09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Sveinbjörn Högnason:

Mér þykir það miður, að hv. flm. hefir ekki getað gefið skýrari svör en þessi við spurningum mínum. Ég var að spyrja, hvernig stæði á þessari breytingu, að nú er orðið auðveldara fyrir ríkið en fyrir Reykjavíkurbæ að fá lán erlendis, en í desember töldu blöð sjálfstæðismanna þetta þveröfugt, og að allir möguleikar ríkisins til þess væru lokaðir. Ég spurði hv. 4. þm. Reykv., hvernig hann hefði komizt að þessari nýju niðurstöðu á ferðalögum sínum. Hann svarar því nú, að það eina, sem bærinn geti ekki, sé að fá yfirfærslur í erlendum gjaldeyri.

Þetta er merkilegt. Nú skilst mér þó, þar sem hv. sjálfstæðismenn hafa klofið fjhn. um frv. um lánsheimild fyrir ríkið á þskj. 344, þá sé þeim ekkert kappsmál að sjá fyrir því að tryggja yfirfærslu á gjaldeyri, hvorki til þessara þarfa né annara.

En hafi Reykjavíkurbær enga þörf fyrir ábyrgð nema til að tryggja yfirfærslu, er ástæðulaust, að ríkið ábyrgist nokkuð nema yfirfærsluna. Eftir ræðu hv. flm. og þeim upplýsingum, sem hann hefir gefið hv. þd., kemur mjög til greina að breyta frv. í það horf. Það er miklu aðgengilegra fyrir Alþingi að veita ábyrgð á yfirfærslunni einni, og engu öðru, en að ábyrgjast, að aldrei verði greiðslufall á afborgunum.

Þegar hv. flm. túlkar 1. gr. frv. þannig, að þar sé aðeins um yfirfærslumöguleikana að ræða, en byrjar grg. frv. með því að kenna ríkislántöku þeirri, sem ein tryggir þá möguleika, um það, að hann verður að leita á náðir ríkisins um ábyrgðina, þá er sú skýring svo bersýnilega tvöfeldni og yfirdrepsskapur, að á henni tekur náttúrlega enginn mark.

Þá sagði hv. flm., að honum þyki mjög miður, að Framsfl. skuli ekki hafa talið fært, að ábyrgð verði tekin á meira en 80% af láninu. Hann er þar líka á talsvert annari skoðun en blað hans var við heimkomu hans, því að 17. apríl segir það svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Leiðin, sem nú verður að athugast, er, hvort ekki muni unnt að afla hér heima verulegs hluta þess fjár, sem þarf til framkvæmda hitaveitunnar, sumpart hjá Reykvíkingum sjálfum og sumpart hjá erlendum félögum og firmum, sem hér eigu fé innifrosið eða geymt í bönkum.“

Þegar borgarstjórinn kom heim. þá var þetta aðalleiðin. Þar af leiðamti vil ég nú spyrja hann, hvort búið sé að reyna þessa leið, sem ákeðin var af flokki hans 17. apríl. og þeir, sem að hitaveitunni eiga að búa, hafi ekki viljað leggja neitt til hennar.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni, þar sem fundartími er að verða á enda, en ég tel sjálfsagt, að áður en málið fer til n., þá gefi hv. flm. skýrari svör og greinileg um þessa hluti en hann hefir ennþá gert.