19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

99. mál, iðnaðarnám

*Jón Pálmason:

Mér þykir rétt þegar við þessa umr. að segja nokkur orð um þetta mál. Vil ég þá byrja á því að þakka flm. fyrir flutning þess hér inn í þingið, því að það var full þörf á að breyta og bæta við þá löggjöf, sem sett var um iðnaðarnám á þinginu 1936. Það var mönnum þá ljóst, og hefir komið í ljós við reynsluna, að það mundi ekki vera heppilegt að láta fagfélögin hafa vald yfir því, hvað margir fá að læra þessa og þessa iðnina. Það er líka alveg hliðstætt því, að nemendur í skólunum ættu að fá að ráða því, hvað margir nemendur fengju inngöngu í þá. Ég býst við, að það þætti skrítið, ef nemendur í Kennaraskólanum ætluðu með samtökum að varna því, að í skólann fengju að kom fleiri menn en þeim þóknaðist. Hv. síðasti ræðumaður var að tala um, að það væri óeðlilegt, að valdið færðist frá fagfélögunum yfir til iðnn. Alþ., eða þar með til ríkisvaldsins. En þetta er einmitt það rétta og sjálfsagða, að ríkisvaldið ráði því á hverjum tíma, hvað margir fá að læra þessa og hina iðngreinina.

Iðnaðarmönnum hefir hingað til, eins og kunnugt er, verið gefið tækifæri til að okra á sinni vinnu langt fram yfir það, sem sanngjarnt er, og það tækifæri verður náttúrlega alltaf meira, eftir því sem l. standa lengur óbreytt. Það er því siður en svo vanþörf, að þetta frv. fái afgreiðslu á þessu þingi.

Hv. 5. þm. Reykv. var að tala um, að þessi breyt., sem hér er gert ráð fyrir, væri ekki lækning á meinsemdunum í þessu efni, heldur væri það, sem gera þyrfti, að auka atvinnumöguleikana og gera minni líkur til að atvinnuleysingjunum fjölgaði. En hv. þm. ætti bara að líta á, að það eru hann og hans skoðunarbræður, sem á undanförnum árum hafa unnið að því að innleiða atvinnuleysið í þetta land. Hér þarf ekkert atvinnuleysi að vera, ef rétt er að farið. Eg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál frekar að sinni, en vildi bara láta þetta koma fram þegar við þessa umr. Ég vænti þess sem sagt fastlega, að þetta þing liði ekki svo, að þetta frv. nái ekki fram að ganga.