08.04.1938
Neðri deild: 44. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Ég ætla mér ekki við þessa umr. að fara mikið út í einstök atriði. sem fram hafa komið, vegna þess að ég tel réttara, að það bíði til 2. umr., þegar fyrir liggur álit þeirrar n., sem málið væntanlega verður sent til. En ég skal þó aðeins stuttlega drepa á örfá atriði.

Það hafa nú komið fram þær athugasemdir við þetta frv., sem ég hafði búizt við. Hv. þm. Snæf. lét þau orð falla, a. m. k. annað veifið, að hér sé um ófullkomna löggjöf að ræða. Hinsvegar segir hv. 5. þm. Reykv., að í þessu frv. felist mikill fjandskapur gegn verkalýðnum, og hv. 3. þm. Reykv. tekur undir það að nokkru leyti, þó að hann að vísu fari nokkuð vægara í sakirnar. Við þessu mátti vitanlega búast.

Annars var það svo um hv. þm. Snæf., að hann ræddi ekki langt mál og kom ekki mikið inn á einstök atriði, fremur en venja er við 1. umr., og á hans afstaða væntanlega eftir að koma gleggra fram í þeirri n., sem fær málið til meðferðar og hann á sæti í. — En ég vildi leyfa mér að leiðrétta eitt atriði, sem kom fram hjá honum, viðvíkjandi erlendri löggjöf um þetta efni. Hann minntist á það í sambandi við kaflann um sáttasemjara, að það væri óeðlilegt, að þeim skyldi ekki vera gefið vald til þess að banna vinnustöðvanir. Það er vitanlega ekki óeðlilegt, eins og frv. er byggt upp, vegna þess að í II kafla frv. eru ákvæði, sem að þessu lúta. þar sem eru almenn ákvæði um 7 daga frest. Og það er yfirleitt ekki siður að hafa hvorttveggja þau ákvæði í slíkum lögum. Í Noregi eru ekki ákvæði um slíkan frest, en hinsvegar hafa sáttasemjarar þetta vald. — Það var ekki heldur alveg rétt með farið hjá hv. þm., að sáttasemjarar í Danmörku hefðu vald til þess að banna vinnustöðvanir. Þeir hafa það ekki, heldur geta þeir sett það skilyrði fyrir því að leita um sættir, að aðiljar fresti vinnustöðvun allt að vikutíma. — Að öðru leyti ætla ég ekki að fara lengra út í ræðu hv. þm. Hans afstaða kemur væntanlega betur fram í n.

Hv. 3. þm. Reykv. gerði þær almennu aths., við þetta frv., að hér ætti ekki við samskonar löggjöf og erlendis, vegna þess að þar væri aðallega um iðnverkamenn að ræða, en hér á landi aðallega um verkamenn í lausavinnu. Það er náttúrlega rétt, að í ýmsum löndum er tiltölulega fleira íðnaðarfólk, en hinsvegar er iðnaðurinn hér mjög vaxandi atvinnugrein. Og ég vil benda á, að t. d. Norðmenn eru mikil sjómennsku- og farmannaþjóð, og hefir það þó ekki staðið í veginum fyrir því, að hægt væri að setja þar svipaða löggjöf sem þessa, og reyndar nokkuð strangari á ýmsan hátt.

Þá taldi hv. 3. þm. Reykv. það varhugavert að „apa“ allt eftir erlendum þjóðum við setningu nýrrar löggjafar. En ég verð nú að segja það, að mér finnst ekkert óeðlilegt, þó að við setningu laga eins og vinnulöggjafar sé fyrst og fremst tekið tillit til reynslu annara þjóða, þegar þess er gætt, að vinnudeilur eru alþjóðlegt fyrirbrigði, sem aðrar þjóðir yfirleitt á undan okkur hafa fengið reynslu i, hvernig rétt sé að taka á. — Það er heldur ekkert nýtt, að menn taki eftir öðrum þjóðum. Ég geri t. d. alveg ráð fyrir því, að hv. 3. þm. Reykv. hafi „apað“, svo að maður noti hans eigin orð, sósíalismann erlendis frá, og tel ég það þó ekki út af fyrir sig ljóð á hans stefnu.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði þá um það, að þessi löggjöf hefði verið of stuttan tíma á döfinni. Það er nú liðið á annað ár síðan sú mþn. var skipuð, sem sett var í þetta mái, og það hefir verið mikið rætt opinberlega hér á landi um nokkurra ára skeið, þannig að ómögulegt er að halda því fram, að þessi löggjöf komi neinum á óvart.

