30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Vilmundur Jónsson:

Það hefir fallið í minn hlut að hafa orð fyrir Alþfl. við þessa útvarpsumræðu, sem Alþfl. hefir óskað eftir, að fram færi um frv. það, sem fyrir liggur, varðandi stéttarfélög og vinnudeilur, ekki fyrir það, að ég sé til þess bezt kjörinn minna flokksmanna, nema miklu síður sé, heldur vegna þess, að svo vill til, að ég einn Alþfl.manna á sæti í þeirri n. þessarar hv. d., sem frv. hefir haft til meðferðar.

Þess er fyrst að geta, að Alþfl. hefir aldrei verið því út af fyrir sig andvigur, að sett yrðu sérstök lög, er ákvörðuðu réttarstöðu verkalýðssamtakanna í þjóðfélaginu, kvæðu á um afstöðu verkamanna og atvinnurekenda hvorra til annara og segðu til um, hvaða reglur skyldu gilda um gagnkvæm viðskipti þessara aðilja. Hitt er að vonum, að Alþfl. og verkalýðssamtökin, sem hann styðst við, hafa borið nokkurn kvíðboga fyrir því, að við setningu slíkrar löggjafar yrði réttar verkalýðsins illa gætt, ef hann yrði ekki alveg fyrir borð borinn, með eðlilegu tilliti til þess, hve afstaða hans til löggjafarvaldsins er veik, svo fáliðaður sem hann hefir verið og er enn á Alþ. Þess ótti hefir ekki orðið minni við það, að Íhaldið í landinu hefir lengi haft á prjónunum og hvað eftir annað sýnt á Alþ. frv. til vinnulöggjafar, sem ekkert hafa verið annað — enda ekki ætlað að vera annað — en kúgunartæki íhaldssamra og purkunarlausra atvinnurekenda á verkalýðinn og samtök hans. Og þó nokkuð hafi á yfirborðinn dregið úr þessari fjandsamlegu sókn Íhaldsins nú upp á siðkastið, eftir því sem af því hefir dregið að öðru leyti, er enn glöggt af þeim tillögum Sjálfstfl. hér að lútandi, sem nú liggja fyrir hv. Alþ., hvað þessir herrar í raun og veru vilja, og hvað þeir myndu gera; ef þeir fengju aðstöðu til. Má enginn láta blekkjast af hræsnisfullu flaðri þeirra utan í frv. það, sem hér liggur fyrir, og þeirri tæpitungu og gælum, sem þeim þóknast að gera við það. Það eru góðgerðir, bornar á borð fyrir veizlugesti Sjálfstfl., kommúnistana og hv. 3. þm. Reykv., HV, sem ég vænti, að þeir þrifist af í réttu hlutfalli við þau heilindi, sem krásirnar hafa verið hitaðar við. Enn eru tili. Sjálfstfl. svo, að í þeim felst stórkostleg árás á félagslegar sjálfsbjargir verkalýðsstéttarinnar í landinu, nema löggjöfin ætti að framkvæmast af framkvæmdarvaldi, sem verkalýðnum væri vinveittara, og hrykki þó ekki til, auk þess sem engu slíku er unnt að gera skóna á þessu landi, og er þar ólíku saman að jafna og því, sem að þessu leyti á sér stað með bræðraþjóðum vorum á Norðurlöndum. Er nauðsynlegt að hafa þetta fast í huga: hina styrku stoð, sem verklýður annara Norðurlanda á í landstjórnum og öðru framkvæmdarvaldi, þegar samanburður er gerður á vinnulöggjöf þeirri, sem gildir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og umborin er af verkalýð þessara landa, og hvað vera mundi viðunandi og vorum verkalýð þolandi vinnulöggjöf, eins og allt er í pottinn búið hér á landi. Við þetta hefir það bætzt, að stundum og of oft hafa heyrzt frá Framsfl. þær raddir varðandi þessa lagasetningu,sem engu góðu hafa lofað. Tortryggni og varygð Alþfl. og verkalýðsstéttarinnar hefir því sannarlega verið næsta eðlileg. Um hitt hefir ekki ráðið nein hjátrú, að þó að vinnulöggjöf sé að vísu viðkvæmara mál verkalýðnum og varasamari en flest önnur löggjöf, þá gildir hið sama um hana sem um hverja aðra löggjöf, að eins og hana má gera þannig úr garði, að hún miði verkalýðnum til skaðsemda einna, getur hún ekki aðeins verið honum skaðlaus, heldur gert honum drjúgt gagn með því bæði að tryggja þau réttindi honum til handa, er þegar hafa náðst og fengið á sig nokkra hefð, og auka við þau réttindi.

