14.12.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (2276)

138. mál, jarðhitarannsókn

*Einar Olgeirsson:

Ég tel till. þessa mjög þýðingarmikla fyrir okkar land. Við sjáum um þessar mundir, hvernig dregur nær heimsstyrjöld með hverjum degi, sem líður. Okkar land er illa undir það ástand búið, sem af slíku myndi skapast. Menn muna, hvernig var í síðustu styrjöld um útvegun kola, og það er enginn vafi á, að í þeirri næstu myndu erfiðleikarnir í þessu efni verða miklu meiri. Tel ég því sjálfsagt að greiða fyrir hverri þeirri till., sem miðar að því að flýta rannsóknum á jarðhita hér á landi, en hvert það verk, sem verður til að tefja fyrir slíkum rannsóknum, verður að teljast óhappaverk. Er því ekkert vit í að fresta þessari þáltill. til næsta þings. Framkvæmdum yrði áreiðanlega mjög hraðað með því að samþ. hana nú þegar, og þetta verk verður að vinna sem allra fyrst. Ég legg því eindregið til, að till. verði samþ.