútgjöld þetta eru, að nú þegar er starfað í Laugarnesskólanum, og stuðningur af því opinbera er um 2 þús. kr., sem eru byrjunarlaun prests. því það mega menn vita, að þótt prestinum sé borgað úr prestlaunasjóði, þá er talsverður kostnaður í kringum þetta, sem safnaðarmenn þeir aðrir, sem starfsins njóta, leggja þá á sig.

Ég vil svo óska eftir, að hv. d. vilji vísa þessu máli til 2. umr. og menntmn., því að ég hygg, að frv. í þessa átt hafi verið í menntmn.