03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

1. mál, fjárlög 1939

*Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti! Hv. 7. landsk., EmJ, gerði í gær grein fyrir afstöðu Alþfl. til stjórnarinnar, en hún er á þessa leið: Hlutleysi með stuðningi gegn vantrausti meðan stj. fylgir sömu stefnu og fyrra ráðuneyti Hermanns Jónassonar, sem Alþfl. átti ráðh. í, og einstakar stjórnarframkvæmdir eða lagasetning ekki gefur tilefni til annars.

Alþfl. telur samvinnu bænda og verkalýðs kaupstaða og við sjávarsíðu æskilega, eðlilega og nauðsynlega til að tryggja hag þjóðarmeirihlutans og lýðræði í landinu. Eini möguleikinn til þess, að vinstri stjórn, frjálslynd stjórn, sem gætir réttar og hagsmuna þessara meginstétta þjóðarinnar, fari með völd, er, að þessi samvinna haldist. Því hefir Alþfl. ekki, þrátt fyrir það, sem Alþfl. og Framsfl. hefir greint á um, viljað slíta samvinnunni að svo stöddu, og það jafnvel þótt ágreiningsatriðin væru það mikilsverð, að hann vildi ekki bera ábyrgð á afgreiðslu þeirra þann veg, sem Framsókn kaus að ráða þeim til lykta, með því að hafa áfram ráðh. í ríkisstj., og ákvað því að draga hann út úr stj., eins og gert var við afgreiðslu laganna um gerðardóm í togaradeilunni.

Eftirtektarvert er það, að öll þau mál, sem alvarlegastur ágreiningur hefir risið út af milli Alþfl. og Framsfl., eru þess eðlis, að Framsfl. hefir ekki fengizt til þess, að dómi Alþfl., að gera nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjávarútvegsins og þess fólks, sem á afkomu sína undir honum. Svo var það vorið 1937, þegar Framsókn neitaði að fallast á till. Alþfl. um rannsókn á rekstri og hag togaraútgerðarinnar og uppgjör gjaldþrota fyrirtækja. Svo var það haustið 1937, þegar Framsfl. afgr. lögin um síldarverksmiðjur ríkisins með Sjálfstfl., og loks á þessu þingi, þegar hann samþ. lögin um gerðardóm í togaradeilunni í stað þess að fallast á till. Alþfl. um að lögfesta till. sáttasemjara um kaup á saltfisksveiðum.

Í þessu sambandi kemst ég ekki hjá því að benda á, hversu ranglega blöð Framsfl. segja frá þessu, og er það sérsaklega áberandi í Nýja dagblaðinu 9. apríl 1938, því að þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Danskir jafnaðarmenn vilja heldur gerðardóm en lögfestingu kaups“. Síðan er birt fregn, sem kölluð er útvarpsfregn, um það, að jafnaðarmannastjórnin í Danmörku hafi viljað gerðardóm, en ekki lögfestingu kaups, sem stjórnarandstæðingar hafi stungið upp á. Síðan bætir blaðið við frá eigin brjósti: „Eftir öðrum fréttum að dæma höfðu verkamenn samþ. till. sáttasemjara, en vinnuveltendur hafnað henni. Ef danskir jafnaðarmenn hefðu farið að dæmi Alþfl. hér, hefðu þeir átt að bera fram frv. um lögfestingu kaupsins í stað gerðardóms“.

Svo mörg eru þessi orð. Þessi fregn er öll skökk, og ef blaðið hefir ekki vitað þetta, þegar það birti hana, þá hlýtur það að hafa fengið að vita þetta strax á eftir, því að þarna er öllu snúið við. Það var danska stjórnin, sem lögfesti till. sáttasemjara um ákveðið kaup. Það voru Jafnaðarmannaflokkurinn og Radikali flokkurinn, sem samþ. þá till., en andstöðuflokkarnir, íhaldsmenn, vinstrimenn og Retsforbund, voru andvígir henni og kröfðust þess, að settur væri gerðardómur til þess að dæma um kaupið. Það var því alveg samskonar till., sem jafnaðarmannastjórnin samþ., og sú, sem við fluttum um að lögfesta till. sáttasemjara um kaup á saltfisksveiðum. En þessu er alveg snúið við hjá blaðinu, og engin leiðrétting er flutt á þessu. Þetta var atriði, sem ég gat ekki látið hjá líða að beina til hæstv. forsrh.

