09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Sveinbjörn Högnason [frh.]:

Þetta var hin fyrsta aðalbreyt., sem hv. minni hl. fer fram á, og þetta er í fullu samræmi við nál. það, sem þeir gáfu út, þar sem þeir segjast vera andvígir stefnu þeirri, sem fylgt er í þessari löggjöf. Þessi brtt. er því í fullu samræmi við skoðun þeirra um að brjóta þetta á bak aftur.

2. brtt. þeirra er sú, að taka upp í þetta mjólkurfrv. aðalákvæði úr frv. um þurrmjólk og þurrmjólkurvinnslu, sem hv. 7. landsk. og ég flytjum og búið er að ganga í gegnum 2. umr. í þessari d. Ákvæðin í brtt. eru ófullkomnari en í frv., svo ég get ekki séð, að þessi brtt. hafi nokkurt gildi.

3. brtt. er um það, hvernig stjórn þessara sölusamtaka skuli hagað. Nú er vitað, að í l. sjálfum eru ákvæði um, hvernig stjórninni skuli hagað, en það er á valdi framleiðendanna sjálfra, hvernig þessu er hagað, ef þeir geta komið sér saman um það. Ég get ekki annað séð en það sé bezt fyrir framleiðendurna, að þeir geti ráðið þessu sjálfir með samkomulagi sín á milli. Þegar það er athugað, sem hér er stungið upp á, þá dettur engum óvitlausum manni í hug, að það geti verið heil brú í því. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórnin skal skipuð á þann veg, að hvert mjólkurbú og framleiðslufélag skipi einn mann“. Það þarf a. m. k. skilgreiningu á þessu. Hv. 1. flm. brtt. talaði um, að aðrir hugsuðu óskýrt eða settu óskýrt fram það, sem þeir hugsuðu. Ég veit ekki, hvað átt er við með þessu, nema ef vera skyldi átt við öll framleiðslufélög, sem til eru og mynduð kunna að verða. Og hvað geta þau orðið mörg? Það er gefið, að framleiðslufélög verða mynduð milli þeirra, sem nú hafa undanþágu til að selja sína mjólk beint til neytenda. Það hlýtur að koma framleiðslufélag í Reykjavík fyrr eða síðar og annað í Hafnarfirði. Og ef sérstakt sölusvæði verður á Akranesi, þá kemur hið þriðja þar. Ef reipdráttur yrði t. d. um það, hvernig stjórn skyldi mynduð, þá yrði öðrum hvorum hreppnum falið að mynda sérstakt framleiðslufélag. Ég veit til þess, að í sumum hreppum eru 2 framleiðslufélög, sem ekki eru meðlimir í mjólkurbúi, heldur viðskiptamenn. Þetta eru hrein starfandi framleiðslufélög. Það er svo óskýrt markað, hvernig þetta skuli vera, og það er svo mikið svigrúm fyrir ótakmarkaðar breytingar, svo þetta ákvæði er einskis nýtt.

Þetta eru í höfuðatriðum þær þrjár breyt., sem felast í brtt. minni hl. Ég veit ekki, hvort ég á að fara inn á einstök atriði í þeim. Hv. frsm. meiri hl. hefir þegar gert það. Ég get þó ekki stillt mig um að benda á, hversu skaplega hugsað er hjá þessum hv. þm., þar sem í 2. lið 2. brtt. þeirra segir á eftir ákvæðinu um þurrmjólkurvinnslu.: „Sú verðhækkun, sem á mjólkinni verður fyrir þessa notkun, eftir mati mjólkursölunefndar, rennar óskipt í verðjöfnunarsjóð“.

Hvað eiga þeir við með þessu? Þeir munu þarna hafa farið í smiðju til manna, sem fluttu svipað frv. á síðasta þingi. Mér skilst, að ef fyrirkomulag verðjöfnunarsjóðs er eins og ætlazt er til í frv., þá sé dálítið einkennilegt að segja, að ef einhver hlutur, sem fer til að búa til venjulega vöru, hækkar í verði, þá renni sá hækkun í verðjöfnunarsjóð til að bæta upp vöruna sjálfa. Fyrir mér er þetta það sama eins og ef sett væri í l. ákvæði um það, að ef verðhækkun yrði á ostum á erlendum markaði, þá ætti sú hækkun að renna í verðjöfnunarsjóð. Ég get ekki séð, hvaða önnur meining er með þessu.

Nú er það vitanlegt, eins og hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að þar sem þurrmjólkurvinnsla er komin á, þá er aldrei hægt að gera sér vonir um, að hún skili meiru fyrir mjólkina heldur en meðaltal annarar vinnsluvöru er, eins og hún nú er. Og þrátt fyrir það, þótt hún skilaði svo miklu, þá væri það miklu hærra verð heldur en verð þurrmjólkur, sem fæst keypt frá útlöndum. Ég vil segja, að það sé helmingi hærra. Þetta gefur að skilja, þar sem vinnsluverðið er helmingi dýrara hér en hjá bændum erlendis.

