30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Héðinn Valdimarsson:

Alþýðusambandið og verkalýðsfélögin hafa frá því fyrsta barizt á móti hverskonar þvingunarlöggjöf gegn hinum frjálsu samtökum verkalýðsins til að bæta kaup hans og kjör eða sameina hann til pólitískra eða stéttarlegra átaka. Allar tilraunir af hálfu borgaraflokkanna til þess að koma á ríkislögreglu, lögþvinguðum gerðardómi eða annarskonar löggjöf, er gæfi öðrum en verkalýðnum sjálfum úrskurðaratkvæði um þau mál, hefir strandað á órofinni andstöðu íslenzkrar alþýðu. Eftir að samstarf hófst að nýju með Alþfl. og Framsfl. í ríkisstj. á árinu 1936, kom Hermann Jónasson hvað eftir annað fram með þá kröfu af hálfu Framsfl., að vinnulöggjöf yrði sett. Þar sem búast mátti við, að þetta gæti orðið stórfellt deiluatriði milli flokkanna, var málið tekið fyrir á þingi Alþýðusambandsins 1936. var þar allmikill ágreiningur, en þó sættust flestir á sameiginlega ályktun, sem ég flutti, ásamt 9 öðrum fulltrúum. Ýmsir fulltrúar, þar á meðal Hannibal Valdimarsson, Kristinn Arndal o. fl., héldu fast fram þeirri afstöðu, að mótmæla vinnulöggjöf, hvernig svo sem hún yrði. Aðrir, þar á meðal ég, héldu því fram, að ástæðulaust væri fyrir Alþfl. að neita því með öllu, að löggjöf yrði sett um málið. Hitt væri aðalatriðið, að sú löggjöf yrði ekki sett án samþykkis Alþýðusambandsins, á sama hátt sem S. Í. S. hafði haft úrslitaatkvæði um samvinnulöggjöfina og bændur landsins um jarðræktarlögin og framkvæmd þeirra, og í öðru lagi, að hún skerti á engan hátt réttindi verkalýðsfélaganna, heldur yrði þau verulega aukin. Var í því sambandi rætt um, að ef vinnulöggjöfin yrði samþ., þá ætti hún að ná sem mest til aukinna réttinda fyrir verkalýðsfélögin, styttingu vinnutímans, tryggingu fyrir greiðslu kaupgjalds, varnir gegn slysahættu og ofþjökun verkalýðsins o.s.frv. Þessi skoðun varð ofan á á þinginu. og var með henni opin leið til samninga við Framsfl. um þessi efni. En sá skilningur lá á bak við, eins og fyrr er greint, að þingflokkurinn og sambandsstjórn gerðu ekkert endanlegt í þessu án samþykkis Alþýðusambandsins.