Afstaða Alþfl. til vinnulöggjafar er í stuttu máli sú hyggilega og hverju barni skiljanlega afstaða, að hann er andvígur þeirri vinnulöggjöf, sem miðar verkalýðnum til skaða, sviptir hann réttindum eða gerir aðstöðu hans á einn eða annan hátt veikari og erfiðari en áður, lætur sér hinsvegar fátt og ekki óðslega um hina, sem er meinlaus og gagnslaus, en er aftur eindregið fylgjandi þeirri vinnulöggjöf, sem veitir verkalýðnum aukinn rétt og öruggari aðstöðu í baráttunni fyrir tilveru sinni og því þjóðfélagslega hlutverki, sem hann er kallaður til að inna af hendi. Alþfl. hefir og þá afstöðu til þessa máls eins og annara mála, og svo á Alþ. sem annarsstaðar, að það hvarflar ekki að honum að leggja í neina keppni um það, hver hæst getur hrópað og hóflausastar kröfur gert, án tillits til þess, hvort nokkru, engu eða þveröfugu verður til leiðar komið með þeim látum. Við erum hér 7 af 49 þm. og geta okkar að sjálfsögðu takmörkuð til áhrifa, en hún er líka takmörkuð í samkeppninni um hávaðann við vini okkar kommúnistana og bandamenn þeirra, því að við höfum gagnstætt þeim það hlutskipti að berjast hér ábyrgri baráttu fyrir alþýðu þessa lands, hinni þrotlaust, seigu, æfintýralausu baráttu, sem Jón heitinn Baldvinsson vissi og sýndi, hvert gildi hafði, og oft er miklu þýðingarmeiri og farsælli, þó að minna láti yfir sér, í hyggilegri vörn gegn ofurefli, sem að svo stöddu er engin leið að vinna fullan sigur á, en í yfirlætisfullri, fíflalegri og meiningarlausri sókn, sem aðeins getur gert verra úr illu og er, því miður, stundum beinlínis ætlað að gera það. Hefir þetta ekki hvað sízt sannazt á viðskiptum Alþfl. við aðra flokka um vinnulöggjafarmálið frá fyrstu tíð og til þessa dags.

Þessi afstaða Alþfl. til vinnulöggjafar var skýrt mörkuð á 13. þingi Alþýðusambands Íslands. sem háð var haustið 1936. Þá var hinn 9. nóv. samþ. ályktun um það mál eftir till. hv. 3. þm. Reykv., HV, og 9 annara, sem allir munu hafa verið fulltrúar verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Ályktunin var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, og mun hafa verið samþ. í einu hljóði:

„13. þing Alþýðusambands Íslands ályktar að vera mótfallið hverskonar nýrri vinnulöggjöf, nema því aðeins, að með henni fáist full lagaviðurkenning fyrir rétti Alþýðusambands Íslands og sambandsfélaga þess til verkfalla, auðveld og skjót málsókn vegna samningsrofa af hálfu atvinnurekenda og að öðru leyti verulega aukin réttindi fyrir alþýðusamtökin, frá því sem nú er. Telur þingið heppilegast, að Alþ. láti mþn., þar sem Alþýðusambandið hafi fulltrúa. athuga málið, og leitað verði að nýju álits Alþýðusambandsins áður en málið yrði útkljáð, enda yrði engin löggjöf sett um þetta mál, áður en aðalatriði hennar yrðu lögð fyrir sambandsfélögin og hefðu náð samþykki Alþýðusambandsins. Þingið er sérstaklega andvigt lögákveðnum gerðardómum um kaupgjald og önnur vinnukjör, sem settir kynnu að verða án samþykkis alþýðusamtakanna, en telur hinsvegar ákveðna gerðardóma um samningsrof vera heppilegri en hina venjulegu dómstóla, enda yrði þóknun gerðardómsins greidd af því opinbera“.

Ég bið hv. þdm. og aðra áheyrendur að athuga vel og minnast þess síðar, að það er hv. 3. þm. Reykv., HV. sem flytur þessa till. ásamt fulltrúum verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík.

Svo sem annaðhvort var, með tilliti til þess, hver var nauturinn að þessari ályktun, hefir undirbúningi vinnulöggjafarinnar af hálfu Alþfl. verið hagað samkvæmt fyrirmælum hennar og þannig, að í engu hefir verið gert minna en um var beðið, og þar sem vikið hefir verið frá beinum fyrirmælum ályktunarinnar, hefir stórum betur verið að unnið en til var ætlazt. Þegar hinn l5. des. sama ár, 1936, skipaði ráðh. Alþfl., hv. þm. Seyðf., HG, 4 manna n. til að gera till. um löggjöf um réttindi verkalýðssamtakanna, afstöðu þeirra til atvinnurekenda og meðferð deilumála á milli þessara aðilja. Í ályktun hv. 3. þm. Reykv., HV, hafði verið farið fram á mþn., þar sem Alþfl. hefði ráðið aðeins einu sæti af 5 og n. að öðru leyti orðið óvingjarnlegar skipuð í garð verkalýðssamtakanna en hin stjórnskipaða n., sem í voru 2 alþýðuflokksmenn, Guðmundur Í. Guðmundsson lögfr. og Sigurjón Ólafsson alþm., ásamt 2 framsóknarflokksmönnum, Gísla Guðmundssyni alþm. og Ragnari Ólafssyni lögfr., en þeir eru báðir einhverjir hinir tillögubeztu menn sinna flokksmanna í garð verkamanna og samtaka þeirra, að ýmsum öðrum ólöstuðum. Gera má og fastlega ráð fyrir því, að þáltill. um mþn. til þessara starfa hefði afmarkað starfsvið n. með minna tilliti til réttinda verkalýðssamtakanna en gert var í ráðh. bréfinu, sem með öðru hefði getað haft miður heppileg áhrif á niðurstöðu n. frá sjónarmiði verkamanna. En um niðurstöðu n., þ. e. lagafrv. það, sem hér liggur fyrir, er það að segja, að það uppfyllir hverja einustu kröfu, sem hv. 3. þm. Reykv., HV, á sínum tíma þóknaðist að fara fram á, að Alþýðusambandsþingið gerði, og það samþ. að gera, til vinnulöggjafar. 11íeð frv. er Alþýðusambandi Íslands og sambandsfélögum þess, eins og fram á var farið, tryggð full lagaviðurkenning fyrir rétti til verkfalla, auðveld og skjót málsókn vegna samningsrofa af hálfu atvinnurekenda, og að öðru leyti verulega aukin réttindi fyrir alþýðusamtökin, frá því sem nú er. Enga gerðardóma um kaupgjald og önnur vinnukjör á að setja upp, en hinsvegar eins og um var beðið, sérstakan dómstói um samningsrof, sem að öllu leyti á að vera á kostnað hins opinbera. Frv. hefir verið borið undir sambandsfélögin, og Alþýðusambandið lagt samþykki sitt á það. Á nú ekkert að vera til fyrirstöðu eftir þeirri linn, sem þing Alþýðusambandsins hefir dregið að frumkvæði hv. 3. þm. Reykv., HV, að alþýðuflokksmenn hér á hv. Alþ. fylgi frv. og hjálpi til að gera það að l., sem þeir og munu gera. Að þessi hv. þm., HV, sjálfur, skerist þar úr leik, þarf engan að undra. Það er talandi tákn þess, sem nú er vitað, að hann er hættur að vera alþýðuflokksmaður.