Ég skal svo ekki fara um þessar brtt. fleiri orðum. Þær sýna ljóslega, að þær eru í flaustri hugsaðar til þess eins að vinna máli því, sem hér um ræðir, tjón. Ég get vel skilið þetta, þar sem báðir þessir hv. þm. hafa sagt, að þeir væru þessu andvígir. Ég get skilið, að þeir vilji þá gera þessu máli það tjón, sem þeir halda, að geti orðið því að fullkomnu fótakefli, enda væri, ef þessar till. væru samþ., harla lítið varið í mjólkurlögin, sem eru í gildi hér á landi. Og einmitt í þessu kemur það fram, sem hv. þm. A.-Húnv. var að tala um, þegar hann var að spyrja okkur, sem að þessu frv. stöndum, hvort sjálfstæðismenn á þingi hefðu sýnt mjólkurskipulaginu fjandskap. M. a. eru hv. flm. þessara till. að sýna því fjandskap, þó ég viti reyndar, að það sé að óvilja þessa hv. þm., því hann er velviljaðri bændastéttinni heldur en þessar till. bera vott um. Það hefir jafnan verið svo, að þegar þetta mál hefir verið til meðferðar hér á Alþ., þá hefir það sætt þessari sömu meðferð með brtt. og málarekstri, sem jafnan hefir stefnt að því að ónýta það svo, að ekkert gagn væri að því.

Þá voru það nokkur atriði önnur, sem hv. þm. A.-Húnv. var að tala um og ég vildi gjarnan koma lítilsháttar inn á, þó ég vilji ekki eyða til þess miklum tíma. Hann segir, að ef eigi að útfæra þetta, að sama verð verði fyrir sömu vöru á sama stað, þá hljóti það að leiða til þess, að þessa verði krafizt um allt land og allt verði að koma undir þetta. Þá komi sama krafan um kjöt og aðrar framleiðsluvörur, svo þetta eigi að ríkja alstaðar. En hann hugsar þetta dálítið skakkt. Hann gengur út frá því, að allir eigi að eiga sinn sölustað í Reykjavík. Ef verðjöfnun á kjöti væri framkvæmd þannig nú, og þó ekki væri gengið lengra en þessar brtt. við mjólkurl. fara fram á og með þeim mismun á flutningskostnaði, sem yrði, ef kjötlögin væru framkvæmd þannig, að á öllu landinu væri miðað við Reykjavík, þá myndi verða langtum meiri mismunur á verðjöfnun á kjöti heldur en nú er. Hvað myndi það nema miklu á hverju kjötpundi hjá bændum, að flytja lifandi fé landleiðina norðan ár Þingeyjarsýslu og til Reykjavíkur? Hvað myndi það verða, komið til Rvíkur? — Ég skal taka annað dæmi. Ef Akureyri, sem nú fær 20 aura fyrir sína mjólk, væri t. d. ekki miðuð við sitt verðjöfnunarsvæði, heldur við Reykjavík, svo flutningskostnaðurinn á óunninni mjólk til Reykjavíkur væri dreginn frá, en hann er 15 aur., og er ég þá hræddur um, að verðið væri orðið harla lágt. Þess vegna verður verðjöfnunin að miðast við þann sölustað, sem næstur er, svo að sem mest réttlæti ríki meðal framleiðenda á öllum sviðum, því það er í raun og veru rangheiti að láta menn gjalda fjarlægðar frá sölustað. Ég veit um mjólkurbú á Suðurlandsundirlendinu, sem hefir tekið að sér ótilkvatt að minnka flutningskostnaðinn hjá þeim, sem lengst eiga, þannig að þeir, sem nær eru, taki þátt í honum. Þetta er hinn rétti samvinnuandi, og með slíku móti getur félagsskapurinn bezt haldizt. Það er ekki réttlátt, að þeir einir, sem hið opinbera hugsar mest um og hafa beztar samgöngur og þurfa því minnst fyrir lífinu að hafa, séu látnir njóta þess, sem hið opinbera hefir lagt fram til þess að lífsskilyrðin séu sem bezt á þeim stað. Það er nú ekki meira réttlæti, sem farið er fram á með þeim breyt. á mjólkurl. sem hér er gert ráð fyrir. Það er ekki farið fram á, að gengið sé lengra en það, að ekki sé níðzt á, svo ég noti orð hv. 2. þm. Reykv., þeim framleiðendum, sem hið opinbera hefir gert minnst fyrir og verst eru settir hvað snertir samgöngur og flutning á sinni framleiðsluvöru. Annað er ekki farið fram á.

Ég ætla svo ekki að segja miklu meira um þetta efni, enda býzt ég við, að það sé óþarfi. Ég vil aðeins taka undir það, sem hv. þm. A.Húnv. sagði, sem ég veit, að meinar vel að ýmsu leyti, þó hann sé þarna á villigötum, að hann vonaði, að hv. þm. gerða sér það ljóst, hvað það þýðir, ef þetta frv. verður samþ. Eða ef það verður fellt? Hvað þýðir það? Það þýðir upplausn á því skipulagi, sem nú hefir verið í nokkur ár og hefir á mestu örðugleikaárum bjargað bændum á stórum svæðum með afurðasölu, og fært þeim betra verð en þeir hafa fengið áður, en jafnframt fært neytendunum lækkun á því tímabili, sem allar aðrar vörur hafa hækkað í veði. Ég vona, að hv. þm., sen finna til ábyrgðar gagnvart úrlausn þingmála, geri sér þetta ljóst, áður en þeir láta hafa sig til að greiða atkv. móti þeirri lausn, sem hér um ræðir til þess að halda uppi því nauðsynlega skipalagi, sem verið hefir, og reyna að bæta það, en ekki að fella það niður.