30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. (Bergur Jónsson):

Úr því að hv. síðasti ræðumaður „marséraði“ loksins burt úr ræðustólnum og komið var fram yfir tímann hjá honum, kemst ég að með nokkur orð.

Ég vil benda hv. þm. á það, að „septembersættin“ var sett eftir verkfall með samkomulagi aðilja af nefnd, sem var sett af báðum aðiljum, og þess vegna var ekkert ósamræmi í orðum hæstv. forsrh. hér áðan.

Viðvíkjandi ræðu hv. 8. landsk. vil ég geta þess út af brtt., sem hann nú minntist á og flutt er af mér og hv. þm. N.- Ísf., að hann ætti að vera það vel að sér í þingsköpum að vita, að það er ekki hægt að bera fram sömu brtt. við tvær umr., og þess vegna er það firra, að brtt., sem við berum fram, sé sama brtt. og felld var við 2. umr.

Til þess að sýna sanngirni eða fum hv. 3. þm. Reykv., HV, í þessu máli, vil ég benda á eina brtt.,sem hann bar fram við 2. umr. málsins, þar sem hann vill ákveða svo, að við allar atkvgr. skuli samkv. lögunum gilda sú regla, að einn maður fari með eitt atkv. Þetta á auðvitað við um atkvgr. í stéttarfélögum, en ef það ætti að gilda um atvinnurekendur, gæti það t. d. leitt til þess, ef um þrjá atvinnurekendur væri að ræða á einum og sama stað og tveir ættu sitt hvort skipið, en einn ætti 15–20 skip, að þessir tveir, sem eiga tvær fleytur, gætu sagt þeim atvinnurekanda fyrir verkum, sem hefir yfirgnæfandi meiri hl. verkafólksins í þjónustu sinni. Þetta sýnir vel flaustur og hugsunarleysi þessa hv. þm. Annars vil ég segja það um afstöðu þessa hv. þm. til þessa máls, að hún er mótuð eingöngu af hinum pólitíska einstæðingsskap hans og löngun til þess að kveða niður sína fyrri samherja og ná fylgi frá þeim alþýðuflokksmönnum, sem þoldu ekki lengur ofríki hans og yfirgang og dekur hans við hina gömlu fjandmenn hans, kommúnistana, sem hann hafði áður verið allra manna harðskeyttastur gegn, sbr. breyt., sem hann lét gera á lögum Dagsbrúnar til þess að bola kommúnistunum frá öllum trúnaðarstörfum í félaginu. Hv. 3. þm. Reykv., HV, verður að afneita allri fyrri framkomu sinni til þess að afsaka afstöðu sína nú, því að hv. þm. N.- Ísf., VJ, hefir sýnt fram á, að einmitt hv. 3. þm. Reykv. var óðfúsastur og óþolinmóðastur allra sinna flokksbræðra eftir þessari löggjöf, meðan hann var í Alþfl., og af umr., sem áður hafa fram farið á þingi um vinnulöggjöf, t. d. um frv. GG um félagsdóm í fyrra, sést, að Héðinn vildi ákveðið fá vinnulöggjöf á þeim grundvelli, sem hér er ætlazt til að lögleiða, og lét hann því þá ómótmælt, að þáverandi flokksbróðir hans, Stefán Jóh. Stefánsson, lýsti beinlínis aðalatriðunum í því frv., sem nú liggur fyrir, sem þeirri vinnulöggjöf, sem Alþfl. óskaði eftir. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Það væri æskilegt að skapa vinnandi fólki skýlausan lagarétt til að stofna félög og sambönd til þess að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum sínum. Það væri þörf á að banna með lögum afskipti atvinnurekenda með ástæðulausum uppsögnum, hótunum eða fortölum til þess að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna eða afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum. Það væri þörf á að tryggja verkalýðsfélögunum trúnaðarmenn á vinnustöðvum, sem atvinnurekendum væri óheimilt að segja upp vinnu.“

Þetta er einmitt það, sem gert er með frv. því, sem hér liggur fyrir, og þessum orðum mótmælti HV, engu í fyrra, enda mun hann hafa verið þeim algerlega samþykkur. Ég leyfi mér því að fullyrða, að ef HV, er alvara með andstöðu sinni gegn þessu máli nú, þrátt fyrir gagnstæða skoðun áður, hlýtur það að leiða af þeirri ógæfu hans, að þrátt fyrir sæmilega greind og þekkingu er hann svo ráðríkur, valdagjarn og vanstilltur í skapi, að þessir gallar hafa nú borið vit hans ofurliði, svo sem ekki er ótítt með þennan hv. þm.

Andstaða kommúnista er auðvitað, eins og endranær, af þeim rótum runnin, að þeir vilja Alþfl. feigan og ætla sér að reyna að draga fylgi frá honum með villandi upplýsingum um vinnulöggjafarfrv. þetta, auk þess sem þeir samkvæmt stefnu sinni óska eftir upplausn og ófriði í þjóðfélaginu til þess að ryðja byltingarstefnu sinni braut, án þess að gæta að því, að slík framkoma getur fyrst og fremst komið þeim sjálfum í koll, með því að ýta undir öfgarnar frá hægri, nazismann.

Það, sem ég vil sérstaklega brýna fyrir almenningi hér á landi að gjalda varhuga við, eru þau ósannindi, að hér sé á ferðinni löggjöf um vinnudóm, sem eigi að dæma um ágreining um kaup og kjör. Félagsdómurinn í þessu frv. á ekkert sammerkt við gerðardóm eða vinnudóm í hagsmunaágreiningi, heldur er hann eingöngu settur á stofn til þess að dæma um réttarágreining, þ. e. skilning á samningum, samningsrof og brot á samningum og þess háttar.

Að lokum vil ég skora á allan almenning í landinu, sem aðstöðu hefir til þess, að kynna sér eftir föngum löggjöf þessa og nál. mþn., sem hefir samþ. frv., og ber ég þá engan kvíðboga fyrir því, að hin athugula íslenzka þjóð sjái eigi, að hér er um réttarbót fyrir alþýðu manna, en eigi þrælalög eða kúgunar að ræða.

Ég vona, að umr. þessar hafi orðið til þess að skýra mál þetta fyrir þjóðinni og greiða úr þokunni, sem andmælendur þess vilja hjúpa það i. Þakka ég svo þeim, er hlýtt hafa á mál mitt. Góða nótt.