Undirtektir verkalýðsfélaganna um vinnulöggjafarfrv. munu bera það með sér, að undantekningarlaust séu félögin út af fyrir sig því fylgjandi, að vinnulöggjöf sé sett, eða hafi a. m. k. ekkert á móti því. 30 sambandsfélög tjá sig beinlinis fylgjandi frv. því, sem fyrir liggur, þó að mörg þeirra að sjálfsögðu óski breytinga á því. ef fáanlegar væru, lá félög hafa tjáð sig andvíg frv. eða selja ófrávíkjanleg skilyrði fyrir fylgd sinni við það. Mjög mörg félög, og ekki færri en 49, hafa enga umsögn sent, og þar á meðal sum hin stærstu félög. og verður að telja þau hlutlaus, þó að raunar sé kunnugt um ýms fjölmenn félög þeirra á meðal, sem með vissu fylgja frv. Mikið er af því látið af þeim, sem telja sig andstæðinga vinnulöggjafarinnar, að meiri hluti hins skipulagsbundna verkalýðs teljist til þeirra félaga, sem tjáð hafa sig andvíg frv. En þó að svo væri, sem mun vera vafasamt, segir það ekki neitt, þar sem ekkert áreiðanlegt liggur fyrir um þátttökuna í atkvgr. né um tölu atkv. með eða móti innan hvers félags. Mestu munar að sjálfsögðu um hið fjölmennasta félag, verkalýðsfélagið Dagsbrún í Reykjavík, sem talið er í andstöðuhópnum. En vitað er, að í því 1700 manna félagi, undir stjórn hv. 3. þm. Reykv., HV. voru ein 200 atkv. greidd gegn frv. Eftirtektarvert er, að þar var málið ekki borið undir fulltrúaráð, sem að sjálfsögðu var miklu bærara að taka afstöðu til jafnþýðingarmikils máls fyrir félagsins hönd en svo litt sóttur almennur skyndifundur, né heldur var stjórnin fáanleg til að verða við kröfu um almenna atkvgr. meðal allra félagsmanna, og má fara nærri um, hvað valdið hefir.

Sannleikurinn um þetta mál er sá, að það, að því hefir verið komið til leiðar. að nokkur verkalýðsfélög teljast andvig vinnulöggjafarfrv. því, sem fyrir liggur, á ekki nema að litlu leyti, ef að nokkru leyti, rót sína að rekja til raunverulegrar andstöðu gegn þessari lagasetningu, heldur til þess kommúnistíska fylliríis, sem hv. 3. þm. Revkv. hefir nú verið á um hríð ásamt fyrrverandi stórtemplar, Sigfúsi Sigurhjartarsyni, og nokkrum öðrum annars bindindissömum mönnum. Var þó raunar alltaf við því að búast, að hinir gömlu kommúnistar og aðrir andstæðingar A1þfl., þar á meðal íhaldsmenn og nazistar innan verkalýðsfélaganna, mundu rísa gegn hverri þeirri vinnulöggjöf er Alþfl. yrði riðinn við, tortryggja hana og afflytja og vinna sina sigra með þeim skyndiáhlaupum og uppþotum, sem því liði er svo lagið. Þetta sá hv. 3. þm. Reykv., HV., ljóslega fyrir sér, er hann leit á sig í anda berjast fyrir þessu vinnulöggjafarfrv., sem hann nú hefir misst aðstöðu til að geta gert og þykir miklu verra en hann lætur á bera. Því að okkar á milli sagt — og er ekki nærgætið að hafa það hátt —, hefir hv. 3. þm. Reykv., HV. fram að þessum síðustu og verstu tímum verið okkar allra óþolinmóðastur að fá nokkrurn enda bundinn á hina yfirvofandi lagasetningu um vinnudeilur, sjálfsagt fyrir það, að hann hefir þar manna mest í eldinum s!aðið. Lá við borð á næstsíðasta Alþ., að hann í nokkru fumi, sem honum hættir við, gerðist sjálfur flm. að vinnulöggjafarfrv. því hinu sama, sem hér liggur fyrir, og þó að ýmsu leyti miður úr garði gerðu með tilliti til verkamanna, enda verr undirbúið og hugað. Í samræmi við þetta er það, að hv. 3. þm. Reykv., HV, flutti ekki till. þá til ályktunar um vinnulöggjöf, er ég áðan gat um, upphaflega í því formi, er síðar náði samþykki alþýðusambandsþingsins, heldur lagði hann til og barðist mjög fyrir; að þm. Alþfl. og Alþýðusambandsstjórn yrði gefið fullt og ótakmarkað umboð til að afgreiða vinnulöggjöfina eins og þm. og sambandsstjórn teldu heppilegast — án þess að málið yrði borið undir verkalýðsfélögin. Heimildir að þessu eru óyggjandi. Hefir nú verið gerð leit að upphaflegu till. í skjölum Alþýðusambandsins. Má vel vera, að hún sé þegar fundin, og verður hún þá vafalaust hirt mönnum til fróðleiks um hinn pólitíska hráskinnaleik þessa hv. þm.

