10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

103. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjörð

Einar Olgeirsson:

Mér þykir vænt um að heyra það, sem hv. þm. Barð. sagði viðvíkjandi þessu máli. Það gefur mér nokkrar vonir um, að hugsanlegt væri að fá einhverju breytt hér í d. Ég vil í þessu sambandi minnast á, hvaða tekna Hafnarfjarðarkaupstaður gæti reynt að afla sér, svo framarlega að Alþingi álíti, að rétt sé að neita honum að einhverju leyti um það, sem er stungið upp á; það eru eftirfrandi spursmál: Fyrst er kvikmyndareksturinn. Ég held, að núverandi kvikmyndahús í Hafnarfirði sé einstaklingseign, og gæti það aflað kaupstaðnum álitlegra tekna, ef bærinn tæki að sér reksturinn. Þá eru það kolaverzlanirnar. Ég þori ekki að fullyrða að þær séu ekki reknar af bænum, en ef svo er ekki, er það mál, sem rétt væri fyrir bæinn að athuga. En svo er sérstaklega eitt, sem ég vildi leyfa mér að vekja athygli þm á, og það er með útsvörin í Hafnarfirði. Eftir því sem ég veit bezt, og eftir því sem upplýstist í Ed., þá er útsvarsstiginn í Hafnarfirði þannig nú, að hann er hærri en í Reykjavík, á meðan um er að ræða tekjur neðan við 2 þús. kr. á skattstiga. En þegar kemur yfir 2 þús. kr., mun hann vera lægri en í Reykjavik. Það þýðir með öðrum orðum, að útsvarsálagning í Hafnarfirði kemur þyngra niður á lágtekjumönnum, en léttara niður á hátekjumönnum. Ég held, að m. a. hafi það verið upplýst í Ed. af hv. þm. Hafnf., að hann myndi, ef hann væri læknir hér í Reykjavík, með sömu tekjum, verða að greiða allmiklu hærra útsvar en í Hafnarfirði. Nú verð ég að segja, að þegar bæjarstjórn Hafnarfjarðar fer fram á það við Alþingi, að leyfður verði sérstakur nefskattur á mannflutninga milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, þá finnst mér hitt beri að athuga, að láta leggja a. m. k. álíka hátt útsvar í Hafnarfirði og í Reykjavík á þá, sem hafa skattskyldar tekjur yfir 2 þús. kr. Ég álít þess vegna eftir þeim upplýsingum, sem fram eru komnar í þessu máli, að það sé mjög margt, sem hægt væri að athuga, áður en sú leið yrði farin, að samþ. þetta frv. Ég vil eindregið óska, og hefi líka von um, að það verði gert, eftir ræðu hv. þm. Barð., að athugaðar verði mjög gaumgæfilega aðrar leiðir til að afla Hafnarfirði tekna heldur en sú, sem stungið er upp á í þessu frv.