Þessi afstaða í heild til sjávarútvegsins sýnir og sannar, að erfiðleikarnir á samvinnu flokkanna hafa aldrei stafað af því, að Alþfl. hafi ekki skilið og metið nauðsyn landbúnaðarins og fólksins, sem stundar hann, fyrir hina margvíslegu aðstoð og fjárhagsstuðning, sem Alþ. hefir veitt honum síðan stjórnarsamvinnan hófst 1934. En hið sama er því miður ekki hægt að segja um skilning Framsfl. á nauðsyn og aðstöðu þess fólks, sem við sjóinn býr og á allt sitt undir sjávarútveginum, afkomu hans og starfsháttum. Atvinnuleysi og tekjurýrnun verkamanna og sjómanna, sem er afleiðing aflabrestsins gífurlega og saltfisksmarkaðstapanna, er mæðiveiki kaupstaða og sjávarþorpa, sem engu síður þarf að mæta með opinberum aðgerðum en mæðiveiki sveitanna, fjárpestinni.

Nú hafa á þessu þingi verið samþ. lög í samræmi við fyrri hluta till. Alþfl. á vetrarþinginu 1937 um rannsókn á rekstri togaraútgerðarinnar, ásamt athugun annara mikilsverðra mála, svo sem bankamála og tolla- og skattamála. Við afgreiðslu þeirra fæst úr því skorið, hvort grundvöllur fæst fyrir áframhaldandi, varanlegri samvinnu milli flokkanna.

Áður en ég vík að öðrum flokkum og afstöðu þeirra til ríkisstj., verð ég að beina nokkrum orðum til hæstv. forsrh., HermJ. Ummali hans um stéttabaráttuna gefa fyllsta tilefni til fjölmargra aths. En að þessu sinni skal ég láta nægja að benda á það eitt, að það er hvorki á hans færi né nokkurs annars að koma í veg fyrir hana, meðan svo er fyrir komið okkar þjóðmálum, að stéttirnar búa við hin ólíkustu kjör og andstæða hagsmuni. Með því elnu að koma á gagnkvæmri samvinnu stéttanna, að meginstéttirnar standi saman og styðji hver aðra, má afstýra því böli án stórfelldra skipulagsbreytinga. Að því vill Alþfl. vinna. Vill hann og hans flokkur það? Ég vona, að svo sé.

Út af ummælum hans og nokkurra hv. þm. um deilu stýrimanna við útgerðarfélögin, vil ég taka það fram, að það er alveg rangt, að deilan snúist aðallega um kaupgjaldið til þessara manna. Aðalkrafa þeirra er, að þeir fái ákveðinn takmarkaðan vinnutíma, eins og stéttarbræður þeirra í nærliggjandi löndum. Þessi aðalkrafa þeirra verður ennþá ákveðnari vegna aðgerða Framsfl., sem hefir nú með aðstoð Sjálfstfl., fengið samþ. í Nd. frv. um fækkun stýrimanna, sem áreiðanlega, ef það skyldi verða að l., yrði til þess fyrst og fremst, auk annars, að lengja vinnutíma þeirra, sem eftir yrðu. Það er því sízt að furða, þótt hér hafi risið ágreiningur. sem ég þó vona, að muni jafna sig, án þess það þurfi að koma til aðgerða ríkisstj., a. m. k. beinlínis. Það verður að feljast sjálfsagt, að reynt sé til þrautar, áður en til þess komi.

Ég skal einnig geta þess, að sá samanburður á kaupi þessara manna hér á landi og annarsstaðar, sem Nýja dagblaðið og Morgunblaðið hafa gert, er mjög villandi. Þar er ekkert tillit tekið til þess, að dýrtiðin hér er 257 á móti 161 þar.

Flokksmenn hæstv. ráðh. hafa borið fram frv., sem sýna, að þeim er ekki ljós stéttaraðstaða ýmsra stétta í þjóðfélaginu. Það eru frv. um breyt. á siglingalögunum og breyt. á lögum um iðnaðarnám, sem þeir vona að fá menn innan Sjálfstfl. til að fylgja. Ég vona, að ekki hljótist nein stór vandræði af þessu. En ég get ekki hjá því komizt í sambandi við þetta og fleira að benda hæstv. ráðh. á hið gamla orðtak, að gæta sín fyrir vinum sínum.

