28.04.1938
Neðri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Ólafur Thors:

Það er í sjálfu sér ekkert í þessum umr., sem gefur mér sérstakt tilefni til þess að taka aftur til máls, en þó var eitt atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem mér þykir rétt að minnast aðeins á, og það voru upplýsingar hans um það, hversu mikið auðveldara það hefði verið að fara með stjórn landsins, og þá sérstaklega fjármálastjórnina, á árunum 1924–27 heldur en nú undanfarin ár. Rökin, sem hæstv. ráðh. færði fyrir því, voru fyrst og fremst þau, að á þeim árum hefði verðlag á framleiðsluvörunum, sérstaklega saltfiskinum, verið miklu hærra heldur en á síðustu þremur árum. Hann nefndi í því sambandi það dæmi, að 1924 hefði verðið á skp. af saltfiski verið upp undir 200 kr., en 1925 og 1926 160–190 kr.. og sagði hann, að þessi ár hefðu verið mikil góðæri. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., að þessi ár hafi öll verið góðæri. Árið 1924 var einstakt aflaár og gott verðlagsár, og ég held, að ég fari rétt með, þegar ég segi, að árið 1925 hafi verið mjög sæmilegt ár, en 1926 var mjög örðugt ár, og stafaði það af þrennu, sem ég hygg, að ég muni rétt. Í fyrsta lagi var aflinn tregur, í öðru lagi var verðiagið á aflanum óhagstætt, og í þriðja lagi kom það til greina, sem skipti mjög miklu máli, að vegna langvarandi verkfalls á sviði kolaframleiðslunnar í Englandi hækkuðu kolin gífurlega í verði og komust upp í 100 kr., úr 50–60 kr., og það var þungur baggi á þá útgerð landsmanna, sem rekin var með gufuafli. En þetta er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er, að atvinnuárferðið var betra á þessum árum heldur en á síðari árum, og ég er ekki í neinum vafa um, að þau verkefni, sem ríkisstj., og ekki sízt fjármálastjórnin, hefir þurft að glíma við á þessum seinni árum, hafa verið örðugri heldur en þá, sumpart vegna þess, að rás viðburðanna hefir fært ríkisstj. í hendur ný og áður óþekkt vandamál, en að nokkru leyti vegna þess, að ríkisstj. hefir að nauðsynjalausu tekizt á hendur að leysa verkefni, sem ég hygg að hún hefði átt að láta afskiptalaus. En við skulum halda okkur að þeim kjarna málsins, að afvinnuárferðið var betra þá en nú. Einmitt með þeim rökum höfum við sjálfstæðismenn veitzt að núverandi hæstv. fjmrh. og ríkisstj. fyrir það, að hún hafi hvergi nærri sýnt tilhlýðilega varfærni í meðferð fjárlaga, sem þó að mínu viti var alveg óhjákvæmileg vegna hins örðuga árferðis. Ég hygg, að það nægi að nefna nokkrar tölur í þessu sambandi. Ég man ekki betur en að á hinu einstaka tekjuári ríkissjóðs 192,í hafi tekjurnar verið yfir 16 millj. kr., og þá hafi eigi verið notaðar yfir 8 millj. kr. til venjulegra ríkisþarfa án afborgana af ríkisskuldunum. Og þau ár, sem Sjálfstfl. fór með fjármálastjórnina, nam meðalárseyðsla ríkissjóðs rúmum 10 millj. króna, en næstu fjögur árin þar á eftir varð sú eyðsla yfir 19 millj. á ári að meðaltali. En undir stjórn núv. hæstv. fjmrh. er sambærileg fjáreyðsla ríkisins um eða yfir 20 millj. kr. á ári. Ég hefi að vísu ekki borið nákvæmlega saman, hvernig fjárlögin litu út nú, ef þau væru í sama formi og þá, en eftir síðasta landsreikningi að dæma mun þessi upphæð vera allt að tvöfalt hærri en á þessu valdatímabili Sjálfstfl., þrátt fyrir það þótt árferðið hafi verið svona örðugt síðustu ár.

Það er þetta, sem við sjálfstæðismenn höfum undanfarið verið að berjast á móti, þ. e. a. s. að þegar saltfisksverðið er ekki nema 70–80 kr. fyrir skp. og aflabrögðin 30 þús. tonn, þá skuli ríkið taka upp undir 20 millj. kr., sama ríkið, sem ekki tók fyrir áratug nema 10–11 millj. kr., þegar aflabrögðin voru 60 þús. tonn og verðlagið upp undir 200 kr., og saltfiskurinn gaf 20 –25 millj. kr. meira að meðaltali heldur en síðari ár. Þessar tölur erum við sammála um, en við drögum nokkuð mismunandi ályktanir af þeim, en ég hygg minar vera réttar.

Að öðru leyti var ekkert sérstakt í ræðu hæstv. ráðh., sem ástæða er til að gera að umræðuefni. Ég tek það fullkomlega trúanlegt, að honum hafi ekki verið kunnugt um, og hann sé ekki persónulega að saka fyrir það, að net handa fiskimönnum við Faxaflóa voru ófáanleg, en hitt tel ég, að hann hafi átt að fá vitneskju um, ef það er rétt, að útsæðiskartöflur hafi verið ófáanlegar, þrátt fyrir það, að eins og nú horfir með atvinnulíf þjóðarinnar, hefði verið sérstök ástæða fyrir ríkisstj. til að ýta undir það, að nægilegt útsæði fengist til þess að gera mönnum sem auðveldast að rækta jarðepli til eigin þarfa.