21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (2329)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Tillagan, sem hér liggur fyrir, er þannig, að ég sé ástæðu til að spyrjast fyrir um það, hvernig þetta sé hugsað hjá hv. flutningsmönnum. Það er talað um eignarnám á landsvæðum sunnan lands, hentugum til jarðræktar handa kaupstöðum við Faxaflóa. með það fyrir augum að reisa þar nýbýli handa allmörgum af íbúum bæjanna. — Það er að nokkru leyti hægt að skilja till. þannig, að þessi lönd séu ætluð bæjarfélögunum sem heild til opinbers atvinnurekstrar, en jafnframt kemur það fram í till., að landið sé ætlað einstaklingum, sem hafi áhuga á að búa í sveit.

En hvort sem fremur er, koma slíkar framkvæmdir vitanlega undir ákvæði nýbýlalaganna og hljóta þá að takmarkast af því fjármagni, sem ríkissjóður leggur fram til þess að kaupa lönd og reisa nýbýli. Það hefir oft verið ritað og rætt um stofnun nýbýla í Ölfusi austan við Varmá við veginn, og hefir verið talað um eina eða tvær samvinnubyggðir þar og í Holtum í Rangárvallasýslu. Vegna féleysis hefir enn ekki þótt fært að kaupa þessi lönd.

Ég tel, að enda þótt ráðizt kunni að verða í það síðar meir að taka þessi svæði eignarnámi, þá sé óviðkunnanlegt að binda með ákvæðum þessarar þáltill., að löndin skuli vera fyrir íbúa sérstakra kauptúna. Framkvæmd nýbýlalaganna er þannig, að orðið hefir verið við beiðnum eftir því, hver geta var fyrir, og eftir því, sem allar ástæður lágu til. Og þá nefnd, sem hefir framkvæmd þeirra með höndum, á ekki að binda með ákvæðum þeim, sem þáltill. fer fram á. Einnig má öllum vera ljóst, að íbúar þeirra kaupstaða, sem eru tilteknir, kynnu að vilja fá ræktunarlönd annarsstaðar.

Ég tel ónauðsynlegt að samþ. þessa till., því að jafnskjótt og fé er fyrir hendi, verða stofnuð eins mörg nýbýli og sótt er um, ekki fyrir íbúa sérstakra kaupstaða, heldur fyrir þá einstaklinga. sem til þess vilja gerast og eru hæfir. En ef það væri tilætlunin, að taka löndin fyrir kaupstaðina sem heildir, tel ég að það komi ekki til mála.

Hv. 1. þm. Reykv. drap á öfugstreymið, sem fylgt hefir vexti kaupstaðanna. Flutningurinn úr sveitunum stafar af breytingum í atvinnulífi síðan um aldamót, eða siðan 1906, þegar stórútgerðin kom til sögunnar. Sveitafólkið streymdi að sjónum gegn lofurðum um gull og græna skóga og býr síðan á mölinni. Ég þekki dæmi um fjárflóttann, sem samtímis varð úr sveitunum. Í einni sýslu hér austan fjalls, þar sem menn þykja þó engu síður aðgætnir og hugsunarsamir en annarsstaðar á landinu. þar lagði mikill hluti bænda allt sitt aflögufé og kannske meira í togaraútgerð rétt eftir stríð — og tapaði því mestöllu; það var lagt í þýzk mörk, sem urðu einskis virði, og enginn togarinn keyptur. Þetta dæmi sýnir ákaflega glöggt hve gripnir menn urðu af gullæði kaupstaðanna. —- Nú er flutningurinn að mestu leyti stöðvaður. En það var vitanlegt, að hefði hann ekki stöðvazt, mundu sveitirnar hafa tæmzt fullkomlega. Það, sem mest veltur á til að rétta sveitirnar við aftur, er, að hugsunarháttur þeirra breytist. Það þarf að uppræta þann hugsunarhátt aftur, sem straumurinn til kaupstaðanna fram og aftur hefir spillt. Það þarf að kenna bændum að lifa á sínu. Stærsta þörf nýbýlanna er að rétta hugsunarháttinn við aftur. — Ég ætla ekki að ræða þetta mál meira, nema tilefni gefist til.