08.12.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, fjárlög 1938

*Jón Pálmason:

Eins og sjá má á nál. fjvn., höfum við sjálfstæðismenn í n. skrifað undir það með fyrirvara. Frsm. n. lét í ljós nokkra undrun yfir þessu. Ég verð að segja það, að stjórnarliðinu í n. gat nú ekki komið það á óvart, þó að við sjálfstæðismenn vildum ekki skrifa undir það fyrirvaralaust, sem fram fer nú í fjármálum þessa lands, ekki aðeins í n., heldur í stefnu stj. í fjármálum yfirleitt. Enda er það svo, að alltaf frá þeim tíma, sem þessi ríkisstj. tók við völdum, hafa fjárl. verið afgr. á þennan hátt. Sjálfstæðismenn hafa alltaf síðan skrifað undir nál. með fyrirvara, og hefir ekki borið á neinni undrun hjá meiri hl. yfir því fyrr en nú. Og það er sízt minni ástæða til þess að við gerum þetta nú heldur er þegar fjárl. voru afgr. fyrir yfirstandandi ár. Það hafa síðan komið fram allverulegar breyt. á fjármálalífi okkar lands. Atvinnuvegirnir bæði til lands og sjávar hafa orðið fyrir stórum áföllum, og þar með er fjármálagrundvöllur þjóðarinnar orðinn valtari en hann var þó áður. Það hefir einnig orðið sú breyt. á, að stjórnarflokkarnir hafa gert með sér nýjan samning um heildarafgreiðslu fjármálanna. Allt þetta hlýtur að hafa haft sín áhrif á afstöðu okkar sjálfstæðismanna. Okkur var það ljóst, er við tókum til starfa í fjvn., að við höfðum um tvo kosti að velja sem minni hl. í þessari merkilegustu n. Alþ. Annar kosturinn var sá, að fara okkar eigin götur og ráðast á frv. stjórnarinnar með brtt. í tugatali og frv. flutningi, til þess að

marka þannig vilja okkar flokks eftir ýtrustu kröfum, sem hann mundi gera. Hinn kosturinn var sá, að ganga til samvinnu við stjórnarflokkana í n. í fullri einlægni, innan þess ramma, sem meiri hl. hafði þegar ákveðið fyrirfram. Við sjálfstæðismenn tókum síðari kostinn, og ég get lýst því yfir hér, eins og hv. frsm. n. gat um, að innan hennar hefir verið hin bezta samvinna um þetta. Ég skal líka geta þess, að hæstv. fjmrh. hefir af miklum áhuga unnið með n. og reynt að jafna milli eftir því sem tækifæri virðast hafa gefizt til. En þó að ég viðurkenni þetta, þá raskar það engu um þann skoðanamun, sem er milli okkar um fjármálastefnuna yfirleitt. Það raskar ekki því, að við teljum nauðsyn á að hefja allsherjar samvinnu milli þingflokkanna um miklar og róttækar aðgerðir til sparnaðar. — Ég skal nú víkja að ýmsu því, sem fram kemur í nál. fjvn., og gera grein fyrir afstöðu okkar í því sambandi.

Að því er brtt. við 2. gr. snertir, þá er um hana fullt samkomulag. Viðvíkjandi brtt. við 3. gr. vil ég segja örfá orð. Frsm. hefir bæði tekið það fram í framsögu sinni og eins kemur það fram í nál., að hækkunin á tekjunum muni verða um 40 þús. kr. meiri en hækkunin á gjöldunum, og skal ég ekki fara út í það. En ég get sagt það um þessa gr. yfirleitt, að það sé gr., sem lítið eða ekkert sé hægt að breyta af Alþ. eða fjvn., nema að um leið verði breytt ýmsum l. Þetta stafar af því, að þessar framkvæmdir eru svo bundnar við ráðh. á hverjum tíma. Þess vegna er okkur það fullkomlega ljóst hvað þessa gr. snertir, að það þýðir ekkert fyrir fjvn. annað en að taka til greina það, sem annaðhvort er búið að ákveða með l. eða af ráðh. á hverjum tíma. Hv. frsm. gat þess í ræðu sinni, að það væri þrennt, sem fjvn. væri sammála um að leggja áherzlu á í þessu efni. Í 1. lagi, að samræmi væri í launagreiðslum, í 2. lagi, að eftirvinna ætti sér ekki stað, í 3. lagi, að ekki væri teknir starfsmenn af stofnunum án þess að leyfi ráðh. kæmi til. Þetta er rétt hjá frsm., en að hann tekur þetta fram, stafar af því, að þetta hefir verið svo stórkostlega brotið að undanförnu af núverandi stjórnarflokkum, og af þeim brotum stafar það, að ekki er betri útkoma á rekstri ríkisstofuananna en raun er á. Ég skal þó geta þess, að viðvíkjandi þessari gr. er mikið starf óunnið í n. Útgjöld fjárl. eru nú orðin um 16 millj. kr. Af þeim gjaldahækkunum, sem n. leggur til, væri það vissulega ekki of mikið, þó að Alþ. fengi að ráðstafa einhverju, þó ekki væri nema litlum hluta. Meðal þeirra hækkana, sem lagt er til, eru hækkanir til vega eitthvað milli 120 og 130 þús. kr. Ég skal geta þess, að ég kom fram með það á n. fundi, að ef til vill væri réttast, að þetta kæmi fram sem hækkun á framlaginu til vega frá því, sem í frv. stendur, en það kom í ljós, að þetta gat ekki gengið, vegna þess hvað miklar kröfur voru gerðar frá einstökum héruðum um hækkun á þessum lið. N. hefir lagt í það mikla vinnu að komast að niðurstöðu um skiptingu þessa fjár. Ég skal taka það fram, að ég tel það sjálfsagt að samþ. alla þá vegi, sem n. hefir lagt til, eða að öðrum kosti engan. Ég er ekki í vafa um, hvor þessara 2 kosta verður tekinn. Ég vildi mega vænta þess, að við gætum staðið saman um að samþ. ekki neinar aðrar till. við þessa umr., en ef einhver hefði hugsað sér að koma að brtt., þá léti hann það bíða til 3. umr.