Til þess að geta dæmt af skynsamlegu viti um gildi þeirrar vinnulöggjafar. sem í ráði er að setja með samþykki þessa frv., verða menn fyrst af öllu að gera sér ljóst, hver sé réttarstaða verkalýðssamtakanna nú, að slíkri löggjöf ósettri. Sumir tala svo og láta sem hér sé um þau réttindi að ræða, að róttækrar löggjafar þurfi við, ef um eigi að bæta, og sé naumast annars að vænta af vinnulöggjöf yfirleitt en að rýrð verði réttindin. Þetta er alls fjarri öllum sanni og skrumlausum veruleika.

Réttaröryggi verkalýðssamtakanna er nú hið valtasta sem hugsazt getur, og má segja, að þau eigi sér engan tryggðan rétt.

Hátt er látið um, að félagsrétturinn sé þó tryggður með ákvæði stjórnarskárinnar, um að stofna megi félög í hverskonar löglegum tilgangi. Satt er það, að verkalýðsfélög eru félög, en hver trygging er fyrir því, að dómurum þóknist alltaf að lita svo á, að tilgangur verkalýðsfélaganna sé löglegur tilgangur? Eru ekki líka í stjórnarskránni ákvæði um hinn heilaga eignarrétt kapítalistanna og enn helgara athafnafrelsi þeirra, að ógleymdu hina allra helgasta, sjálfu þjóðskipulaginu? Og getur ekki dómurum, hvenær sem er, þóknast að líta svo á, að öllu þessu sé hætta búin af starfsemi verkalýðsfélaga? Þrátt fyrir samhljóða ákvæði um félagsréttinn í hinni dönsku stjórnarskrá, dæmdi hæstiréttur Dana verkalýðsfélag ólöglegt árið 1873, og getur slíkt viðar komið fyrir, og ekki sízt í landi þar sem skammt er síðan að hæstaréttardómari lét hafa eftir sér — hæstv. forseti fyrirgefi dómaranum orðbragðið — að skera ætti hausinn af öllum sósíalistum, og hefir til þessa verið áður vitnað hér á Alþ. Verkalýðsfélög hafa verið og eru enn unnvörpum uppleyst víða um lönd þrátt fyrir tvímælalausan almennan félagsrétt í stjórnarskrám hlutaðeigandi landa. Kann ég að upplýsa, að nú liggur fyrir íslenzkum dómstólum krafa um að uppleysa eitt verkalýðsfélag landsins sem þjóðhættulegan félagsskap, og á þetta sér stað í mínu eigin annars ágæta kjördæmi. Má marka af því, að ekki þarf að vænta, að kallað sé á aðstoð hinna íslenzku dómstóla í þessum efnum.

Verkalýðsfélögin, meðlimir þeirra, svo og hverjir aðrir verkamenn, standa nú berskjaldaðir gegn árásum atvinnurekenda á félagsréttinn. Atvinnurekendur geta með hótunum og hverskonar þvingunarráðstöfunum kúgað menn til að segja sig úr félögum, sem þeir eru þegar gengnir í. Og þetta er ekki aðeins unnt að gera, heldur er þetta gert. Er þess skammt að minnast, að „stjórnarskrárverndað“ verkalýðsfélag varð af þessum sökum að starfa árum saman að nokkru leyti sem leynifélag, og verkamenn þekki ég enn á miðjum aldri, sem ofsóttir hafa verið, sveltir og hundeltir um þvert og endilangt landið fyrir þátttöku sína í verkalýðsfélagskap. Eru þó aðrir þessu vafalaust miklu kunnugri en ég, og kynni ég helzt dæmi að greina úr minni persónulegu reynslu frá þrælatökum atvinnurekenda í sambandi við stjórnmálaafskipti og kosningar. Við þetta bætist, að atvinnurekendur geta skipulagt þvílíkar ofsóknir sínar á félagsréttindi verkamanna með því að stofna við atvinnufyrirtæki sín eigin verkalýðsfélög með sömu réttarstöðu og félög verkamannanna sjálfra, og herleitt fólk sitt í slíkan verkalýðsfjandsamlegan félagskap.

Samningsaðild verkalýðsfélaga nýtur engrar eiginlegrar réttarverndar, ekki einu sinni fyrir hönd sinna eigin meðlima, hvað þá fyrir verkamenn yfirleitt. Ef meðlimur í verkalýðsfélagi semur við atvinnurekanda um önnur kjör en greinir í heildarsamningi verkalýðsfélagsins, gildir samningur hins einstaka verkamanns. Þarf ekki að eyða orðum að því að lýsa, hver hætta er á, í þeirri þröng, sem nú er á atvinnumarkaðinum, að verkamenn séu neyddir til að semja á þennan hátt af sér. Er það og vafalaust mikið iðkað. Af máli, sem nú er fyrir rétti hér í Reykjavík, má kynnast þeim forretningsgangi. Verkalýðsfélögin hafa enga lögsögu yfir meðlimum sinum og mega heita varnarlaus fyrir brotum af þeirra hendi, sem félagsheildinni, verkalýðsstéttinni, og þegar lengra er litið, raunar hverjum einstökum verkamanni kemur í koll.

Verkalýðsfélög hafa nú enga aðstöðu til að fá þess gætt á vinnustöðvunum, að samningar við þau séu haldnir, og eru slíkir samningar vitanlega oft og víða þverbrotnir í skjóli þessa eftirlitsleysis.

