21.03.1938
Efri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

57. mál, eftirlit með skipum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það má ef til vill segja, að ég sé að endurtaka það, sem ég hefi áður sagt. Ég ætla þá fyrst að minnast á það, sem fram kom í n. í morgun um þær fyrirspurnir, sem hv. þm. Vestm. segir, að lagðar hafi verið fyrir skipaskoðunarstjóra. Ég verð að segja við hann, að skýrsla hans er rétt, svo langt sem hún nær. Hann segir, að skipaskoðunarstjóri hafi svarað nei við þeim fyrirspurnum, sem hann hafi lagt fyrir hann, en það fylgdi með: „ef laun mín eiga að lækka“. Hann hefir ekki neitað því, að hann vildi vera laus við þessi aukastörf hjá Eimskip og Ríkisskip, ef honum er tryggður sá lífeyrir, sem hann telur sér samboðinn, svo að hann gæti rækt sitt aðalstarf betur en nú. Það kom fyllilega fram hjá honum í n., að eftirlitið samkvæmt alþjóðareglum væri orðið svo umfangsmikið, þar sem á honum hvíldi sú skylda, að stöðva erlend skip, ef þau fullnægðu ekki alþjóðareglum, ekki aðeins hér í höfninni, heldur líka í höfnum úti á landi. Hann benti líka á, að í þessu frv. væri hlaðið á sig enn meiri skyldustörfum en áður. Hann sagði þess vegna, að hann vildi að vísu ekki losna við Eimskip, nema sér væru tryggð þau laun, sem hann hefði fengið fyrir það starf. En allir vita, að hann hefir ekkert fengið greitt síðustu árin fyrir eftirlitið hjá Ríkisskip, en það hefir tekið mikinn tíma frá öðrum störfum hans. Það er því ekki nema hálfsögð sagan hjá hv. þm. Vestm.

Ég sagði hér áðan, og ég mun aldrei víkja af þeirri skoðun, því að hún er rétt, að jafnþýðingarmikið starf og skipaskoðunarstarfið á að vera, þarf það að vera svo óháð sem frekast eru föng á, svo að það verði ekki talið hlutdrægt af þeim sökum, að þeir, sem að því vinna, eigi laun sín undir öðrum en því opinbera. Ég vitnaði við 2. umr. í 1. um hæstarétt, hvað það þótti mikilsvert, að dómararnir væru óháðir öllum einstaklingum þjóðfélagsins, og ríkið launaði þá svo vel, að þeir gætu þess vegna verið óháðir öðrum. Ég álit, að hér sé um hliðstætt dæmi að ræða.

Svo kom hv. þm. að aukastörfunum og sagði, að ég vildi fella þau niður. En ég geri ráð fyrir, að hann geti haft aukastörf, sem ekki koma skoðuninni við. Hann vitnaði í 2. málsgr. 6. gr. í frv. Hún er að vísu nokkuð öðruvísi orðuð en í mínu frv., en það er nákvæmlega sama hugsun hjá mþn., þótt orðalagið sé svona. aukastörf, sem hann gæti innt af höndum, en ekki koma skoðuninni við, munu honum ekki vera bönnuð. (JJós: Það stendur: „engin aukastörf“.) Að vísu stendur það, en ég geri ráð fyrir, að það megi laga orðalagið, en aukastörfin má ekki binda við skoðun skipa. Það væri hart, ef þessi embættismaður mætti ekki hafa aukastörf, ef þau koma ekki embættinu við, þótt bann fengi borgun fyrir. En aukastörfin mega ekki koma í bága við hans aðalstarf sem skipaskoðunarmanns, því að það er aðalatriðið.

Þá vildi hv. þm. ekki í raun og veru fallast á það, sem ég benti á, að þær 1800 kr., sem nú er varið til skrásetningarstarfsins samkvæmt l. um skrásetningu skipa, séu teknar út úr ráðuneytinu og fluttar inn í skipaskoðunarstjórastarfið. Þetta starf hefir verið flutt á skrifstofu skipaskoðunarstjóra, af þeim ástæðum, að þetta er svo skylt skipaskoðunarstjórastarfinu, að það var óumflýjanlegt að draga það út úr stjórnarráðinu og færa það niður á skrifstofu skipaskoðunarstjóra, en maður sá í ráðuneytinu, sem hafði þetta starf með höndum, var látinn fylgja því niður á skrifstofuna, því að það var enginn maður hjá skipaskoðunarstjóra til þess að vinna það. Hinsvegar benti skipaskoðunarstjóri á það í n. í morgun, að þetta væri tvímælalaust ekki það sérfræðilegt starf, að ef hann fengi aðstoðarmann, þá myndi hann geta innt þetta starf af hendi, sem sé skrásetningu skipa, svo að þessar 1800 kr. mætti draga þarna út.

