03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, fjárlög 1939

Einar Olgeirsson:

Hv. þm. S.- Þ., JJ, sagði mjög skemmtilega sögu áðan, og ég býst við því, að allir hlustendur hafi fundið mjög til þess, hve aumkunarverður hv. þm. Dal., ÞBr var. En nú skal ég segja ykkur sögu, sem að vísu er ekki eins sennileg og hin, — en samt sönn. Og hún er sú, að síðan hv. þm. Dal. og Bændafl. dóu sínum pólitíska dauða, af snertingu við íhaldið, þá hefir hv. þm. S.-Þ. enga heitari ósk en að fara sömu leið, mynda nýja breiðfylkingu með íhaldinu, — og allir vita hver afleiðingin yrði, pólitískur dauði þeirra framsóknarmanna, er það gerðu. Það verður því ekki annað sagt en að íhaldsbráðapestin, sem Bændafl. dó úr, sé farin að smitta inn í Framsókn, og sjálfur formaðurinn sé nú orðinn þar nokkurskonar pólitískt lík í lestinni. Það er þess vegna í rauninni nokkurskonar draugaglíma, sem þessir tveir gömlu samherjar eru að heyja hér í útvarpinu.

Hv. þm. Snæf., TT, talaði hér í gær mikið um kröfur útgerðarmanna og aðferðirnar til að bjarga útgerðinni. Og það vantaði svo sem ekkert á, að frelsun útgerðarinnar ætti að koma frá Kveldúlfi og heildsalaklíkunni í Sjálfstfl. En smáútgerðarmennirnir hafa nú eitthvað aðra sögu að segja. Að áliti skipulagsnefndar atvinnumála hefir tap á íslenzka sjávarútveginum verið t. d. árið 1932 tæpar 2 millj. kr., og mun það oft hafa verið nálægt þeirri upphæð. Á sömu árum og tapið er þetta, nemur hreinn gróði verzlunarauðvaldsins í landinu um 5 millj. kr. Þar af mun álagning hringanna, sem verzla með olíu, kol, salt og veiðarfæri við útgerðina, vera upp undir 2 millj. kr. Og hvað hafa svo Kveldúlfarnir — þessir bjargvættir útgerðarmannanna, sem þeir þykjast vera — gert til þess að losa útgerðamennina við þetta farg, sem á þeim hvílir? Kveldúlfarnir hafa, eins og hringarnir, setzt á hið breiða bak fiskimannanna og reynt að sliga þá enn meir. Árið 1934 átti Kveldúlfur aðalþáttinn í því, að verðjöfnunargjaldið illræmda var lagt á útgerðarmenn og sjómenn 5 kr. á hvert skippund. Það var meira en 1 millj. kr. tollur á útgerðina, — og fór allt í mútur til vildarvina Kveldúlfs á Spáni. Svona fara þeir Thorsararnir að því að bera byrðar útgerðarmannanna og losa þá undan farginu, sem á þeim hvílir! Og ætli útgerðarmenn sjálfir að reyna að losa sig undan oki fiskhrings Kveldúlfs og Alliance, þá hika þessir postular verzlunarfrelsisins ekki við að lögbjóða einokun á fiskinum - eins og hv. þm. G.-K., ÓTh, gerði árið 1932, og hv. þm. Seyðf. HG, varð að gera árið 1935 eftir kröfu Landsbankans, og hlaut lof Morgunblaðsins fyrir. Og auk alls þessa fargs, sem hvílir á herðum fiskimannanna frá hendi fiskhrings og söluhringa, þá liggja svo hinar háu rentur hankavaldsins sem mara á útgerðinni, –og þessar háu rentur eru afleiðingin af tveggja áratuga óstjórn og braski einkaframtaksins svokallaða, allt frá Copeland til Kveldúlfs.

Við Kommúnistar álitum, að útgerðinni verði ekki komið á heilbrigðan grundvöll, fyrr en vald hringanna sé brotið á bak aftur og yfirráð Kveldúlfs yfir S. Í. F. afnumin, þannig, að samtök útgerðarmanna á lýðræðisgrundvelli fái jafnt yfirráð yfir gjaldeyrinum til innkaupa á útgerðarvörum og ráði sjálfir yfir sölunni á fiskinum, en njóti aðstoðar ríkisvaldsins í sambandi við hvorttveggja. Og jafnframt sé gert upp í Landsbankanum og heilbrigð fjármálastjórn sköpuð í fjármálalífi landsins.