Verkfallsrétturinn er á engan hátt lögverndaður. Allur svokallaður „réttur“ til verkfalla er fólginn í því. að þau eru liðin af þeim, sem valdið hafa í þjóðfélaginn - á meðan það verður —, en ekki því, að þau séu leyfð. Með verkfallsbrjótum, jafnvel meðlimum þess verklýðsfélags, sem í verkfalli á. má gera þennan „verkfallsrétt“ að engu. Fyrir venjulegar aðgerðir verkalýðsfélaga til að hindra verkfallsbrot má samkvæmt hinum íslenzku hegningarl. dæma menn til þungra refsinga og jafnvel til betrunarhúsvinnu.

Þess eru og mýmörg dæmi hér á landi, að verkalýðsfélög hafa verið ofsótt fyrir vinnustöðvanir og elt með kröfum um skaðabætur. enda málssóknum beitt þeim til framdráttar. Hefir sum félög orðið að uppleysa sem gjaldþrota fyrirtæki af þessum sökum. Jafnvel einstakir meðlimir verkalýðsfélaga eru ekki óhultir fyrir kröfum um ábyrgðir og skaðabætur í tilefni af verkföllum, sem félag þeirra hefir staðið að, og er a. m. k. eitt slíkt mál nú fyrir dómstólunum.

Allur ágreiningur milli verkamanna og atvinnurekenda, sem fyrir dómstóla þarf að koma, verður að fara til hinna venjulegu dómstóla. nema samið sé um sérstaka gerðardóma. Allur þessi réttargangur er seinn í vöfum og svo dýr, að fátækir verkamenn og félög þeirra verða oftar en hitt að vera án þess að geta leitað réttar sins. Varla fer fram sá gerðardómur, að hann kosti undir 500–1000 kr., og ef mál á að fara fyrir alla rétti, getur kostnaðurinn numið mörgum þús. kr. Standa verkalýðsfélögin hér í hallri afstöðu gagnvart atvinnurekendum. sem mínna eru háðir skildingunum, þegar þeir eiga sinn rétt að sækja.

Eftir þetta stutta yfirlit um réttarstöðu eða öllu heldur réttleysisstöðu verkalýðssamtakanna í þjóðfélaginu liggur fyrir að gera sér grein fyrir því, hver réttarstaðan verður eftir að frv. þetta um stéttarfélög og vinnudeilur er orðið að l. Er horfið frá hinu betra til hins verra, frá hinu öruggara til meira öryggisleysis, eða er þessu öfugt farið?

Það er fyrst að telja, að réttur verkamanna til að stofna verkalýðsfélög og til að vera í verkalýðsfélögum er tvímælalaust viðurkenndur og lögverndaður með 1. gr. frv. Hér á eftir verða verkalýðsfélögin ekki aðeins félög, heldur félög, sem hafa löglegan tilgang. Engar hundakúnstir lögfræðinga í dómarasæti geta komizt í kring um það, þó að aldrei nema það kunni að vera samkv. þeirra persónulegu réttarvitund, að alla sósialista eigi að gera höfði styttri. Árásir atvinnurekenda á einstaka verkamenn fyrir afskipti þeirra af verkalýðsmálum, og þar á meðal vinnudeilum og verkföllum, svo og stjórnmálum, eru lögbannaðar (4. gr.). Sprengifélög atvinnurekenda eru gerð óvirk og þýðingarlaus með því ákvæði 2. gr., að félagssvæði verkalýðsfélaga megi ekki vera minna en eitt sveitarfélag. Þá eru og verkalýðsfélög vernduð gegn liðhlaupi einstakra meðlima þeirra með því ákvæði 3. gr., að hver einstakur meðlimur í verkalýðsfélagi sé bundinn við löglega gerðar samþykktir og samninga félagsins og stéttarsambands þess, sem það kann að vera í. Samningsréttur verkalýðsfélaga er viðurkenndur, ekki aðeins fyrir hönd meðlima félagsins, heldur alla verkamenn sömu starfsgreinar (5. gr., sbr. 7. gr.). Þessi réttur er lögverndaður gegn árásum af hálfu verkamanna með ákvæðum 7. gr. um, að ógildir séu samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur, að svo miklu leyti sem þeir fara í bága við heildarsamning hlutaðeigandi verkalýðsfélags, svo og gegn árásum af hálfu atvinnurekanda með ákvæðum 10.–12 gr., sem tryggja verkalýðsfélögum sérstaka trúnaðarmenn á vinnustöðvum, því til eftirlits, að samningar séu haldnir.

Verkfallsrétturinn er viðurkenndur og lögvarinn með ákvæðum 14.–18. gr. frv., og samkvæmt þeim reglum, sem að vísu er enginn vandi að heimta frjálslegri, ef ekki þyrfti annars við en að krefjast, en verkalýðsfélögunum er tiltölulega auðvelt að fylgja, langoftast beinlinis farsælt fyrir þau sjálf að víkja þar í engu frá, en getur, ef forsjálni er gætt, sjaldan orðið þeim til nokkurs trafala né annars miska. Eitt þýðingarmesta atriði frv. til lögverndar verkföllum eru ákvæði 18. gr. um óhelgi verkfallsbrjóta, þó að víðtækari mætti að sjálfsögðu vera.

