28.04.1938
Neðri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og fyrir liggur í opinberum heimildum, hefir á síðustu áratugum verið flutt inn æðimikið lánsfé. og eins og getið er um í grg. þessa frv., námu erlendar skuldir á árinu 1925 tæpum 40 millj. kr. samkvæmt skýrslum hagsfofunnar, en í árslok 1934 voru þær taldar 831/3 millj. Með öðrum orðum: það hefir á þessum árum verið flutt inn lánsfé umfram afborganir um 40 millj. kr. Nú hefir á þessu tímabili verzlunarjöfnuðurinn verið hagstæður um 21/2 millj. kr. að meðaltali á ári. Eins og sjá má hafa skuldirnar aukizt um rúmar 4 millj. kr. á ári nú síðustu árin. Í árslok 1936 eru skuldirnar, samkvæmt upplýsingum hagstofunnar, um 90 millj. kr., og svarar það til þess, að þær hafi aukizt síðan í árslok 1934 um 61/2 millj., og er það nálega sama upphæð og tekin hefir verið til láns vegna Sogsvirkjunarinnar. Á þessu má sjá það, að sú mikla breyting hefir hér gerzt, að innflutningur erlends lánsfjár hefir stöðvazt mjög svo, miðað við það, sem áður var. Verzlunarjöfnuðurinn hefir á þessum árum breytzt frá því að vera óhagstæður um 4 millj. 1934 í það að vera hagstæður um í millj. á síðasta ári. Þrátt fyrir þessa breytingu hafa gjaldeyriserfiðleikarnir verið miklir, eins og mönnum er kunnugt, og þarf ekki að tala langt mál um það. En þetta stafar fyrst og fremst af því, hversu geysileg stefnubreyting hefir orðið um innflutning lánsfjár. miðað við það sem áður var. Auk þess hefir meðalútflutningur okkar lækkað verulega á sama tíma. Ef við nú athugum þessi mál nánar. þá kemur það í ljós, að ef ekkert lánsfé væri flutt inn, þá mundum við þurfa að flytja út árlega um 4,5 millj. kr. í afborganir erlendra lána. En ef þannig væri að farið, þá mundi það svara til þess, að við mundum geta greitt skuldir okkar upp á 20 árum. Nú liggur það beinlínis fyrir að gera sér það ljóst, hvort það mundi vera kleift fyrir okkur að vera án þess að flytja inn erlent fjármagn og hvort þjóðin muni nú geta gerzt útflytjandi fjármagns í allstórum stíl, þar sem hún fram að þessu hefir í hinum mestu góðærum verið innflytjandi fjármagns. Ef menn athuga þetta, þá held ég, að engum geti blandazt hugur um, að það muni verða ofraun fyrir þjóðina, að fara nú að gerast útflytjandi fjármagns í verulegum mæli. Af þessum ástæðum hefir stj. ekki þótt annað fært en að fara fram á að fá lántökuheimild frá Alþingi. Það er ætlazt til samkvæmt frv., að lántakan fari fram á 3 árum, ef gjaldeyrisástæður gera slíkt nauðsynlegt, en nú þegar yrði leitazt fyrir um 5 mill. kr. lán. Þar af á ein millj. að ganga til verksmiðjubyggingar á Raufarhöfn. Það er

þannig gert ráð fyrir því, að mikill hluti af afborgunum hinna föstu lána yrði á þessu ári og e. t. v. tveim næstu — greiddur af hinni erlendu lántöku. Þetta er. eins og menn sjá, byggt á því, að ekki þykir líklegt, að þjóðin geti verið án þess gjaldeyris, sem þyrfti til þess að greiða niður eldri lán.

Allir þekkja erfiðleika þá, sem verið hafa undanfarin ár, og þó að síldveiðin hafi gengið vel, þá hefir það ekki vegið upp nema nokkurn hluta af því útflutningsverðmæti, sem tapazt hefir, vegna þess, hve þorskveiðarnar hafa gengið illa. Þar að auki hefir kostnaðurinn við síldveiðarnar verið gífurlegri heldur en ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi yfirleitt gert sér ljóst.

Ég lít þannig á, að sjálfsagt sé fyrir okkur Íslendinga að leita nú fyrir um lántöku í því skyni að geta staðið fyllilega í skilum við alla okkar lánardrottna. Sú skoðun byggist á því, að það verða að teljast alveg óvenjulegir erfiðleikar, sem við undanfarið höfum átt við að stríða, og því beri ekki að líta svo á, að þetta ástand gefi til kynna, að við í framtíðinni ekki getum staðið við okkar skuldbindingar. Þvert á á móti er full ástæða til að líta svo á, eftir því, hvernig okkur hefir gengið að mæta vandræðum síðustu ára, að við getum vel staðið í skilum með allar okkar skuldbindingar, án þess að gengið sé of nærri þjóðinni í venjulegu árferði.