Það er ekki von, að Kveldúlfi og hans fylgifiskum, sem lifa á undirokun smáútgerðarmanna og sjómanna, lítist neitt vel á okkar stefnuskrá í þessum málum, því að hún boðar endalokin á óreiðunni og spillingunni, sem hringavaldið þrífst í. Þess vegna var það líkast því, sem hv. þm. Snæf., TT, sleppti sér, þegar hann fór að tala um okkur. Hann ásakaði ríkisstj. fyrir, að „hún hefði látið kommúnistana halda lífi“. Hann heimtaði að okkur yrði útrýmt, kvað hægðarleik að „kyrkja Kommúnismann“, ef menn þ. e. a. s. Kveldúlfur og þjónar hans, stæðu saman. Við hræðumst ekki hótanir þessara herra. Við vitum, að hvaða ráðum, sem þeir beita, þá geta þeir aldrei sigrað. Þið getið bannað okkur, ofsótt okkur, beitt öllum ráðum, sem villimennskan, er nú ríkir í Þýzkalandi og Ítaliu, hefir kennt ykkur. Þið útrýmið okkur aldrei! — Meðan það hneyksli er til, að menn, sem vilja vinna, fá ekki atvinnu, — meðan sú svívirðing helzt við lýði, að þeir, sem vinna, eignist aldrei neitt, og hinir, sem ekkert vinna, eigi allt, — meðan sá glæpur er algild regla í þjóðfélögum, að mennirnir verði að svelta mitt í allsnægtunum, sem þeir hafa skapað, þá verðum við Kommúnistarnir til sem svarnir fjendur auðvaldsskipulagsins. Og það er óhugsandi að útrýma okkur og sléttabaráttu verkaIýðsins, því að sjálf tilvera auðvaldsskipulagsins framkallar frelsisbaráttu alþýðunnar. Og þegar auðvaldsskipulaginu loks yrði útrýmt, og með því stéttaskiptingunni og stéttabaráttunni, því er um leið hugsjón okkar, sósialisminn, kominn í framkvæmd. — Og Thorsurunum vil ég segja það: Þið reynið að halda því fram, að það sé linkind Hermanns Jónassonar og ræfilsháttur hægri mannanna, sem halda komúnismanum við! Nei, mínir herrar. Það eruð þið, sem skapið Kommúnismann. Það er ykkar stórútgerð, togararnir. sem gera ósamtaka bændasyni úr dreifðum býlum landsins að samstilltri heild togarasjómanna, brjóstfylkingu hinnar skipulögðu íslenzku verkamannastéttar. Það er kúgun ykkar í einni klíku með fiskhring, söluhringum og bankavaldi, sem mun þjappa allri alþýðu Íslands saman í eina fylkingu gegn yfirráðum ykkar og fjármálaspiliingunni, sem þið hafið skapað í þjóðlífinu. Það er auðvaldið sjálft, sem hefir skapað verkalýðinn og kennt honum að herjast, og þarmeð hefir það ekki aðeins skapað það afl, sem grefur því sjálfu gröfina, heldur og arftaka sinn. Og sem kunnugt er, þá getur enginn drepið eftirmann sinn, og þess vegna getur auðvaldið heldur aldrei ráðið niðurlögum verkalýðsins.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 7. landsk., EmJ, í gær. — Hann sagði, að Alþfl. hefði ætlazt til þess, að samkomulagið við Framsókn í haust yrði á svipuðum grundvelli og áður. Þetta kemur nú flestum hlálega fyrir sjónir. Hvers vegna var þá Alþfl. að leggja út í kosningarnar 20. júní í fyrra og slíta samvinnunni við Framsfl., ef hann ætlaði að semja á sama grundvellinum og áður, grundvellinum, sem Alþfl. einmitt ekki gat sætt sig við? Nei, það duga engar blekkingar um þetta atriði. Alþfl. fór út í kosningar af því, að hann heimtaði róttækari pólitík en áður, — og hann heimtaði róttækari pólitík vegna þess, að hann vissi, að fólkið sætti sig ekki við þá tvístígandi pólitík, sem rekin var af ríkisstj. og einkum birtist í því, hve háð hún var hinni drottnandi klíku í landinu, Landsbankanum og Kveldúlfi. Þess vegna heimtaði Alþfl. uppgjör Kveldúlfs og breyt. á stj. Landsbankans. En stj. Alþfl. neitaði að skapa í þeim kosningum það eina vald, sem hugsanlegt var, að gæti komið róttækari pólitík fram, — það vald, sem fólst í einingu verkalýðsins. Og því fór sem fór. Og nú er eins og þessi hv. þm. meðlimur í stj. Alþfl., sé búinn að gleyma öllum þessum stóru kröfum, og fer jafnvel að tala um frv-. Alþfl. um breyt. á stj. Landsbankans sem lítilfjörlegt frv., þegar við Kommúnistar nú flytjum það með hv. 3. þm. Reykv., Hv. Öðruvísi mér áður brá, — í fyrra átti þetta frv. að bjarga landinu!