Á þingtímanum 1937 var svo skipuð mþn. í málið, en í henni áttu sæti af hálfu Alþfl. Sigurjón Ólafsson, ásamt lögfræðingi, sem ekkert þekkti til þessara mála af reynslu, Guðmundi Í. Guðmundssyni, sem er félagi í málaflutningsskrifstofu Stefáns Jóh. Stefánssonar. Um svipað leyti og þingrofið bar að, báru framsóknarmennirnir í n. fram frv. á þinginu, sem leit út fyrir, að keyrt yrði gegnum þingið gegn andstöðu okkar alþýðuflokksmanna. Kom ég þá með till. um það, að við kæmum með og sýndum frv. frá sjónarmiði verkalýðsins, en Sigurjón Á. Ólafsson og Guðmundur Í. Guðmundsson sögðust hafa það tilbúið, og höfðu þó ekki sýnt okkur það. Gerði ég ráð fyrir, að það mundi vera á grundvelli skoðana verkalýðsfélaganna. Úr þessu varð þó ekkert, þar eð frv. Framsóknar var svæft. N. hélt svo áfram störfum, og einstök atriði voru stundum rædd við þm. og sambandsstjórnarmenn. En enda þótt frv. væri fullbúið seint í janúar síðastl., var það aldrei sent til sambandsstjórnarmenna eins og það lá endanlega fyrir og aldrei borið undir sambandsstjórn. En rétt áður en meiri hl. sambandsstjórnar hóf klofningsstarfsemi sína, þá sendu Jón Baldvinsson og Stefán Jóh. Stefánsson út umburðarbréf í leyni út til verkalýðsfélaganna utan Reykjavíkur. Skora þeir þar í nafni Alþýðusambandsins, án nokkurrar heimildar frá stjórnarfundi, á félögin að samþ. frv. óbreytt, aðallega til þess að geta haldið óbreyttum ríkisstjórnartengslum við Framsfl. Jafnframt var hinn sameiginlegi erindreki verkalýðsfélaganna sendur út um allt land til að reyna að smala ályktunum frá félögunum um fylgi við frv. óbreytt. Er þetta óneitanlega einkennileg aðferð af hálfu þeirra, sem að þessu stóðu, og varla gert af öðrum ástæðum en þeim, að þeir hafi umfram allt viljað fá vinnulöggjöf, en óttast mótstöðu verkalýðsfélaganna, ef málið yrði upplýst frá öllum hliðum. Árangurinn varð þó annar en til var ætlazt. Undir eins og félögin fengu frv. í hendur, reis mögnuð mótstaða gegn því eins og það lá fyrir, þrátt fyrir allan áróður hægri manna, sem virtust meta meira samstarfið við Framsókn, hvernig sem það yrði, heldur en sameiningu verkalýðsins um þessi mál og önnur. Hér í Reykjavík og nágrenni var Guðmundur Í. Guðmundsson sendur á hvern fundinn eftir annan til að gylla frv., og Haraldur Guðmundsson, þá ráðherra, gekk fram fyrir skjöldu í þessu máli og ýmsir aðrir þekktustu hægrimennirnir, nema Sigurjón Á. Ólafsson. Honum var boðið á hvern fundinn á fætur öðrum, en mætti aldrei. Og í Sjómannafélagi Reykjavíkur, þar sem hann er formaður, voru haldnir fjölmennir fundir eftir nýárið, en þar fekkst hann ekki til að taka vinnulöggjöfina fyrir, þrátt fyrir áskoranir. En þrátt fyrir þetta hafa ekki nema fá félög á landinn mælt með því að samþ. frv. óbreytt. Langflest félög hafa viljað samþ. það aðelns með verulegum breytingum eða þá fella það. Yfirleitt hafa öll stærstu verkalýðsfélögin verið á móti því að samþ. frv. Þessi félög eru t. d. Dagsbrún í Reykjavík, Hlíf í Hafnarfirði, Verkamannafélag Siglufjarðar, Verkamannafélag Norðfjarðar, Drífandi í Vestmannaeyjum og Iðja í Reykjavík, auk margra fleiri. Atkvæðatalan í þessum félögum hefir verið yfirgnæfandi á móti frv. En t. d. í Baldri á Ísafirði, sem var með frv., var fámennt við atkvæðagreiðslu, og þó veruleg andstaða, enda þótt Hannibal Valdimarsson berðist nú af alefli með þessari vinnulöggjöf, sem áður hafði verið á móti allri vinnulöggjöf.

Ekki bætti það fyrir forvígismönnum frv., hvernig sjómannadeilan var til lykta leidd, með lögþvinguðum gerðardómi, og að þm. Alþfl. sjálfir höfðu komið með frv. um að lögfesta kaupið. Og loks fór Haraldur Guðmundsson úr stj. á þessum málum. En þrátt fyrir það hélt hann og aðrir hægri foringjar áfram að berjast fyrir framgangi þessa frv. óbreyttu, og það svo, að þeir hafa lýst því yfir, að þeir leggi ekkert kapp á að fá neinar umbætur á því.

Ég lít svo á, eftir allt sem á undan er gengið í sambandi við þetta mál, að samþykkt þessa frv. sé í fullri andstöðu við vilja verkalýðsfélaganna og Alþýðusambandsins, nema að á því fengjust mikilsverðar breyt. Þær brtt. bar ég fram við 2. umr., eins og þær voru samþ. í verkamannafélaginu Dagsbrún með yfirgnæfandi meiri hl., eða með 382:64 atkv., en þessar brtt. voru allar felldar með sameiginlegu fylgi Sjálfstfl. og Framsóknarfl. og sumra hægri manna í Alþfl. Er þessi afstaða þm. Alþfl. alveg óskiljanleg.