Hv. þm. sagði, að þetta mundi eiga að bæta upp laun ákveðins manns. Ég skal ekkert um það segja. Ég hygg, að þar hafi ráðið meir, að hann hafði þetta starf áður í ráðuneytinu. Ég efast ekki um, að það væri hægt að láta þennan mann fá annan starfa, sem gæti komið sem launauppbót til hans. (JJós: Þetta var aðeins ágizkun hjá mér.) Þessar 1800 kr. munn geta reiknazt sem frádráttur.

Þá vil ég geta þess, að allt starf skipaskoðunarstjóra er ekki fólgið í því að vera úti í skipum. Hann verður oft að vinna fram á nætur við skýrslugerðir. Hann hefir t. d. núna með höndum að umsemja þýðingarmikla reglugerð, sem er um öryggi skipa og er frá 1922. Það er ætlazt til, að hún sé endurskoðuð ítarlega, eins og gert hefir verið nágrannalöndunum.

Ég gat þess áðan, að sá eiginlegi kostnaður samkvæmt mínum till. gæti ekki orðið meiri en 9400 kr. við skipaskoðun þá, sem ég held fram, að eigi að koma á. Ég get alls ekki skilið þá menn, sem alltaf eru að tala um, að allt eigi að spara, og geta ekki séð af 10 þús. kr. til þess að auka eftirlitið með skipum í landinn. Ég minnist þess, að það er ekki lengra síðan en á síðasta þingi, að til þess að auka menntun við bændaskólana var varið 20 þús. kr. Það er auðvitað virðingarvert, en það er ekki síður þýðingarmikið að vernda hin ungu mannslíf, sem eru úti á sjónum, að þau farist ekki fyrir hirðuleysi einhverra manna. Ég vil a. m. k. borga 10 þús. kr. fyrir það, að hin ungu mannslíf farist ekki fyrir handvömm einstakra manna.

Þá talaði hv. þm. um þann áróður, sem borið hefði á gegn skipaskoðunarstjóra og hann vildi meina, að hann væri kominn fram frá sérstökum mönnum. Ég veit ekki, hvort hann á við mig. En ég get sagt honum í fullri einlægni, að ég hefi kynnzt starfi skipaskoðunarstjóra um nokkurra ára skeið, og ég hefi sagt bæði við hann og án þess að hann heyrði til, að ég teldi, að hann hefði mjög góða þekkingu til þess að inna þetta starf af hendi og mörg skilyrði til þess. Ég hefi ekki komið auga á annan mann, sem líklegri væri til að inna þetta starf af hendi vel og af þekkingu.

Hinsvegar er því ekki að leyna, að gagnrýni út af slælegri skipaskoðun hefir verið mjög hávær, og mun hún a. m. k. stundum hafa verið á fullum rökum reist. Það er reynt að koma í veg fyrir þessa gagnrýni með þessu frv., þar sem er verið að mynda nýtt skipulag til þess að reyna að útrýma því, að gagnrýnin geti verið á rökum reist. Þessi gagnrýni hefir ekki verið sprottin af illvilja, heldur af umhyggju fyrir lífi þúsunda manna, sem út á sjóinn fara. En ég frábið mér að hafa komið með nokkra gagnrýni á þennan mann. En ég játa, að ef ég vissi, að gagnrýnin væri á rökum reist, þá sé ég enga ástæðu til að láta hana liggja niðri. Ég get sagt hv. þm. Vestm. og öðrum, að ég á heilan lista yfir slælega skipaskoðun, sem átt hefir sér stað undanfarin ár. Þetta eru mjög sorgleg tilfelli, og er ég viss um, ef hv. þm: sæi þennan lista, þá myndi honum ekki verða um sel. En ég hefi ekki lagt þetta fram, af því ég taldi þess ekki þurfa.

Hv. þm. sagði, að lagasetningin ein gæti ekki komið í veg fyrir tortryggni. Það er rétt, en framkvæmdin eftir lagasetningunni getur komið í veg fyrir tortryggni. Og með því að leggja það fé til framkvæmda, sem við teljum minnst hægt að komast af með, en það eru 10 þús. kr., gæti komið í veg fyrir tortryggni.

Ég býst ekki við, að það beri árangur, þótt ég haldi fleiri ræður, og það verður að skeika að sköpuðu, hver skilningur hv. þm. er á því, að umbótanna sé þörf.