Hvað viðvíkur því, sem hv. þm. sagði um skipun félagsdóms,sem dæma á um réttarágreining samkvæmt frv. þessu, vil ég segja það, að ég get ekki séð, að hann sé óhagstætt skipaður fyrir verkalýðinn. Það er föst venja, þegar slíkur dómur er settur, að hann sé þannig byggður upp. að aðiljar hafi í honum jöfn ítök, og síðan af ríkisvaldinu eða einhverju hlutlausu valdi skipuð oddaaðstaðan. Og vitanlega skiptir það ekki neinu máli út frá sjónarmiði aðilja, hvort oddaaðstaðan er skipuð einum eða þremur mönnum. Það er hrein rökvilla að ætla sér að gera eitthvað mikið úr því.

Þá minntist hv. 3. þm. Reykv. og raunar hv. 5. þm. Reykv. líka á, að það væri nokkuð hart aðgöngu, að samkvæmt frv. mætti ganga að eignum verkalýðsfélaganna. Út af þessu vil ég nú í fyrsta lagi segja það, að vitanlega er þetta engin breyting frá því, sem nú er. Samkvæmt gildandi lögum eru eignir verkalýðsfélaganna vítanlega aðfararhæfar. Og í öðru lagi nær það engri átt að leggja svo og svo miklar sektir við því, að lög séu brotin, og undanskilja svo allar eignir og allt, sem sá hefir handa milli, sem viðurlögunum á að sæta, frá aðför. Það þýðir ekki að ætla mönnum að bera ábyrgð verka sinna og setja svo jafnframt ákvæði um það, að ekkert skuli vera fyrir hendi til þess að greiða þessa ábyrgð.

Hv. 5. þm. Reykv. kom nú viða við í sinni ræðu, og mun ég minnast á fátt eitt af því. Hann sagði m. a. nokkuð, sem mér þótti ákaflega undarlegt, og það var held ég nokkurnveginn orðrétt svo, að öllu, sem verkalýðurinn kæmi fram sér til hagsbóta, kæmi hann fram með valdi, en ekki með lagabókstaf. Ég held, að þetta sé nokkuð hæpið hjá hv. þm. A. m. k. get ég þá ekki skilið, hvers vegna verkalýðsflokkar víðsvegar um heim ættu að vera að keppa að því, að fá meirihluta á löggjafarþingum þjóðanna, ef útilokað væri, að þeir gætu komið nokkru fram nema með valdi.

Þá spurði þessi hv. þm. að því, hvort okkur framsóknarmönnum mundi ekki þykja hart, ef sett væru lög um samvinnufélögin í landinu. sem gengju á móti þeirra vilja. og hvort við mundum þá ekki beita öllum ráðum. til þess að sú löggjöf væri ekki framkvæmd? Ég svara því hiklaust neitandi. Við mundum ekki vilja beita öllum ráðum til þess. Löglegum ráðum mundum við vilja beita, en ekki öllum ráðum.

Þá var hv. 5. þm. Reykv. með ýmsar hugleiðingar um það, að undarlegt væri af Alþfl. að vera með í því að samþ. slíka löggjöf sem þessa, þar sem ganga mætti út frá því, að borgaraflokkarnir mundu aldrei þora að setja þá löggjöf, sem fulltrúar verkalýðsins væru á móti. Ég held, að hv. þm. segi hér nokkuð mikið, og svo mikið er víst, að borgaraflokkar ýmsra annara landa hafa verið það hugrakkir, að þeir hafa sett vinnulöggjöf, sem fulltrúar verkalýðsins voru á móti. T. d. var það svo í Svíþjóð 1928, þegar nokkur hluti vinnulöggjafarinnar var settur. Þá voru fulltrúar verkalýðsins þar á móti og var lýst yfir mótmælaverkfalli einn dag yfir allt landið, til þess að andmæla lögunum, en þau voru nú sett samt. Þetta var sanngjörn vinnulöggjöf og nú er svo komið, að verkamenn í Svíþjóð hafa séð að ekki var verið að ræna þá neinum rétti, heldur aðeins setja ákvæði, sem eðlileg voru frá sjónarmiði þjóðfélagsins.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum að sinni, því að ég mun. eins og ég sagði áðan, geyma mér að ræða frekar einstök atriði til 2. umr. — En ég vil aðeins benda þeim, sem á móti þessu frv. hafa haft frá sjónarmiði verkamanna, á það, að okkar nágrannaþjóðir á Norðurlöndum Danir, Svíar og Norðmenn, hafa um langt skeið haft vinnulöggjöf hjá sér. Og í öllum þessum löndum er verkamannahreyfingin mjög sterk, bæði sem verkamannahreyfing og sem pólitísk hreyfing, og í öllum þessum löndum fer hún að meira eða minna leyti með stjórn landsins. — Við það, að athuga þetta, held ég, að verkamenn muni yfirleitt sjá — ef þeir hafa þá ekki þegar séð það — að allt þetta, sem sagt hefir verið um það, að með löggjöf eins og þessari sé verið að leggja verkalýðinn í einhverskonar viðjar, sé ekki á neinum rökum reist.