Ég vil þá, eftir því sem tími minn leyfir mér, snúa mér að sjálfu frv. Það er í 4 köflum. 1. kaflinn er um réttindi stéttarfélaga og afstöðu þeirra til atvinnurekenda. H. kaflinn er um verkföll og verkbönn, III. kaflinn er um sáttatilraunir í vinnudeilum og IV. um félagsdóm. — Um III. kaflann hefir áður verið löggjöf, og er hún hér aðeins aukin og bætt, nema í einu mikilsvarðandi atriði, um miðlunartillögur sáttasemjara. Þar er tekin upp sú regla, að sáttasemjari hafi meira vald um samþykkt sinnar eigin till. heldur en allmikill hluti félagsins. Ef ekki minnst 35% félagsmanna greiða atkv., þarf meira en einfaldan meiri hl. til að fella till. hans og vaxandi meiri hl., eftir því sem færri greiða atkv., þannig að ef ekki a. m. k. 20% gr. atkv. um till., telst hún samþ., þótt allir verkamenn, sem atkv. greiða, séu á móti henni. Við skulum taka t. d., að í 2000 manna félagi, eins og Dagsbrún, þá vega 399 verkamenn með mótatkvæði sínu ekki á móti sáttasemjara einum. Þetta ákvæði er svo skýrt brot á öllum lýðræðisreglum verkalýðsfélaganna, að ekki verður við unað, enda frá sjónarmiði verkamanna óverjandi, að sáttasemjari fái lögfest ráð í málum félaganna og um kaupgjald þeirra, jafnvel þótt ekki fáist mjög mikil þátttaka í atkvgr. Mundi bændum þykja slík yfirráð hörð af hendi óviðkomandi manna yfir þeirra félagsskap. En í stórum verkalýðsfélögum er oft vont að fá mikla þátttöku í atkvgr.

Hugmyndin um félagsdóm um réttarágreininga er að mínu áliti rétt og á ýmsan hátt hagkvæmari en að láta slík mál fara til almennra dómstóla. En skipun félagsdómsins sjálfs er óhæf. Eftir frv. hafa aðiljar hvor einn mann, en 3 tilnefnir hæstiréttur, þó að atvmrh. velji einn þeirra eftir tilnefningu á milli 3. Með þessu er einum aðilja, hæstarétti, gefinn meiri hl. dómsins, en eins og kunnugt er, hefir ráðandi ríkisstjórn mest áhrif á skipun hans. Er ekki hægt að bera traust til dómstóls, sem þannig er einhliða skipaður.

Þó að meira mætti finna að þessum 2 köflum frv., þá eru þessi 2 ákvæði nægileg til þess, að verkalýðsfélögin geta ekki sætt sig við þau. Því er haldið fram af meðmælendum frv., að réttindi verkalýðsfélaganna séu aukin með I. kafla frv., en flest af þeim ákvæðum, sem þar eru nefnd, eru þegar í stjórnarskránni, öðrum lögum eða bundin af hefð í gegn um 20–30 ára afmæli. Samkvæmt stjórnarskránni er félagsfrelsi í landinu í hverjum löglegum tilgangi, og þarf því með sérstökum l. að leyfa verkalýðsfélög, sem hafa starfað hér í 40 ár. Þá er það og hefð, að stéttarfélögin séu opin öllum í hlutaðeigandi starfsgreinum, eftir samþykktum félaganna. Og þó að einn atvinnurekandi á landinu hafi gert tilraun til að stofna lokað verklýðsfélag, þá hefir það ekki tekizt, og eru félögin og Alþýðusambandið einfær um að hindra slíka útilokunarstefnu. Þá er stéttarfélögunum með frv. gefið vald til að ráða málefnum sínum sjálf, en það hafa þau, og hafa ávallt haft. En hér segir: „með þeim takmörkunum, sem settar eru í lögum þessum“, m. ö. o., hér er verið að takmarka réttindi þeirra, en ekki auka þau, eins og siðar kemur betur í ljós. Meðlimir félaganna eiga eftir frv. að vera bundnir við samþykktir þeirra, en það eru þeir eftir gildandi lögum, og væri hægt nú að sækja þá til dómstólanna fyrir lagabrot. Hinsvegar er krafa verklýðsfélaganna um, að verklýðsfélögin geti gert bindandi samþykktir fyrir utan félagsmenn í starfsgrein félagsins, ekki tekin til greina á þann hátt, að í vinnudeilum geta þeir verið verkfallsbrjótar og brotið allar samþykktir félaganna, eins og áður, nema félagið sjálft hindri það, eins og gert hefir verið áður. atvinnurekendum er bannað að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna með uppsögn úr vinnu og fjárgreiðslum, en engar tryggingar gefnar gegn því, og mundi það varla reynast haldbetra heldur en um kosningar, þar sem vandlega er þó um búið. Stéttarfélögin eiga að vera lögformlegur samningsaðili, en engin ákvæði þvinga atvinnurekendur yfirleitt að taka upp samninga né semja við þau, og er þetta sami orðaleikurinn. Hinsvegar er nú heimtað, að allir samningar um kaup og kjör skuli vera skriflegir, og þannig afnumin hefðbundin réttindi verklýðsfélaganna um að ákveða kauptaxta sem sé talinn sem samningur, þegar atvinnurekendur greiða kaup eða haga kjörum samkvæmt honum. Hafa verkalýðsfélögin þó viða um landið fylgt þeirri reglu. En sá sjálfsákvörðunarréttur verkamanna fæst ekki viðurkenndur, heldur er afnuminn með frv. Vænti ég, að verkamenn út um land festi sér það í minni.