Óhamingja stj. Alþfl. og bægri mannanna á síðasta ári á rót sína að rekja til ofstækis þeirra, og neifunar á samvinnu við kommúnista, þvert á móti vilja fólksins.

Hv. 7. landsk., EmJ, reynir að afsaka sig með því, að við Kommúnistar höfum ekki viljað samvinnu nema á kommúnistískum grundvelli! Þetta er þvaður og örgustu blekkingar. Engum er kunnugra en þessum hv. þm. um, að grundvöllurinn, sem við buðum Alþfl. að hafa samvinnu á, var grundvöllur lýðræðisins og hagsmunabaráttu aiþýðunnar. Og þessum grundvelli hafnaði stj. Alþýðusambandsins í ofstæki sinn og gorgeir. Samt studdum við ýmsa þessara manna við þingkosningarnar, ekki aðeins í orði, heldur og á borði. Þar á meðal þennan hv. þm. í Hafnarfirði. Og við síðustu bæjarstjórnarkosningar höfðum við sameiginlegan lista þar með honum og komum honum inn í bæjarstj. Var sú samtinna á kommúnistiskum grundvelli? Var kosningasamvinnan í Vestmannaeyjum, á Norðfirði, á Siglufirði og Ísafirði eingöngu á kommúnistiskum grundvelli? Eða kosningasamvinnan í Reykjavík, sem Stefán Jóhann Stefánsson sveik? Stefán Jóh. gat ekkert gagnrýnt í kosningastefnuskrá A-listans við bæjarstjórnarkosningarnar út frá sjónarmiði Alþfl. Það eina, sem þeir reyndu að fetta fingur út í, var, að ætlazt skyldi vera til, að leitað yrði álits styrkþeganna viðvíkjandi framfærslufulltrúunum. Það þótti þeim lýðræðispostulunum víst fullmikið lýðræði. Ekki hefir Alþfl. þurft að kvarta yfir því, að við kommúnistar höfum ekki allsstaðar staðið við skuldbindingar okkar sem ábyrgur flokkur, — en við höfum ástæðu til að kvarta yfir, að hægri menn Alþfl. í Reykjavík hafi beinlínis svikið þær skuldbindingar, sem þeir gengust undir. Þetta þvaður um, að ekki sé hægt að vinna með okkur, er því markleysa. Hv. 7. Iandsk., EmJ, veit ósköp vel, að samvinnan, sem við bjóðum alltaf bæði Alþfl. og Framsfl. er mestmegnis um að framkvæma þeirra eigin stefnuskrár, því að eins og allir vita, eru stefnuskrár Alþfl. og Framsfl. mjög fagrar, og að ýmsu leyti góðar, — en framkvæmdin á þeim er hinsvegar fyrir neðan allar hellur. Við þjóðum þeim sem sé að framkvæma þeirra eigin stefnur, gera kosningaloforð þeirra að veruleika. Og það er það, sem þessum ágætu flokkum er um og ó, því að þeir hugsa sér auðsjáanlega kosningaloforðin sem loforð, en ekki sem efndir. Og einu sinni neituðu alþýðuflokksmenn samvinnu við okkur, af því að það, sem við heimtuðum, að væri framkvæmt, stæði í stefnuskrá þeirra.

Til þess svo að fullu og öllu að afsanna allt þetta þvaður hv. 7. landsk. EmJ, um, að ómögulegt sé að hafa samvinnu við kommúnista, því að þeir vilji ekki ganga inn á neitt nema kommúnistiskan grundvöll til samvinnu á, þá skal ég lofa honum að heyra, hvað hv. þm. Ísaf., FJ, sagði fyrir skömmu viðvíkjandi vantrauststill. á ríkisstj. Þetta er prentað í Alþýðublaðinu 8. apríl, og ætla ég að lesa það upp; með leyfi hæstv. forseta:

„Ég get einnig nefnt hér sem dæmi um samvinnu flokka, sem á rétt á sér, samninga, sem gerðir hafa verið milli Alþfl. og Komfl. um ýmiskonar framkvæmdir í bæjarmálum úti á landi.