Þá kem ég að hækkunum til lendingarbóta og hafnargerða. Það er um þennan lið að segja, að þetta er náttúrlega stórmál, og ég álít, að í hafnarbætur þurfi að leggja miklu meira fé heldur en nú er gert. En það, sem þarf fyrst og fremst að sjá um í þessu efni, er það, að hægt sé að halda áfram með þau verk, sem byrjað er á. Hinsvegar tel ég rétt, að eins og nú standa sakir sé ekki byrjað á nýjum hafnargerðum nema brýn og aðkallandi nauðsyn beri til. Það eru 20 þús. kr. á þessum lið, sem ég er algerlega mótfallinn, en það eru 10 þús. kr. framlag til hafnargerðar í Súgandafirði og 10 þús. kr. til hafnargerðar í Dalvík. Á báðum þessum mannvirkjum er nú verið að byrja, og ég tel það efamál, að rétt sé að hefja slík verk eins og nú standa sakir. Um Dalvík er það að segja, að þar eru góðar hafnir í nágrenninu, og ennfremur er það kunnugt, að á þeim stað hefir nýlega gengið jarðskjálfti, og við getum ekkert um það sagt nema slíkt endurtaki sig innan fárra ára. Ég mæli því eindregið gegn því, að þessi fjárveiting verði samþ., og sömuleiðis fjárveitingin til hafnargerðar í Súgandafirði. Annars er það aðkallandi, að Alþ. taki fasta afstöðu til þess, hvaða skipulag það hefir á þessum hlutum, hvort eigi að ganga inn á þá braut að verju miklu fé til hafnar- og lendingarbóta í hverjum firði og vík, eða hvort eigi að ganga vel frá hafnargerðum á einum eða mest tveimur stöðum í hverjum af stærri fjörðum á landinu. Annars er full ástæða til að athuga þetta í sambandi við fjárframlög til vegagerða. Það var lengi hér á Alþ. uppi sú stefna, að á útkjálkum landsins, á Austfjörðum og Vestfjörðum, þar sem erfiðast er með samgöngur á landi, þar ættu þær að fara fram á sjó, á bátum, en vegina ætti að leggja aðallega annarsstaðar um landið. Hinsvegar virðist nú vera komið inn á þá stefnu hér á Alþ., að bæði eigi að leggja fé í hafnargerðir á þessum stöðum (útkjálkunum) og líka í vegi eins og annarsstaðar á landinu. Þetta álít ég ofvaxið okkar fjárhagsgetu. Það hygg ég og meiningu Sjálfstfl. yfirleitt.

Þá hefir hv. fjvn. fallizt á að hækka liðinn, sem er stofnkostnaður héraðsskóla, um 9 þús. kr., úr 19 þús. kr. upp í 28 þús. kr. Ég er algerlega mótfallinn þessari hækkun og tel ákaflega vafasamt ná, eins og sakir standa, að fara að hækka styrk til byggingar héraðsskóla. Fyrst og fremst tel ég varhugavert að ráðast í að byggja nýja skóla eins og nú standa sakir. Um þessa hækkun hefi ég fengið nokkrar upplýsingar og komizt að þeirri niðurstöðu, að það, sem veltur á í þessu sambandi, er, hvort eigi að byggja nýtt skólahús á Núpi í Dýrafirði. Nú eru héraðsskólar starfandi í háðum Ísafjarðarsýslunum, Reykjanesskólinn og Núpsskólinn. Um þetta eru sennilega einhverjar deilur þar vestra, því að nú, eftir að till. fjvn. eru komnar fram, kemur till, frá einum hv. þm. um að hækka framlag til Reykjanesskólans um 10000 kr. Því er skotið hér að mér af sessunaut mínum, að sú till. komi frá sjálfstæðisþm. Hún kemur þannig inn í þingið; en hún kemur raunverulega frá skólanefnd þessa héraðsskóla. Nú álit ég, að hæstv. Alþ. eigi að gera upp við sig, hvort sé hyggilegra að efla skólann á Núpi eða efla skólann á Reykjanesi, og að ekki sé forsvaranlegt að gera ráð fyrir að kosta dýra unglingaskóla á báðum þessum stöðum, því að það væri sama sem ég færi að gera kröfu til þess, af því að sessunautur minn (SkG) hefir héraðsskóla í sínu héraði, að þá fengi ég annan í mínu héraði.