Frv. tiltekur svo ábyrgð fyrir samningsrof, sektir, sem hægt er að gera aðför fyrir í öllum eignum félaganna, félagssjóðum, atvinnuleysis-, verkfalls- og menningarsjóðum, samkomuhúsum, barnahælum og öðru, sem félögin eiga. Er þetta stórkostleg hlutdrægni, að undanskilja ekki aðrar eignir en félagssjóðina, þar sem atvinnurekendur hafa enga hliðstæða menningarstarfsemi, né eignir. sem hægt er að gera aðför i. En þetta, að till. til breyt. á þessu eru kolfelldar, sýnir, hvernig andi frv. og aðstandenda þess er gagnvart verkalýðsamtökunum. Trúnaðarmenn mega félögin skipa eftir frv., en það mega þau líka nú, og t. d. Dagsbrún gerir það. En frv. veitir þessum trúnaðarmönnum engin tryggð sérréttindi gegn uppsögn. Því að það er ekki hægt að kalla svo, að ekki megi reka menn fyrir starf þeirra sem trúnaðarmenn. Atvinnurekendur mundu kunna að nefna til aðra ástæðu.

Réttindi frv. verkalýðnum til handa eru því flest fánýt eða illa tryggð, en skyldurnar og takmarkanirnar á réttindunum eru því ákveðnari. Og þá er fyrst og fremst verkfallsréttinum rammar skorður reistar. Í stað þess, að félögin eru eins og annar félagsskapur í landinu, nú sjálfráð um þessi sín mál, og ákvörðun um verkfall er venjulega tekin af lögmætum félagsfundum eða félagsstjórnum, þá er nú samkv. frv. félagsfundum ekki leyft að taka ákvörðun um verkfall, elnmitt þeim fundum, þegar verkamennirnir eru óháðastir utan að komandi áhrifum atvinnurekenda og fá málin bezt upplýst. Félagsstjórnir þurfa oft að grípa til skyndiverkfalla, ef eitthvað ber að höndum. sem ekki er tími til að láta félagsfund ákveða um. Það eru oft mínni háttar atriði, sem þó heimta verkfall, t. d. að vinna ekki með utanfélagsmönnum. Eftir frv. eru félagsstjórnir sviptar þessum verkfallsrétti, nema í þeim sérstöku tilfellum, sem almenn atkvgr. í félaginu hefir leyft þeim að gera verkfall, og standi minnst 24 stundir. Verkfallsrétturinn er

hún yfirleitt bundinn við slíka langvarandi atkvgr., hvernig sem á stendur, nema félagið setji upp trúnaðarmannaráð. En þá er líka horfið frá lýðræðisreglunni um einfaldan meiri hluta, og í þess stað krafizt 3/4 hluta atkvæða. Með öllu þessu er verkfallsréttur verkalýðsfélaganna, þeirra sterkasta og eina vopn í deilum um kaup og kjör, takmarkaður svo, að erfitt er að beita honum, hvað sem á liggur, nema með löngum aðdraganda. Og á móti þessari réttindasviptingu og árás á aðalstarfsemi félaganna á félagsfundum og í félagsstjórnum kemur ekkert, en til viðbótar nýjar réttindasviptingar.

Í 16. gr. frv. útheimtist 7 daga fyrirvari, ekki einungis vegna kaups og kjara, heldur einnig um skjótar ákvarðanir, t. d. skyndivinnu, sem getur verið lokið, áður en þessi tími er liðinn. Skyndiverkföll eru með þessari grein og með takmörkunum á því, hvernig sé hægt að gera verkfall, yfirleitt útilokuð. En með þeirri óstöðugu vinnu, sem er í bæjunum í landinu, er útilokun þeirra mjög alvarleg takmörkun á því, að verklýðsfélögin geti unnið samkvæmt tilgangi sínum.