Þessi síðari samvinna er þó til orðin á þann hátt, að kommúnistar hafa að öllu leyti gengið inn á stefnu Alþfl. um framkvæmd bæjarmála, þar sem slíkir samningar hafa verið gerðir. en fallið frá sínum fyrri kröfum og stefnum.“

Að vísu er nokkuð orðum aukið hjá þessum hv. þm.. FJ, hvað síðustu orðin snertir, en rangfærslur hans eru a. m. k. í þveröfuga átt við fullyrðingar hv. 7. landsk., EmJ. Annar ber okkur sem sé óþolandi einstrengingshátt á brýn, en hinn takmarkalausa eftirgefni. Orð beggja eru a. m. k. sönnun fyrir þeim takmarkalausa ruglingi, sem nú er hjá hægri mönnunum. Þeir vita ekkert, hvað þeir eiga að segja, af því að þeir þora ekki að segja satt.

Svo talaði hv. 7. landsk., EmJ, um, að við hefðum „látið skína í, að við vildum sameiningu“, en það hefði bara verið herbragð! Það er bezt að rifja ofurlítið upp fyrir þessum herrum. — Svarið, sem við venjulegast fengum hjá Alþfl., þegar við buðum upp á samvinnu, var: Við viljum bara sameiningu. Og loks þegar það fór að nálgast, að við gætum farið að athuga málið á þeim grundvelli líka, þá er samþykktin fræga gerð í Dagsbrún í fyrra, og sameiningarsamningarnir hefjast. En hvað segir nú sjálf stj. Alþýðusambandsins, þ. e. a. s. meiri hl., hægri mennirnir, um þetta sameiningartilboð? Hún segir nú, eftir að hún rak Héðin, í yfirlýsingu, sem hv. 7. landsk., EmJ, sjálfur skrifar undir, að sameiningartilboðið hafi aðeins verið herbragð Alþfl. á móti herbrögðum kommúnista, en alls ekki verið meint alvarlega. Þetta er einlægnin hjá þessum mönnum, sem eru að bera ekkur hræsni á brýn. Svo tala þessir menn svart um stefnuskrána, og það er nú sérstaklega „spesiale“ hv. þm. Seyðf., HG. Svona vildum við hafa það, segja þeir, en þetta neituðu þeir að ganga inn á, nefnilega laga- og þingræðisgrundvöll. En hvernig var þá þessi grundvöllur í stefnuskránni í haust? — Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Flokkurinn berst á þingi og í bæjarstjórnum á þingræðisgrundvelli, með löggjöf og hverskyns umbótastarfsemi, að bættum lífskjörum hinna vinnandi stétta“. Er Framsfl. á móti þessu? Nei. Hægri menn Alþfl. geta ekki heldur að því fundið. En þeir segja, að sameiningarstefnuskráin stefni engu síður að blóðugri byltingu, og það, þó að þeir geti hvergi fundið því stað í stefnuskránni sjálfri. Hvernig myndi þeim þá litast á að samþ. það, sem stendur í stefnuskrá norska verkamannaflokksins? Þar segir, að á þeim fima, sem úrslitabaráttan stendur, sé flokkurinn reiðubúinn að beita öllum vopnum og öllu því harðfylgi, sem hann ræður yfir, til að brjóta niður mótspyrnuna, og leggja grundvöllinn að sósialismanum.

Þannig hafa Kommúnistar sýnt hina ýtrustu tilslökun gagnvart Alþfl, en hægri menn hans ásaka okkur um einstrengingshátt og það, að við höfum ekki viljað ganga inn á atriði, sem ekki eru nærri eins róttæk og stefnuskrá norska verklýðsflokksins. Svo svara þeir, að þm. Kommfl. geri yfirboð, þegar þeir bera hér á Alþ. fram till., sem ganga í þá átt, að koma almenningi að gagni. En ég vil spyrja þessa hv. þm. Hvað vildi Alþfl. árið 1933, þegar hann bar fram frv-. um að verja 11 millj. kr. til kreppuhjálpar og til verklegra framkvæmda? Var það yfirboð? Eða voru það yfirboð, þegar Alþfl. var að vinna að breyt. á kjördæmaskipuninni og 1. um verkamannabústaði, eða gerði Alþfl. það ekki til að vinna fyrir almenning? Það nær engri átt fyrir hægri menn Alþfl. að halda slíku fram. Þeir ættu að stinga hendinni í sinn eigin barm, áður en þeir ráðast þannig á okkur kommúnista. Ég mun síðar víkja nánar að þessu, sem hv. 7. landsk., EmJ. talaði um áðan, í sambandi við ræðu hans í gær.