19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

99. mál, iðnaðarnám

Einar Olgeirsson:

Flm. þessa frv., hv. l. þm. Árn., hefir gert að umtalsefni þær aðfinnslur, sem ég kom með við síðustu umr. út af þessu máli. Eitt af því, sem hér er farið fram á, er annarsvegar að tryggja það, að hægt sé að fá greiðari aðgang inn í iðngreinar, og meisturum sé gert unnt að fjölga nemum. En hinsvegar á með þessu frv. að taka að nokkru leyti ráðin af iðnráðunum og úr höndum þeirra aðilja, sem áður hafa haft þau. Ég þykist vita, að þetta frv. muni vera borið fram án tillits til þess, hvað viðkomandi meistarar og sveinar álita. Það hefir að engu leyti verið leitað til hinna viðkomandi samtaka á þessu sviði, enda er mér kunnugt um það, að iðnráðin hér í Reykjavík, sem saman standa af fulltrúum frá sveinafélögum og meistarafélögum, hafa haldið fund um þetta frv. og einróma mótmælt því. Það er vitanlegt, að þeir, sem þarna eiga hlut að máli, þeir sem eiga við þessa löggjöf að búa, eru algerlega á móti henni. Hér væri þá beinlinis um það að ræða, hvort hyggilegt væri af Alþ. að setja þvingunarlög gagnvart þessum samtökum í iðngreinunum. Er hyggilegt fyrir Alþ. að hverfa út af þeirri braut, að reyna að hafa samvinnu við þá aðilja, sem eiga að vinna undir þessum skilyrðum? Alþ. hefir haft samvinnu við þá fram að þessu. Hv. flm. ræddi um það, að sveinafélögin hefðu misnotað það vald, sem þau hefðu fengið með löggjöfinni, eins og hún er nú. Það þarf að skapa þarna aðgæzlu og setja tryggingu fyrir því, að alltaf séu nægir möguleikar fyrir menn að komast inn í iðnaðinn. Hv. flm. sagði, að það væri afarhart að menn, sem hefðu sérstaka hæfileika til að læra iðngreinar, skyldu ekki geta komizt þar að hér á landi og þyrftu því að sigla til þesskonar náms. Þessi ummæli eru raunar sönn, en það er æðimargt í núverandi þjóðskipulagi, sem er hart að þurfa að sætta sig við. Það er hart, að margir nemendur skuli ekki fá að halda áfram námi í skólum sökum fátæktar. Það er líka hart, að nemendur skuli vera reknir úr skólum fyrir að hafa ákveðnar skoðanir í þjóðfélagsmálum. Það er líka hart, að fjölskyldumenn skuli hvergi geta fengið vinnu. Svo framarlega, sem á að bæta úr þessu misrétti, verður að gera annað en að hóta þvingunarlögum. Það verður að auka möguleikana fyrir menn til að geta lifað og auka atvinnu manna yfirleitt. Þess vegna er ekki ráðlegt að fjölga í iðnaðinum.

Ég þarf ekki að endurtaka það hér, að ef menn fá ótakmarkað að komast að í iðnaðinum til að læra hann, þýðir það, að þeim verður sparkað út úr iðngreinunum, þegar þeir hafa lokið sveinsprófi. Það er nauðsynlegt. að atvinna manna sé aukin.

Þá talaði hv. flm. um, að hér væru tveir aðiljar á öndverðum meiði og þyrfti að fá óvilhalla dómara. Það er nú svo, að verkalýðurinn er yfirleitt vantrúaður á það, að ríkisvaldið og Alþ. séu óvilhallir dómarar í slíkum málum. Það hefir verið reynt, að hið eina, sem verkalýðurinn gæti treyst á, er hans eigin dómur, hans eigin réttur til þess að lifa.