Þá eru sett ákvæði gegn pólitískum verkföllum, er verkalýðssamtökin kynnu að vilja ákvarða, ef tilgangur vinnustöðvunar er sá, að fá stjórnarvöldin til að framkvæma eða framkvæma ekki athafnir, sem lögin skylda þau til framkvæmdar á eða hið gagnstæða. Þessi verkfallsréttur, sem ber að skoða sem neyðarrétt og neyðarvörn verklýðssamtakanna og alþýðunnar gagnvart íhaldi og ofbeldi æðri stéttanna og er talinn einn dýrmætasti réttur samtakanna, er að vísu örsjaldan notaður, en hefir, þegar hann hefir verið notaður, eins og t.d. í deilu dönsku sósialdemókratanna við konungsvaldið um þingræði og lýðræði og í sjálfstæðisdeilu finnsku þjóðarinnar við rússnesku keisarastjórnina 1905, verið það vopnið, sem úrslitunum réð, þegar kúgunin gegn alþýðunni gekk of langt.

Eg get að vísu skilið Sjálfstfl., að hann vilji sem mesta takmörkun á öllum réttindum verkaIýðsins, en siður Framsfl., sem telur þó þúsundir alþýðumanna innan sinna vébanda. Og sízt get ég skilið þá þm., sem vilja telja sig fulltrúa alþýðunnar, að þeir óski að svipta hana vopnlausa þessum ómetanlega neyðarrétti. En ef verklýðsfélögin brjóta svo þessi ákvæði öll, sem svipta þau fornum réttindum, þá kemur félagsdómur til með sinn meiri hluta og ákveður sektir og tæmir sjóði, gerir aðför á eignum og menningartækjum félaga hinnar fátæku alþýðu við sjávarsíðuna.

Nei, þessi vinnulöggjöf er þannig, að ekki er hægt að skoða hana nema sem beina árás á alþýðusamtökin og steyttan hnefa gegn þeim. Það blómskrúð, sem er sett í réttindákaflann, fölnar fljótt, þegar á að fara að nota það. En tilgangur takmarkananna á réttindum félaganna er lömun þeirra í baráttunni fyrir bættum kjörum alþýðunnar.

Verklýðssamtökin hafa getað þróazt á 40 árum hér á landi í skjóli núverandi löggjafar og stjórnarfars úr fámennum og veikum félagsskap í að verða aðalstoð og athvarf verkalýðsins, — í voldug landssamtök alþýðunnar. Þau hafa ekki verið byltingasöm. Og lausn mála þeirra hefir oftast, og sérstaklega eftir að þau fóru að eflast, orðið friðsamleg, ef atvinnurekendur hafa ekki beitt ofbeldi og ójöfnuði. Af hálfu verkalýðssamtakanna hafa ekki komið fram kröfur um þessa löggjöf, heldur frá andstæðingum þeirra í Sjálfstfl. og Framsfl. En við því hefði mátt búast, að þeir, sem hefðu átt hér á þingi að teljast fulltrúar verklýðsins, hefðu allir skipað sér í sameinaða sveit gegn þeim, en ekki eins og orðið er, að hægri menn Alþfl. gangi með Sjálfstfl. og Framsfl. að því, að samþ. frv. sem þetta. Það er til þess eins að veikja mótstöðu alþýðusamtakanna gegn árásum þeim, sem þessi löggjöf getur í sér falið og mun gera.

En ég hefi þá trú, að alþýðan í verklýðssamtökunum muni skipa sér í eina þétta fylkingu um réttindi þeirra og starfsemi, hvernig svo sem löggjöfin verður á þessu þingi, eins og norski verkamannaflokkurinn gerði á sínum tíma gegn löggjöf, sem sett var til að stöðva framrás alþýðunnar þar í landi.

1. maí er á morgun, hátíðisdagur verkalýðsins og sósialista um allan heim. Í Reykjavík verður að þessu sinni stofnað til stórfelldra hátíðahalda og kröfugöngu flestallra verklýðsfélaga innan Alþfl. og Kommfl. í bænum. Alþýðumenn og konur í Reykjavík! Mætið öll í sameiningargöngunni. Sinnið ekki klofningsmönnunum. Minnizt atvinnuleysisins og vinnulöggjafarinnar, árásarinnar á sjómennina og iðnaðarmennina. Standið saman og skapið einn sósíalistískan lýðræðisflokk íslenzkrar alþýðu þegar á þessu hausti.