Viðvíkjandi því, sem talað hefir verið um viðbótarframlög til ýmissa framkvæmda hér í sveitunum austurfrá, t. d. til fyrirhleðslu á Markarfljóstaurum, framræslu á Eyrarbakka og til flóðgáttar við Rangá, þá er um þetta það að segja, að þar er sennilega um mjög aðkallandi mannvirki að ræða, sem erfitt er að standa í gegn. Og um þessar 50 þús. kr. til fyrirhleðslunnar á Markarfljótsaurum er það að segja, að nú þegar er búið að eyða 20 þús. kr. til þessa mannvirkis, svo að þar er því um 30 þús. kr. framlag að ræða, sem eftir er að veita. Mér þótti þetta í fyrstu nokkuð há tala. En eftir lýsingum og áætlunum, sem fjvn. hafði við að styðjast, sannfærðist ég um, að það væri stórt vandamál, hversu langt á að ganga í þessum framkvæmdum. Hinsvegar sé ég mér ekki fært að taka harða afstöðu gegn þessari fjárveitingu, ef þetta verður til þess að vernda frá eyðileggingu dýrmætt land í hinni fögru sveit, Fljótshlíðinni. En það fer eftir því, hversu mikið fé þarf til þessa í framtíðinni, hvað hyggilegt er að ganga langt í þessu efni nú.

Þá eru ræktunarvegirnir. Við höfum gengið inn á að veita fé til tveggja þeirra, sem er þó kannske dálítið varhugavert, því að gera má ráð fyrir, að þær fjárveitingar dragi dilk á eftir sér. En samkomulag er í n. um þá liði.

Hv. frsm. fjvn. drap á fræðslul. og hinn gífurlega kostnað við barnafræðsluna. En þar er aðeins um að ræða eitt dæmi af mörgum um það, hvernig Alþ. hefir á síðustu árum hlaðið á ríkissjóð hinum og þessum stórum gjöldum, sem ég verð að segja, að a. m. k. flestir sjálfstæðismenn hafa verið á móti. Því að við vorum því mótfallnir, að þessi nýju fræðslul. voru samþ. á Alþ. 1936. Það er nú þegar sýnt, að þau orsaka ríkissjóði mjög mikil aukin útgjöld. fram yfir það, sem eldri l. gerðu, og hversu sá munur er mikill, er ekki séð til hlítar. En þegar búið er að samþ. l., sem eru þannig bindandi fyrir ríkissjóð, að þau ákveða, hvað hann skuli leggja fram, þá er ekki á valdi fjvn. að breyta þeim framlögum, nema því aðeins, að Alþ. fáist til að breyta l., sem ákveða þessi framlög. Þetta er eitt dæmi af mörgum, sem sannar það viðvíkjandi Sjálfstfl., að þó að hann verði að vera með í því að áætla þær tekjur á fjárl., sem ætla má, að séu nauðsynlegar til þess að mæta útgjöldunum, þá er það ekki að vilja þess fl., að ýms löggjöf hefir verið sett, sem orsakar ýms þau fjárframlög, sem á fjárl. eru. Þetta er náttúrlega ákaflega víðtækt mál um að tala, ef ætti að fara nákvæmlega út í að tala um þetta við þessa umr. Tímans vegna sé ég ekki ástæðu til að ræða nú viðhorf okkar sjálfstæðismanna í þessu tilliti til fjármálastjórnarinnar í landinu í einstökum atriðum, svo sem þó þyrfti að gera, og ætti að gera, ef farið væri að skera niður útgjöld fjárl., eins og sýnilega þarf að gera fyrr eða síðar.

Þá er einn liður, sem hv. frsm. fjvn. var að tala um, sem er hækkun framlags til stórstúkunnar um 5 þús. kr. Ég sé ekki ástæðu til að hækka þann lið, og mæli ég gegn því, að bætt sé við fjárframlag til stórstúkunnar frá því, sem í frv. er ákveðið til hennar.

Ég vænti, að þetta, sem ég hefi nú hér sagt, sé nokkurn veginn nægilegt til að sýna og sanna, að það sé ekkert undrunarefni eða óeðlilegt, þó að við sjálfstæðismenn í hv. fjvn. viljum ekki að öllu leyti skrifa undir nál. fjvn. um fjárl. athugasemda eða fyrirvaralaust, og þar með játa, að fjármálastjórn sú, sem birtist í fjárlagafrv., sé að öllu leyti í því lagi, sem æskilegast er.

Að svo mæltu skal ég láta lokið máli mínu. Enda virðist svo, að hv. þm. vilji ekki næsta margir fylgjast með þeim umr., sem hér fara fram nú.