Í stað hinna almennu dýru dómstóla verður settur upp sérstakur dómstóll um deilumál, sem upp kunna að koma í sambandi við vinnudeilur, önnur en um kaup og kjör, sem siður en áður heyra undir dómstóla. Þessi sérstaki dómstóll verður verkalýðsfélögunum algerlega að kostnaðarlausu, þar sem meðal annars engin réttargjöld verða greidd. Með þessari tilhögun er tryggð skjót afgreiðsla mála, sem er mikilsvert atriði. Og þó að endalaust megi deila um skipun slíks dóms, verður ekki um villzt, að því fer fjarri, að skipt sé um til hins verra fyrir verkalýðsfélögin, að ákvæðunum um kostnaðinn slepptum, sem þeim er mjög í vil, að sérstakur dómstóll, sem þau fá þó að skipa einn mann í, fjalli um þessi mál, frá því að láta þau heyra undir hina almennu dómstóla.

Þá má ekki gleyma því, að allar reglur varðandi verkföll, fyrirvarar, aukinn meiri hluti við atkvgr. og annað, gilda jöfnum höndum vinnustöðvanir atvinnurekenda, verkbönn þeirra eða „lockouts“, og þó að ekki sé mikið upp úr því leggjandi yfirleitt, vegna þess hve atvinnurekendum er auðvelt að komast í kring um þau ákvæði, getur verkamönnum í einstökum þýðingarmiklum tilfellum orðið að því drjúgur styrkur, en aldrei skaði.

Það verður vissulega aldrei of oft tekið fram, og úr því mun ég manna sízt lítið gera, að afstaða verkamanna gagnvart framkvæmd þessarara löggjafar er ólíkt veikari en afstaða atvinnurekenda. Það er einkenni hins kapitalistíska þjóðfélags, að verkalýðurinn, öll alþýða, stendur höllum fæti gagnvart fámennri yfirstétt stóratvinnurekenda, einnig að því er kemur til framkvæmdar laga og alls ríkisvalds. Þess vegna hefir sósíalismi orðið til. Verkalýðurinn verður því vissulega að gera fyrir afföllum á öllum lögum honum til réttarbóta — einnig þessum væntanlegu l. En þó að aldrei nema gert sé ríflega fyrir slíkum afföllum, verður ekki komizt framhjá því, að svo höllum fæti sem verkalýðurinn stendur í baráttu sinni fyrir bættum kjörum, eftir að þessi l. verða sett, stóð hann enn hallari áður.

Niðurstaðan af þessum samanburði verður sú, hvernig sem menn velta málinu fyrir sér, að réttarstaða verkalýðssamtakanna í þjóðfélaginu verður í engu verri eftir að þessi löggjöf hefir verið sett, en í mörgum þýðingarmiklum atriðum stórum betri og öruggari en ef engin slik l. yrðu sett. En þó að sumir — og þeir eru til hér nærri okkur — hafi þá afstöðu til laga og réttar í sambandi við verkalýðssamtök, að þau eigi um fram alla muni að berjast sinni baráttu utan við öll lög og allan rétt, og helzt í trássi við hvorttveggja — því meira af því, því befra —, þá liggur málið, sem kunnugt er, ekki þannig fyrir. Vinnulöggjöf hlaut að verða sett á þessu þingi - það varð ekki um flúið og ber öllum, sem tala vilja máli verkalýðssamtakanna, hvaða afstöðu sem þeir annars hafa til vinnulöggjafar, að líta á málið frá því sjónarmiði. Vinnulöggjöfinni, sem hér er í ráði, að sett verði, er vafalaust í mörgu ábótavant með tilliti til hagsmuna verkalýðsins í landinu, og er vandalaust að benda á fjölmörg atriði, sem betur mættu fara frá hans sjónarmiði. Furðar mig raunar á, hvað þeir hv. þm., sem eftir því hafa leitað, hafa reynzt litið hugkvæmir í því sambandi. En er þessi væntanlega óumflýjanlega vinnulöggjöf, eftir atvikum svo sanngjörn í garð verkalýðsins, sem við er hægt að búast, þegar gætt er flokkaskiptingarinnar hér á Alþ„ afstöðu hinna stóru flokka til þessa sérstaka máls, og hinnar veiku afstöðu til hins skipulagsbundna verkalýðs til áhrifa á hv. Alþ., svo fámennu liði, sem hann hefir þar á að skipa? Ef þessu er svarað á annan veg en skýrlega játandi er það blygðunarlausara en svo, að það megi aðeins heita ósanngjarnt.

Er þar skemmst af að segja, að hvergi í veröldinni hefir tekizt að fá lögfesta jafnfrjálslega og mannúðlega vinnulöggjöf — og ekki í námunda við það. Þegar þessi löggjöf verður kunn úti nm lönd, mun hún bera loflegt vitni — ef til vill allt of loflegt vitni — hinni mannúðlegu. frjálslyndu, alþýðlegu menningu Íslendinga, sem raunar á margt lof skilið, enda alþýðumenning vor eina menningin, sem vér höfum af að státa. Persónulega er ég þó þeirrar skoðunar, að það sé hin rannhæfa pólitík Alþfl., sem hér hefir verið puntað upp á hina loflegu menningu þjóðarinnar, og nokkru betur en efni standa enn til.