Hv. flm. hélt því fram, að sveinafélögin hefðu misnotað þau réttindi, er þau hafa fengið. En ég vil segja, að það, sem er að gera, er að reyna að hafa áhrif á það, að slík réttindi séu ekki misnotuð. Mér er ekki kunnugt um, að mikið hafi verið gert til þess að hafa slík áhrif á sveinafél.

Það var tekið dæmi um rafvirkjastéttina. Líklega er nú nóg atvinna í þeirri grein, því að hún er bundin við ákveðinn tíma ársins, og það er einkum á vorin og haustin, sem mjög mikið er að gera í þeirri grein, og þá oft eftirvinna. En á öðrum tímum ársins gæti ég trúað, að sé lítið að gera fyrir rafvirkja og stundum atvinnuleysi. Ef ætti að nota þann mælikvarða, að allir ynnu rétta 8 tíma á dag, þegar sem mest er að gera, myndi það þýða óhemju atvinnuleysi í iðninni þess á milli. Það verður að lita með sanngirni á þetta mál. Eftir því sem blöð Framsfl. skýra frá, er nú orðinn hörgull á iðnaðarmönnum í sumum greinum. Það getur verið rétt, en til að bæta úr því verður að fara aðrar leiðir. Mér finnst sú úrbót, sem hv. flm. ætlast til með þessu frv. í þessu efni, vera misrétti; það er, að ráðin yfir aðgangi að iðnaðinum séu tekin úr höndum iðnaðarmannanna og fengin í hendur iðnn. Alþ. Það er ekki til neins að reyna að leyna því, að með þessu frv. eru áhrif iðnaðarmanna á þessa hluti að engu gerð. Að vísu mega þau gera sínar till. um fjölgun nemenda, en þau eru í þessu efni svipt öllu valdi. Frá sjónarmiði meistara og sveina lítur þetta þannig út, að valdið er fært úr höndum stéttarfélaga þessara aðilja yfir í hendur pólitískra flokka á Alþ. Og eins og Alþ. nú er skipað flokkum, sem yfirleitt taka afstöðu á móti verkalýðssamtökunum í sambandi við kaupgjaldsmálin, flokka t. d., sem sameina sig um að setja á stofn gerðardóma o. s. frv. Það er þess vegna auðséð, að út frá sjónarmiði stéttarfélaga iðnaðarmanna getur þetta ekki litið út öðruvísi en þvingunarlöggjöf. Það er tilraun til að svipta sveinana og meistarana ákvörðunarvaldi um þessi efni. Óhjákvæmileg afleiðing af þessu mundi verða aukið atvinnuleysi fyrir stéttir, sem frv. nær til.

Ég vil líka vænta þess, að hv. Alþ. taki nokkurt tillit til þess, að það afgr. þetta mál, sem þeir aðiljar segja. sem það snertir mest. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, komi til með að ræða þetta mál alvarlega við viðkomandi aðilja.

Eins og ég hefi áður tekið fram, þá veit ég til, að iðnaðarmenn hafa mótmælt þessu frv., og ég tel það ekki heppilegt að ætla að fara að setja slíka löggjöf sem þessa, sem mundi vekja harðvítuga mótstöðu hjá verkalýðsfélögunum, ekki sízt af því að vinnulöggjöfin er nú á ferðinni um leið.

Ég get verið flm. sammála um, að það sé hart fyrir menn að geta ekki komizt inn í iðnirnar, en þetta er bara ekki ráðið til að bæta úr því. Ráðið til þess er eitt og aðeins eitt, — það er að auka atvinnuna í landinu. Fyrir þeirri leið höfum við kommúnistar barizt og það er sú eina leið, sem fær er hvað þetta snertir.

Ég vil þess vegna vænta þess, að þetta frv. nái ekki fram að ganga í þeirri mynd, sem það er nú, eða neinni annari mynd, sem gæti haft svipaðar afleiðingar og þær, sem ég hefi bent á, að þetta frv. mundi hafa, ef að l. yrði.