Ég sé, að í Nýja dagblaðinu, þar sem eru hugleiðingar um hina erfiðu tíma, sem eru svo algengar nú á tímum, er bent á, að eitt bezta bjargráðið sé að afnema kosningaréttinn hjá þeim, sem þurfa að þiggja opinberan framfærslustyrk. Ef margar raddir í hans flokki eru þessari svipaðar og flokkurinn hallast að slíku, þá hygg ég, að hljóti skjótlega að enda sú samvinna, sem verið hefir milli flokkanna og ég vona, að eigi eftir að haldast milli Alþfl. og Framsfl.

Ég verð að láta þetta nægja til hæstv. forsrh. Hv. þm. Snæf. hóf ræðu sína á því, að virðingu þingsins færi óðum hrakandi. Ég skal nú ekki margt um þetta ræða við hann. En ég verð að draga það mjög í efa, að ræða, slík sem hann flutti, sé líkleg til þess að bæta úr þessu, ef satt kynni að vera. Hún var að mestu leyti stóryrði og fúkyrði og illyrði, í stað raka, ef svo mætti segja. A. m. k. lánaðist mér ekki að finna rök í hans ræðu. Hv. þm. sagði, að viðskilnaður minn við sjávarútveginn hefði verið hinn ámátlegasti, og talaði um, að framundan væri útlitið ekki glæsilegt og allt væri í kalda koli. Það er rétt, að útlitið framundan er ekki bjart. En er það sök atvmrh.? Ég veit ekki, hvað þessi hv. þm. er langminnugur. En ég vil benda honum á að fletta upp í þingtíðindunum frá 1934 og lesa þar ræðu sins eigin bróður, hv. þm. G.-K., ÓTh, þar sem hann er að lýsa ástandi sjávarútvegsins 1934. Þá var allt í rústum og kalda koli, eftir því sem hann lýsir sjávarútveginum þá, þrátt fyrir eindæma aflabrögð undanfarið og opna markaði. Þrátt fyrir það, þótt svona hafi verið ástatt þá, að dómi hv. þm. G.-K., þá hefir þó lánast að halda sjávarútveginum gangandi síðustu ár, án þess að nokkur röskun hafi orðið á eðlilegu úthaldi. Þetta hefir tekizt þrátt fyrir eindæma aflabrest og þá markaðslokun, sem hv. þm. er kunnugt um. Þetta hefir verið gert þrátt fyrir það, þótt við höfum að mestu leyti tapað mörkuðum okkar á Spáni og á Ítalíu. Þetta veit hv. þm., og hann veit líka, að það er ekki neitt lítið átak, að hafa haldið þessu svo gangandi sem gert hefir verið til þessa tíma. Hann veit líka, að aldrei á nokkru tímabili hefir jafnmikið verið gert að því að létta gjöldum af sjávarútveginum og veita honum stuðning. Hv. þm. veit um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, afnám útflutningsgjalds af saltfiski, afnám kola- og salttolls, og hann veit, að á síðasta þingi var gert ráð fyrir fjárframlögum til sjávarútvegsins, sem nema 11–12 hundr. þús. kr., að mestu leyti nýjar fjárveitingar, og hann veit líka, að þetta á að auka nú á þessu þingi. Hvernig hefði farið, ef þetta hefði verið vanrækt? Hvernig hefði farið, ef útveginum hefði ekki verið haldið gangandi með þessum framlögum, hefði hann verið látinn eiga sig þrátt fyrir öll áföllin, sem hann hefir orðið fyrir? Það er rétt, að ég vildi ekki fallast á að útvegsmenn mættu nota gjaldeyri landsmanna til þess að braska með hann og feila þannig krónuna fyrir landsmönnum. Sömuleiðis er það rétt, að ég var því ekki fylgjandi að kaupa togaraútgerðarmenn hér í Reykjavík til að gera út á saltfisksvertið með því að lofa þeim fríðindum sem námu 40 þús. kr. á skip, eða 1½ millj. kr. alls, að óbreyttu rekstrar- og stjórnarfyrirkomulagi þessara fyrirtækja, eins og t. d. Kveldúlfs. Þetta skal játað.