Til þess að finna orðum mínum stað um tiltölulegt frjálslyndi þessarar vinnulöggjafar er fróðlegt að bera aðalatriði hennar saman við sambærilega löggjöf annarsstaðar, og þá sérstaklega við vinnulöggjöf Norðurlandanna þriggja, Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar, en þar er lýðræði nú í mestum heiðri haft og öllum verkalýð tryggð betri kjör og styrkari aðstaða en nokkursstaðar annarsstaðar, enda öllum löndunum stjórnað um langt árabil af alþýðuflokksstjórnum, með öruggu fylgi alls verkalýðs. Jafnvel ekki í þessum löndum ekki í einu einasta þeirra — hefir tekizt að fá setta vinnulöggjöf, er nálgist þá vinnulöggjöf að frjálslyndi í garð verkalýðsins, er hér verður nú sett, en að vísu hefir verkalýður þessara landa, svo vel skipulagður sem hann er, og svo öflug ítök, sem hann á í stjórnum og framkvæmdarvaldinu, hver í sínu landi, ekki sömu þörf fyrir frjálslynda vinnulöggjöf og verkalýður þessa lands, sem að því leyti hefir margfalt veikari aðstöðuna. Og er hér bersýnilega sjálfhelda. Því veikari faglega og pólitíska aðstöðu sem verkalýðurinn hefir, því meiri þörf er honum' á frjálslyndri vinnulöggjöf, en jafnframt á hann þá erfiðara með að koma henni á. Þessa sjálfheldu hefir Alþfl. nú að nokkru leyti tekizt að rjúfa fyrir hinn íslenzka verkalýð með afskiptum sínum af þessari væntanlegu lagasetningu.

I. kafli frv., um réttindi verkalýðsfélaganna, á sér engar fyrirmyndir í löggjöf annara landa, ekki heldur á Norðurlöndum. Hæstiréttur Dana getur þess vegna endurtekið dóm sinn frá 1873 og uppleyst verkalýðsfélög sem hættuleg þjóðskipulaginu, að l. hefir að því leyti ekkert verið breytt á þessu tímabili. Hvergi, og ekki heldur á Norðurlöndum, eru verkamenn verndaðir með lögum gegn árásum atvinnurekenda á samtök þeirra, hvergi lögfest réttindi til handa verkalýðsfélögum til að skipa trúnaðarmenn til eftirlits á vinnustöðvunum, hvergi í l. verndaður samningsréttur verkalýðsfélaga í líkingu við ákvæði 7. gr. þessa frv., hvergi neitt bann við starfsemi neinskonar verkfallsbrjóta. Norsku alþýðusamtökin reyndu samfleytt í 17 eða 18 ár frá 1898–1915, að fá sett í l. ákvæði, að efni til eins og ákvæði 4. gr. þessa frv., þ. e. um að banna atvinnurekendum að ofsækja verkamenn fyrir stjórnmálaskoðanir þeirra og þátttöku í verkalýðsfélagsskap. Sú krafa var jafnharðan kveðin niður með gagnkröfu um það; sem atvinnurekendunum þóknaðist að kalla pólitískt hlutleysi af samtökum verkamanna. Ofsóknum á beztu menn alþýðusamtakanna í Noregi linnti ekki árum saman, og þó varð engri vörn við komið. Þeir voru hver af öðrum flæmdir úr landi og flúðu til Ameríku. Sumum þessara landflóttamanna auðnaðist að heilsa aftur upp á „gamla Noreg“ og þakka eftirminnilega fyrir sig síðast. Í þeirra hópi eru núverandi stjórnarforseti Norðmanna, Nygaardsvold, og eftir því, sem ég veit bezt, Madsen verzlunarmálaráðherra, auk annara ágætra forustumanna norsku Alþýðuflokksins. Í hinni alkunnu septembersætt, sem verkamenn í Danmörku neyddust til að undirgangast rétt fyrir aldamótin síðustu og enn er í gildi, urðu þeir beinlínis að skuldbinda sig til að vernda rétt atvinnurekendanna til að mega vera einráðir um ráðningar og uppsagnir verkamanna sinna, en danskir félagsmenn segja, að með því sé raunar á þá lagt að aðstoða atvinnurekendur við að hrekja menn frá vinnu vegna skoðana þeirra og hlynna að verkfallsbrjótum. Síðan 1920, eða í 18 ár, hefir verið uppi krafa af hálfu verkalýðsfélaganna í Danmörku um, að félagsbundnir verkamenn mættu neita að aðstoða vinnuveitendur sína við verkfallsbrot, en við það hefir alls ekki verið komandi. Hvergi á Norðurlöndum hefir verkamönnum dottið í hug að hreyfa till. um vernd gegn verkfallsbrjótum í áttina jafnróttækum og þeim, sem eru í 18. gr. þessa frv. Ég hefi átt kost á að sjá umsögn norska atvinnurekendafélagsins um þetta frv., og verulega orðlausir verða þeir herrar ekki fyrr en þeir koma að 18. gr. Þá segja þeir aðeins: „Denne paragraf bör utgä“.

