09.04.1938
Efri deild: 45. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

61. mál, ríkisborgararéttur

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv. um það, að norskum manni, Arndís Valderhaug, bakara í Dalvík við Eyjafjörð, verði veittur ríkisborgararéttur. Þeim hv. þdm., sem sæti áttu í d. fyrir síðustu kosningar, er kunnugt um þetta mál, því að á fyrra þinginu 1937 bar ég fram samskonar till. og skýrði þá frá því, hvernig ástatt er í þessu efni.

Það var víst á þinginu 1935, að þessi maður sótti um ríkisborgararétt og sendi öll skjöl þar að lútandi hingað til mín. Ég afhenti þessi skjöl hv. allshn. Nd., en gætti þess ekki að láta skrásetja þau á skrifstofunni, og þegar til átti að taka, gat ég ekki fengið þessi skjöl, og hefi ekki geta fengið þau síðan. En við það var kannazt í fyrra af ýmsum, sem áttu sæti þá í allshn. þessarar hv. d., að þeir minntust þess, að hafa séð þessi skjöl, þegar þau lágu fyrir hv. allshn. Nd.. og þar á meðal veit ég, að hv. 2. þm. S.-M. minnist þess, að hafa séð þau þá, en hann á nú sæti í hv. allshn. þessarar d.

Það, sem olli því. að þessi maður fékk ekki veittan ríkisborgararétt, þegar hann sótti um hann, var það, að hann var þá ekki búinn að vera það langan tíma hér á Íslandi, sem áskilinn er. Hann mun hafa flutzt hingað til lands árið 1928, og er því á þessu ári búinn að vera 10 ár í landinu. Hann talar íslenzka tungu og er giftur íslenzkri konu. Hann er búinn að starfa hér lengi við íslenzkt fyrirtæki.

Ég veit náttúrlega ekki, hvort hv. n. óskar þess að athuga þetta betur og fá málið þess vegna tekið af dagskrá, en ég sé engan veg annan en annaðhvort að taka fullnaðarákvörðun um þennan mann nú eða hitt, að gera honum aðvart um að útvega sér aftur öll þau skjöl, sem hann var með töluverðri fyrirhöfn búinn að útvega sér frá föðurlandi sínu, Noregi, en það mundi að sjálfsögðu baka honum talsverða fyrirhöfn og auk þess kostnað, sem ég tel í rauninni alveg óþarft, þar sem þetta var áður upplýst í þinginu, þó að það liggi ekki skjalfest fyrir nú, að hann vantaði ekkert til þess að fullnægja öllum skilyrðum nema það, að hafa verið nógu lengi hér á landinu, en á þessu ári er hann einmitt búinn að fullnægja því skilyrði, eins og ég gat um áðan.

Á fyrra þinginn 1937 segir frsm. allshn. þessarar hv. d., Magnús heitinn Guðmundsson, einmitt um þennan mann, að hann fyrir sitt leyti muni ekki setja sig upp á móti því, að hann fái ríkisborgararétt, og ég býst við, að hann hafi sagt það sökum þess, að hann var búinn að ganga úr skugga um, að það er rétt, sem ég hefi fram tekið.

Ef hv. n. treystir sér ekki til þess að mæla með þessu nú, eða ef hún mælir á móti það á þessu stigi málsins, þá vænti ég þess, að málið verði þá heldur tekið af dagskrá í dag, ef ske kynni, að frekari upplýsinga væri hægt að afla um þetta.