Hv. þm. þótti við sósialistar dýrir í rekstri. Er það undarlegt, þar sem við höfum lagt til sjávarútvegsins svo gífurlegt fé, til atvinnubóta 500 þús. kr., til alþýðutrygginga 550 þús. kr., til framfærslu sjúkra manna 300 þús., og til byggingarsjóða verkamanna 280 þús. kr. Ég veit, að hv. þm. Snæf. þykir við sósíalistar dýrir í rekstri, en fleiri eru það, sem dýrir eru. Þykir hv. þm. Kveldúlfur ekki dýr í rekstri, Kveldúlfur, sem um fleiri ár hefir verið einskonar byggingarsjóður fyrir Thorsbræður? Hver borgar þann rekstur? Ég teldi það fé betur komið í annan byggingarsjóð. Þessi hv. þm. talar úr glerhúsi, þegar hann talar um dýran rekstur. Hann er líka í stjórn fisksölusambandsins. Er það ekki ódýr rekstur?

Hv. þm. valdi Alþfl. hæðileg orð og hrokaleg fyrir að afstýra vantraustinu á ríkisstjórnina, eftir að ég var farinn úr ríkisstórninni, og þótti það hin hræðilegasta útreið. Ég þakka hv. þm. umhyggjuna fyrir mér, en ég held, að það stæði honum nær að bera þessa umhyggju fyrir sínum eigin flokki. Það er vitað, að togarastöðvunin var gerð til þess að koma stjórninni í vandræði og velkja hana, í von um að fá íhlutun og áhrif á hana að því loknu. Það sannar meðal annars, að togarastöðvunin var ekki kaupdeila, að stöðvaðar voru ufsaveiðarnar, þar sem engin kaupdeila kom til. Lok togarastöðvunarinnar urðu íhaldsmönnum vonbrigði. Henni lauk svo, að gerðardómurinn var samþ. og íhaldsmenn féllu frá kröfum sínum um óbreytt kaupgjald sjómanna og gengu inn á hækkun. Þeir féllu frá kröfunum um fríðindi frá ríkissjóði, sem námu um 40 þús. kr. á skip, með óbreyttum rekstri togaraútgerðarinnar. Þeir féllust á rannsókn á rekstri togaraútgerðarinnar, sem þeir töldu áður hina mestu óhæfu, en form. Sjálfstfl. talar nú um sem sitt hjartans mál og þykist sjá þar hilla undir uppfyllingu innilegustu óska sinna, ef frv. það verði samþ.

Loks fagnar hv. þm. Snæf. yfir því, að útlit sé með, að vinnulöggjöf verði samþ. á þessu þingi. Sú löggjöf er ekki um hækkað kaup og bætt kjör verkamanna. Það er löggjöf, sem bannar atvinnurekendum að reyna að fá félagsbundna verkamenn til að gerast verkfallsbrjóta, sem löghelgar verkföll, jafnvel skyndiverkföll, sem baráttuvopn alþýðunnar gegn atvinnurekendum, sem bannar pólitíska brottrekstra og lögverndar trúnaðarmenn verkalýðsfélaga. Ég verð að segja, að rækilegar getur enginn stjórnmálaflokkur kysst á vöndinn en Sjálfstfl. hefir gert með þessu, og þá ekki sízt þessi hv. þm., eins og ummæli hans hér siðast báru með sér. En í hvaða skyni er allt þetta gert? Til þess að spyrjast fyrir um það hjá Framsfl., hvort hann vilji ekki taka Sjálfstfl. með sér í þjóðstjórn. Í þjóðstjórn með flokki, sem hefir lýst því yfir, að hann muni fylgja sömu stefnu í fjármálum atvinnumálum og viðskiptum framvegis. Nú gerir ekkert til með l. um skipulagning síldarsölunnar, mjólkurlögin, kjötlögin, um fisksöluna, um innflutning og gjaldeyrisverzlun og um tryggingar. Ekkert af þessu skiptir neinu máli, bara ef þessir menn verða teknir inn í þjóðstjórn. Þá má allt þetta haldast. Þeir eru vonlausir um meirihI. síðan „breiðfylkingin“ brást líka, svo að þeir snúa nú vonum sínum til samkomulags við Framsfl. Hverju þeir ætla svo að bjarga með því, það vita þeir bezt. En þetta verður að teljast sú fullkomnasta uppgjöf, sem nokkurn stjórnmálaflokk hefir hent.