Hér verða samkvæmt hinni væntanlegu vinnulöggjöf öll verkföll lögmæt, ef þau eru samþ. af meiri hl. með leynilegri atkvgr., er stendur í 24 klst. Í Danmörku þarf til þess, skv. septembersættinni, 3/4 greiddra atkv., þ. e. rúmur 1/4 fundarmanna ræður í þessum efnum fyrir allt að 3/4 þeirra, og þó að allir félagsmenn séu viðstaddir. Þegar um er að ræða þau verkföll, sem varða kaup og kjör, þ. e. sjálfa upphæðina og þau fríðindi, sem eru kaupsigildi — og er þar aðeins átt við verkföll, sem koma fyrir í sambandi við það, að samningur gengur úr gildi að liðnum samningstíma eða fyrir uppsögn eða ef kauptaxtar falla úr gildi eða þeim er breytt — verður fyrirvarinn hér 7 dagar, en verkföll af öðru tilefni, sem verkamenn kunna að gera til þess að rétta hlut sinn að öðru leyti, má gera fyrirvaralaust sem skyndiverkföll. Jafnvel hinn almennt tilskylda 24 tíma frest til atkvgr. má með nokkurri fyrirhyggju gera hér að engu með því að fela hæfilega fjölmennu trúnaðarmannaráði, skv. heimild c-liðs 15. gr., að gera út um þau verkföll. Fyrirvari verkfalla í Danmörku skv. semptembersættinni er aldrei minni en 14 sólarhringar, og getur orðið 28 sólarhringar vegna afskipta sáttasemjara. Í Noregi er tilskilinn fyrirvari allt að 16 sólarhringar, og í Svíþjóð 7. En í öllum þessum löndum er hins sama fyrirvara krafizt um öll verkföll. Um þetta atriði verður hin íslenzka vinnulöggjöf stórum frjálslyndari í garð verkamannanna en það, sem bezt gerist á Norðurlöndum. Þess er þó rétt að geta í þessu sambandi, að á Norðurlöndum hafa gengið dómar í vil verkamönnum til réttlætingar skyndiverkföllum undir vissum kringumstæðum. Þrátt fyrir ákvæði septembersættarinnar um hinn langa fyrirvara fyrir öllum verkföllum hafa í Danmörku verið dæmdir hæstaréttardómar, sem réttlæta fyrirvaralaus skyndiverkföll, ef þau hafa miðað til þess að knýja fram greiðslu umsamins kaupgjalds eða til verndar lífi, æru og velferð verkamanna, eins og það er orðað.

Á Norðurlöndum er sáttasemjara í vinnudeilum fengið mjög mikið vald til að stöðva verkföll um lengri og skemmri tíma. Hér fær sáttasemjari ekkert slíkt vald. Hér ræður meiri hl. atkv. úrslitum um till. sáttasemjara, ef 35% félagsmanna eru á fundi, og stighækkandi meiri hl. eftir því sem færri mæta, prósenta á móti prósentu. Í Danmörku ræður meiri hl. því aðeins, að 75 % félagsmanna séu á fundi, og í Noregi má heita hin sama regla hér að lútandi. Hér á fundur með minna en 20% fundarsókn ekki að geta hafnað till. sáttasemjara. Í Danmörku og Noregi er miðað við 25%. Hefir reynslan hér sýnt, að þetta takmörkunarákvæði mundi aldrei hafa haft þýðingu fyrir niðurstöðu í atkvgr. um till. sáttasemjara, og er því siður en svo líklegt til að geta haft það, eftir að það skilyrði er lögfest og orðið aðilja kunnugt.

Reglan um skipun hins fyrirhugaða gerðardóms hér, og félagsdómsins er tekin eftir því, sem bezt hefir þótt gefast á Norðurlöndum. Í réttarþjóðfélagi er ekki um það að ræða, að annar aðili ráði meiri hl. dómsins. Jafnmargir fulltrúar frá báðum aðiljum og einn oddamaður, skipaður af hinum þriðja, þykir vera veikur dómur. Allt er komið undir afstöðu oddamannsins, og hann er veikari fyrir áhrifum hins sterkara aðilja, sem í langflestum tilfellum eru atvinnurekendur, heldur en ef fleiri eru saman, og fremur ætlandi að líta til beggja átta, sem þá er vinningur fyrir verkamennina.

Nú ætla ég, að ég hafi gert viðunandi ljósa afstöðu Alþfl. til vinnulöggjafarmálsins. Hann hefir í meira en tug ára barizt hér sinni baráttu, fáliðaður á Alþ., og raunar ætíð, að því er virðast mátti, gegn fullkomnu ofurefli. Upphaflega var vinnulöggjöfin borin fram á Alþ. af sjálfstæðismönnum til þess að vera kúgunarlög, er hneppt hefðu allan verkalýð landsins í þrældómsfjötra, og engin leið hefði verið að halda uppi nema með valdi, enda til þess ætlazt, og oft farið fram á slíka hervæðingu jafnframt, þó að hér ætti í hlut stærsti þingfl., með ríkri stoð í næststærsta þingfl., tókst Alþfl. að eyða málinu, og svo jafnan meðan ekki var um annað að ræða en vinnulöggjöf, sem orðið hefði réttarskerðing fyrir verkalýðinn.

Nú á þeim tíma, þegar enginn skortur er á, að báðir stærstu þingfl. brosi hýrlega hvor til annars, og allir vita, að engin leið var að umflýja, að vinnulöggjöf hlaut að verða sett í einu formi eða öðru — nú þegar aðstaðan í þinginu til ákjósanlegustu lausnar þessu máli er allt annað en styrk, og verkalýðurinn í landinu sundraðri og meira reynt um hann að villa en nokkurn tíma áður, tekst Alþfl. að aka svo málinu, að í stað kúgunarlaga verður hér sett vinnulöggjöf, sem að vísu stendur til bóta, en er veruleg réttarbót fyrir verkalýðinn og frjálslegri en dæmi eru til í nokkru landi í veröldinni, og jafnvel verkalýður annara Norðurlanda með sinum voldugu samtökum, ríku ítökum í löggjöf og sínar eigin landstjórnir í öllum löndunum má líta undrandi til.

Ef verkalýðurinn í landinu kann ekki að meta þessa meðferð málsins og bráðabirgðamálalok til að una við, byggja ofan á og hjálpa til að umbæta, þá er það ekki verst fyrir þá fulltrúa hans, sem hér hafa aðallega að unnið — það er verst fyrir verkalýðinn sjálfan.

Mér er sérstakt ánægjuefni, um leið og ég við þetta tækifæri flyt verkalýðssamtökunum í kjördæmi mínu minar beztu kveðjur, að hafa átt kost á því, að láta þau heyra, að á milli mín og þeirra er enginn ágreiningur í þessu þýðingarmikla máli.