Nú má kannske segja, að óþarfi hefði verið fyrir ríkisstj. að fara fram á hærri lánsheimild heldur en hún ætlar sér að nota mest á þessu ári, þ. e. a. s. 5 millj. kr., og ég þykist vita enda hefir það þegar komið fram —. að ekki muni standa á andstæðingum ríkisstj. að halda því á lofti, að ætlunin sé að taka 12 millj. kr. lán. En þetta skiptir ekki máli fyrir mig, heldur hitt, að það er eðlilegt, að gert sé ráð fyrir því, og að menn búi sig undir það, að þessir erfiðleikar geta haldizt nokkuð enn, og þess vegna tel ég rétt, að heimild sé til fyrir ríkisstj. –hver sem hún verður — á árunum 1939–40, til þess að taka lán upp í afborganir eldri skulda, ef gjaldeyrisástandið gefur tilefni til þess. Ég lít einnig þannig á, að réttast sé, þegar farið er að gera þessi mál upp, að um leið og gengið er frá því láni, sem tekið yrði á þessu ári, sé unnið að því að undirbúa jarðveginn fyrir lánsútveganir 1939–40, ef gjaldeyrisástandsins vegna verður óumflýjanlegt að gripa til þess þá. Hitt er svo annað mál, að það geta komið þær ástæður fyrir, sem gerðu það að verkum, að slíkt yrði ekki alveg óumflýjanlegt. T. d. gæti það komið fyrir, að innflutt væri lánsfé til einhverra nýrra framkvæmda í svo stórum stíl. að það létti gjaldeyrisástandið. Einnig gæti það mjög auðveldlega komið fyrir, að aflabrögð glæddust mjög verulega, og þá væri hægt að gera sér hinar beztu vonir um, að sæmilega væri hægt að sjá þessum málum borgið án lántaka. Ég vil t. d. bara kasta því fram, mönnum til athugunar, hver geysilegur munur væri á aðstöðu okkar nú, ef vertíðin gæfi þó ekki væri nema 40–45 þús. smál. af fiski, með öðrum afurðum, sem þá kæmu í land um leið, svo sem lifur o. fl. Ef við athugum, hver útflutningur þessara vara hefir verið síðustu tvö árin, þá hlýtur það að gefa okkur hinar beztu vonir um, að þótt erfiðlega hafi gengið um skeið, þá sé þar með engu slegið föstu um, að það þurfi að verða svo í framtíðinni.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að notkun lánsins, þó að það sé raunar gert mjög ýtarlega í grg. frv.

Ríkissjóður sjálfur á ekki að greiða af sínu fé nema rúma millj. af þeim afborgunum, sem gert er ráð fyrir að greiða af lánsfénu. Hitt er gert ráð fyrir, að gangi til þess að greiða afborganir af lánum banka, bæjar- og sveifarfélaga og þeirra, sem ríkisábyrgð hafa. En enda þótt þessu sé svona farið, þá þykir það einfaldast og eðlilegast, þar sem svo stendur á, að þessi lántaka fer fram vegna erfiðleika þjóðarinnar í heild, að það sé ríkissjóður, sem aðili verði í málinu og selji hinum aðiljunum gjaldeyrinn. En þá kemur sú spurning, hvað ríkissjóður eigi að gera við andvirði gjaldeyrisins, þ. e. a. s. þann hluta, sem til hans rennur. Þá er það mín skoðun, að þetta eigi ekki að vera eyðslueyrir fyrir ríkissjóð, heldur sé réttast að leggja þetta í sjóð til ávöxtunar og nota síðan til þess að greiða aukaafborganir af skuldum ríkissjóðs, þegar gjaldeyrisástandið kynni að leyfa.

Nú býst ég við, að menn hafi tekið eftir því, að í frv. sjálfu er ekkert ákvæði um það, hvernig féð skuli nota, og er það venjan að hafa það svo í frv. um lánsheimildir, til að málið liggi sem einfaldast fyrir erlendum lánardrottnum. En hinsvegar er það föst venja orðin, að í grg. frv. sé þetta nákvæmlega tiltekið og jafnframt yfirlýst af hlutaðeigandi ráðh., að hann skoði það jafnbindandi eins og það væri í lögunum sjálfum. Og mér vitanlega hefir engin stj. brugðið út af því að nota féð eins og grg. sagði fyrir um. Nú stendur að vísu sérstaklega á, þar sem ríkisstj. á að fá inn verulega upphæð fyrir sölu gjaldeyris. Átti ég þess vegna sérstaklega tal um það atriði við formenn Alþfl. og Sjálfstfl., hvort þeir teldu ástæðu til, að um það væru sérákvæði lögfest, en ekki látið nægja það, sem í grg. stendur. En þeir töldu það ekkert höfuðatriði og kváðust ekki mundu gera neinar aths. við þetta. Ég skal þó strax lýsa því yfir, að samið yrði sérstakt frv. um það, hvernig með þetta fé skuli farið, eftir þeim línum, sem lagðar eru í grg., ef óskir skyldu koma fram um það frá hv. þm.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meir um þetta mál, en vil þó aðeins taka það fram að lokum, eins og reyndar er gert í grg. frv., að við þurfum að sjálfsögðu á öllum möguleikum að halda til þess að færa niður innflutninginn, þótt þetta frv. verði samþ., bæði vegna þess, að okkur riður á að losna við þær ógreiddu kröfur, sem hér liggja, af því að gjaldeyri vantar fyrir þeim, og eins vegna þess, hversu mjög ískyggilega lítur út fyrir með aflabrögð og þar af leiðandi útflutning sjávarafurða á þessu ári. Af þessum tveim ástæðum riður okkur ekki minna en áður á því að færa niður innflutninginn, enda mun það verða gert, eins og fyrirhugað hefir verið, þrátt fyrir það, þótt lán þetta, sem hér er gert ráð fyrir, yrði tekið að einhverju eða öllu leyti.