18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1938

*Gísli Guðmundsson:

Ég skal ekki vera langorður, enda á ég ekki í raun og veru neinar brtt. um tekjur og gjöld fjárl., og áheyrendum er heldur farið að fækka. Ég finn ástæðu til að þakka, að mér virðist hafa bætzt einn aðstoðarmaður í hóp þm. til að vinna að máli míns kjördæmis, þar sem er hv. 6. þm. Reykv., sem hefir sýnt mér þá vinsemd að bera fram á þskj. 427 brtt. XIV um að hækka framlag til hafnargerðar á Þórshöfn úr 11 þús. í 16 þús. kr. Það er nú svo, að fjvn. hafir lagt til, að varið verði nokkru til þessa mannvirkis, sem ég sætti mig við; og í öðru lagi vil ég segja það, að ég hygg, að þessi till. hv. þm. sé byggð á nokkrum misskilningi og ókunnugleika hans um, hvernig málið er hugsað og framkvæmd þess. Skal ég svo láta útrætt um það.

Kem ég þá að því, að við hv. þm. Ak. eigum hér brtt. á þskj. 444, og er brtt. við brtt. frá samvinnunefnd samgöngumála. Samvinnunefnd hefir lagt til, að upphæðin, sem varið skuli í þessu skyni, hækki um lítils háttar fjárupphæð, og jafnframt, eins og venja er til, hvernig styrkurinn skiptist. Við getum ekki sætt okkur við þá skiptingu að öllu leyti. Því er þessi till. fram komin. En hún fer fram á, að til Norðurlandsbátsins, sem gangi á svæðinu frá Siglufirði til Seyðisfjarðar, verði styrkurinn hækkaður úr 13 þús. kr. í 15 þús. kr. Þetta þýðir ekki hækkun á fjárl., því að við erum þeir sparnaðarmenn, heldur ætlumst við til, að tekið verði ofurlítið af bátunum beggja megin við, Skagafjarðarbátnum og Austfjarðabátnum. Þessi Norðurlandsbátur hefir undanfarið haldið uppi ferðum á svæðinu frá Eyjafirði að Skálum á Langanesi, og hefir fengið 13 þús. kr. styrk. Nú hefir legið fyrir þessu þingi erindi um það, að styrkurinn yrði verulega hækkaður, og færð gild rök að því, að ekki gæti komið til mála að halda uppi ferðum fyrir þennan styrk, og væri ekki um annað að ræða en að þessar ferðir legðust niður. Ég hefi hinsvegar dengið um þetta mjög ákveðnar áskoranir frá þeim stöðum, sem þarna hafa hagsmuna að gæta, að hindra það eftir mætti, að slíkt þyrfti að verða. Enda eru samgöngur á þessu svæði landsins ákaflega strjálar, og það væri þess vegna hið mesta tjón, af þessar ferðir legðust niður. Í staðinn fyrir að hækka þennan styrk, sem full rök mæltu með, hefir nefndin látið styrkinn standa í stað, en jafnframt ætlazt til þess, að þessi bátur gengi yfir talsvert stærra svæði en honum var áður ætlað; svo að n. hefir einungis gert hag bátsins verri en hann var. Og þetta viljum við ekki sætta okkur við.

Hitt er annað mál, hvort sanngirni mæli með því, að lækkaður sé styrkur til bátanna, sem ég nefndi áðan. Ég vil telja, að svo sé. Og rök okkur fyrir því eru þau, að um leið og þessum bát er ætlað að halda uppi ferðum alla leið til Seyðisfjarðar, þá verður Austfjarðabátnum ætlað minna hlutverk en áður. Styrkurinn til Skagafjarðarbátsins, sem ég nefndi áðan, þrjú þúsund kr., er alveg nýr styrkur, og er hugsað, að báturinn, sem nú gengur um Skagafjörð og til Siglufjarðar, fái þennan styrk. Þessum ferðum hefir verið haldið uppi undanfarið án styrks, vegna þess að þær standa í sambandi við mjólkurbú á Sauðárkróki. Þess vegna hygg ég, að þessar ferðir muni hafa borið sig. Og ég hygg einmitt, að með því að flóabáturinn frá Akureyri er ekki lengur látinn ganga til Skagafjarðar, hafi verkefni Skagafjarðarbátsins aukizt, þannig að meiri líkur séu til, að rekstur hans standist en áður hefir verið.

Þegar ég hefi nú gefið þessar upplýsingar, þá vænti ég, að hv. þm. sannfærist um, að þessi till., sem við hv. þm. Ak. berum fram, er mjög sanngjörn. Og þau ummæli, sem hv. þm. Skagf. hafði um þetta í kvöld, eru ekki rétt, sem mun stafa af því, að hann er ekki búinn að kynna sér þetta mál svo að vel sé.

Ég skal þá koma að brtt. á þskj. 451, sem ég hefi leyft mér að flytja ásamt hv. þm. N.-Ísf. og hv. þm. Borgf. Er hún við 22. gr., um að stj. verði heimilað að láta nú fyrir næsta þing fara fram rannsókn á ritum Jóns Dúasonar og gera kostnaðaráætlun um útgáfu þessara rita. Fyrir Alþingi hefir legið erindi frá þessum manni, þar sem hann fer fram á, að ríkið hlutist til um, að þessi rit verði gefin út. Fylgja erindinu nokkur ummæli frá þekktum mönnum, sem nokkurt skyn bera á þetta mál. En svo er málum háttað, að þessi maður, dr. Jón Dúason, hefir unnið að því árum saman, fram undir áratug, að safna saman öllum gögnum, sem fyrir leggja bæði hér á landi og erlendis í söfnum og fræðiritum frá ýmsum tímum viðvíkjandi landnámi Íslendinga á Grænlandi og í Vesturheimi og veru Íslendinga á Grænlandi. Hefir hann einnig tekið að sér að rannsaka réttarstöðu Grænl. fyrr og siðar með tilliti til afstöðu okkar Íslendinga til þess lands. Ég skal ekki fara hér að tala um Grænlandsmál — þó að ef til vill væri þess vert, og þingið hefir á sínum tíma látið það mál til sín taka, — en aðeins segja það, að hvernig sem á það er litið, er í öllu falli um nokkuð þýðingarmikið mál að ræða. Í öðru lagi er enginn vafi á, að sú vinna, sem þessi maður hefir í þetta lagt, sem er allverulegur hluti af æfi hans, verðskuldar að minnsta kosti, að henni sé gaumur gefinn af hálfu hins opinbera og tekið verði til rækilegrar íhugunar, hvort ekki beri að styðja að því, að verk hans komi fyrir almenningssjónir. Þegar einstakur maður leggur á sig slíka vinnu, þá er sjálfsagt, að hið opinbera gefi því þann gaum að athuga, hvers virði það er. Ég fjölyrði ekki meira um þetta; en vænti þess, að hv. þm. sýni málinu þann skilning, sem það á skilið.